135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:26]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Fyllsta ástæða er til að hafa nokkur orð um frumvarpið áður en það gengur til lokaafgreiðslu á þinginu, kannski ekki hvað síst í ljósi þess að um er að ræða stærstu skattaniðurfellingu sem sögur fara af á Íslandi svo mér sé kunnugt.

Í frumvarpinu er lagt til að strika út allar skattskuldbindingar síðustu ára sem myndast hafa í hlutafélögum vegna frestaðs söluhagnaðar lögaðila. Það eru engar smáfjárhæðir sem liggja úti í einstökum félögum skráðar í bókhaldi þeirra sem skattskuldbinding, skuld félagsins við ríkissjóð, og er færð til skuldar eða lækkunar á eigin fé í hlutaðeigandi fyrirtæki. Fjárhæðirnar sem samanlagt hafa verið taldar fram síðan 2001–2006, á sex tekjuárum, eru 620 milljarðar kr., í söluhagnað af hlutabréfum. Sundurliðun á þessum tölum fyrir síðasta árið, árið 2006, sem er það langstærsta af þessum sex — en á því ári er fram talinn söluhagnaður hlutabréfa 336 milljarðar kr., bara á því eina ári. Ef fyrirtækin hefðu greitt af þessum tekjum, sem búið er að færa í bækur viðkomandi félaga, 18% skatt, sem hlutafélögum ber að greiða af hagnaði, væru þetta um 60 milljarðar kr. á þessu eina ári. Fyrirtækin frestuðu þessum skattgreiðslum þannig að fyrir árslok 2008, fyrir árslok þessa árs, ber þeim að standa skil á sköttum sínum þar sem fresturinn rennur út. Svo heppilega vill til, ef frumvarpið verður að lögum, að þessi skuldbinding fellur niður, hún verður strikuð út — 60 milljarða kr. niðurfelling á skuldbindingum í hlutafélögum landsins er strikuð út með einu pennastriki og allt að 100 milljarðar kr. eru þannig strikaðir út fyrir þessi sex tekjuár, 2001–2006. Þetta er stærsta skattaniðurfelling Íslandssögunnar.

Þegar skoðuð er sundurliðun á því eftir atvinnugreinum í hvaða félögum þessi söluhagnaður myndaðist kemur í ljós að langstærsti hluti af þessum 336 miljörðum kr. fyrir árið 2006 myndaðist í flokki sem heitir fasteignaviðskipti, leigustarfsemi, ýmis sérhæfð þjónusta og þar undir eru eignarhaldsfélög, 201 milljarður kr. bara undir þessum eina lið.

Ég geri athugasemdir við þetta vegna þess að ég tel að hlutafélag eins og aðrir aðilar í íslensku þjóðfélagi eigi að leggja sitt af mörkum til að standa undir velferðarkerfinu, standa undir menntakerfinu, standa undir öryggisgæslunni og standa undir samgöngunum. Það á enginn að vera stikkfrí, virðulegi forseti, og ég hlýt að spyrja: Hvað gengur nýrri ríkisstjórn til að gefa auðugustu mönnum landsins eftir skatta upp á tugi milljarða króna? Hvað gengur mönnum til? Þar sem ekki hefur tekist að hafa tök á efnahagsstjórn landsins leggjast þungar byrðar á axlir almennings í formi verðbólgu, sem þýðir kjararýrnun, sem þýðir vaxandi útgjöld án þess að tekjur vaxi á móti. Á sama tíma ætlar ríkisstjórnin að gefa 60 milljarða kr. í tekjuskatt hlutafélögum sem áttu að borga hann núna. Ég spyr: Hvað gengur mönnum til?

Þetta gera menn þrátt fyrir athugasemdir og ábendingar frá ríkisskattstjóraembættinu sem bendir réttilega á að maðkur kunni að vera í mysunni í framkvæmdinni á frestun söluhagnaðar á hlutabréfum. Samkvæmt skattalögum er fyrirtækjum heimilt að fresta hagnaði af sölu hlutabréfa við tilteknar aðstæður en þetta ákvæði, sem er orðið 10 ára gamalt í skattalögum, sá kannski ekki fyrir þá þróun sem síðar varð að fjölmörg eignarhaldsfélög hafa orðið til síðan með þá starfsemi eina að kaupa og selja hlutabréf. Dettur nokkrum manni í hug að það eigi að vera almenn regla í atvinnustarfsemi að ef fyrirtæki er rekið með hagnaði megi fresta hagnaðinum? Hvers konar vitleysa er þetta? Enda er þetta vitleysa, virðulegi forseti. Ríkisskattstjóraembættið gaf út umburðarbréf um það á sínum tíma að þessi félög, sem væru í slíkri starfsemi eingöngu, gætu ekki frestað söluhagnaði af sölu hlutabréfa en það virðist samt hafa fengið að ganga eftir.

Það er sérstakt athugunarefni hvers vegna skattyfirvöld landsins taka ekki fyrir það og ganga gegn umburðarbréfi ríkisskattstjóraembættisins. Fram kemur í umsögn embættis ríkisskattstjóra, dagsettri 3. mars, þar sem gerð er grein fyrir þessu, að þessi eignarhaldsfélög eigi ekki að hafa heimild til að fresta söluhagnaði. Hvað er þá verið að gera, virðulegi forseti? Hafa ber í huga að stærsti hluti söluhagnaðar sem var frestað er runninn frá fyrirtækjum sem samkvæmt tekjuskattslögum, 21. gr., eiga ekki að fá að fresta hagnaðinum heldur eiga að borga skatta af honum strax. Nú er verið að leggja til að fella hann niður. Mér þykja það svo alvarlegar upplýsingar að það eitt og sér hefði átt að duga til að stöðva framgang málsins. Hv. þingnefnd hefði átt að gaumgæfa þetta, kynna sér sjónarmið ríkisskattstjóraembættisins betur og taka fyrir það þannig að jafnvel þótt það sé einbeittur ásetningur ríkisstjórnarinnar að afsala ríkissjóði þessum tekjum afmarkist það þá eingöngu við þau fyrirtæki sem hafa heimild til að fresta söluhagnaði af hlutabréfum en ekki hin sem hafa það ekki. Það var ekki gert, sem segir mér að allan tímann var það ásetningur hjá stjórnarliðinu að koma þessu í gegn. Það var meðvitaður ásetningur, virðulegi forseti, hjá Sjálfstæðisflokknum og hjá Samfylkingunni að senda út ávísun á tugi milljarða kr. til fyrirtækja sem áttu og eiga lögum samkvæmt að borga skatt af söluhagnaði hlutabréfa.

Ég hlýt, virðulegi forseti, að vekja athygli á þessu og kalla eftir því að þeir sem ætla sér að bera þetta á herðum sér um ókomna framtíð geri grein fyrir sjónarmiðum sínum. Var það kannski bara sjónarspil allan tímann að Samfylkingin væri flokkur öreiganna, láglaunafólksins, öryrkjanna, lífeyrisþeganna? Hún er ekki sá flokkur. Hún er flokkur stóru eigendanna, þeirra sem eiga tugi milljarða. Það eru þeir sem eru að fá eftirgjöf á sköttum, skattskuldbindingum, í stórum stíl og það mun hafa þær afleiðingar, og á það er bent í einni umsögninni við þingmálið, að eigið fé fyrirtækjanna, þar sem skattskuldbindingin er skráð, mun hækka um milljarða kr. Að sjálfsögðu eru það fyrst og fremst fjármálafyrirtæki landsins sem munu á einni nóttu hækka eigið fé sitt um milljarða kr. vegna þess að skuld sem þau eru búin að skrá hjá sér við ríkissjóð er strikuð út og hún breytist þá í eign.

Hvað skyldu fjármálafyrirtæki í eigu Landsbanka Íslands fá mikla gjöf frá ríkisstjórninni með þessu frumvarpi? Hvað skyldi stærsti eigandinn, sem keypti Landsbankann, eða tæplega helminginn í honum, fyrir 12 milljarða kr. fá mikið í öllum þeim fyrirtækjum sem Landsbankinn á og eru í fjármálastarfsemi og eignarhaldsfélög og eru skráð með skuldbindingu vegna þess að þau hafa hagnast feiknalega á síðustu árum eins og flest önnur fjármálafyrirtæki af sölu hlutabréfa? Það er engin leið að ná því saman, virðulegi forseti, þær upplýsingar eru múraðar inni í kerfinu. Ráðherrar Samfylkingarinnar geta örugglega fengið þessar upplýsingar og ég hvet þá til þess að verða sér úti um þær. En ég vil setja fram þá ágiskun að næsta víst sé að þeir sem keyptu ríkisbankana, á því verði sem þeir greiddu á sínum tíma, fái nú meira gefið frá ríkissjóði en þeir borguðu ríkissjóði fyrir bankana. Ég vil setja fram þá ágiskun mína og tel mig hafa nokkuð sterk rök fyrir því að hún sé rétt. Ég hvet stjórnarmeirihlutann til þess að ná áttum í þessu máli, láta ekki þennan ásetning ná fram að ganga. Þeir sem munu bera ábyrgð á þessu munu þurfa að bera þá ábyrgð með sér um ókomin ár. Þetta mál mun varpa löngum skugga á þá stjórnmálamenn sem sjá til þess að þessi eftirgjöf verði að veruleika. Það mál mun aldrei deyja í íslenskum stjórnmálum ef menn ganga þessa götu til enda.

Það er ekki bara svo að verið sé að hlífa fjármálafyrirtækjunum blessuðum, sem eiga svo mikla peninga, við því að borga tekjuskatt af hagnaðinum. Svo vel er búið að þeim fyrir athafnaleysi hv. þingnefndar, fyrir athafnaleysi ríkisstjórnarinnar, að hægt hefur verið að flytja 100 milljarða kr. á aðeins þremur árum undan lögsögu íslenskra skattyfirvalda og í skjól þar sem menn borga minni eða engan skatt. Ég vek athygli á greinum Indriða H. Þorlákssonar um það efni sem ég hef ekki tíma til að fara yfir. Það eru 400 milljarðar bara á tveimur árum sem eru færðir í eignarhaldsfélög í Hollandi og Lúxemborg. Hvers vegna? Það er tvísköttunarsamningur við Holland þannig að hægt er að flytja arðinn til og frá án þess að borga af honum nokkurn skatt. Enginn skattur er greiddur af söluhagnaði frá landinu þannig að íslensku fyrirtækin skrá viðskiptin í Hollandi og koma sér undan söluhagnaði og undan því að borga skatta af honum. Svo koma þau sér undan því líka að borga skatta af arðinum — og nú brosir hv. formaður efnahags- og skattanefndar. Hann veit þetta allt saman þannig að það er nærri því jafnhá fjárhæð þessum 600 milljörðum á síðustu sex árum þar sem söluhagnaði hefur verið frestað, fjárhæð sem er búið að flytja úr landi og lítill sem enginn skattur hefur verið greiddur af og lítill sem enginn skattur mun verða greiddur af þegar arðurinn fer að flæða.

Tökum sem dæmi Landsbankann, 52% af eignarhaldi hans er í fyrirtækjum sem eru skráð erlendis og mér er næst að halda að það eignarhald sé fyrst og fremst Íslendinga sem kjósa að skrá eignarhald sitt þar vegna þess að þeir hafa fundið það út að með því móti geta þeir komist hjá því að borga skatta til íslenska ríkisins sem þeir annars hefðu gert. Þegar svona vel er búið að þessum ágætu mönnum er þá ekki verið að bera í bakkafullan lækinn með því að fella niður skattskuldbindinguna af þessum söluhagnaði, virðulegi forseti?