135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

þjóðlendur.

386. mál
[18:12]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem við flytjum saman, þingmenn þriggja flokka, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins, um að inn í lög um þjóðlendur bætist nýjar greinar sem kveða á um að sönnunarbyrðin sé færð til þess aðila sem gerir kröfu um eignarrétt í þinglýstu landi. Þetta er í rauninni mikil sanngirniskrafa og hefur verið í umræðu í þjóðlendumálum sem hafa valdið deilum og erfiðleikum víða á landinu og þá einkanlega það að ríkið hefur með ásælni gert kröfu um að fá eignarrétt yfir landi sem menn hafa sannanlega, og oft og tíðum í marga mannsaldra, greitt skatta og skyldur af og ríkið viðurkennt sem þeirra eign.

Þess eru meira að segja dæmi í þessu sambandi að ríkið hafi selt einstaklingum og sveitarfélögum land sem það síðan ásælist með kröfugerð í þjóðlendumálum og í nokkrum tilvikum hafa dómar gengið þannig að ríkið hefur með þeim hætti eignast aftur land sem það hafði þó selt við verði til aðila í samfélaginu og þegið fyrir greiðslu. Eitt skýrasta dæmið um þetta er kannski fjallið Skjaldbreiður sem ríkið, fyrir hönd Þingvallakirkju, seldi Grímsneshreppi á sínum tíma sem lét þá í staðinn koma jörðina Kaldárhöfða sem ríkið eignaðist með þessum hætti. Ríkið hafði þar með vatnsréttindi Kaldárhöfða þegar kom að virkjunum á því svæði en Grímsneshreppur hafði afréttarnotin af Skjaldbreið. Þegar þjóðlendumálin koma til þá er það aftur dæmt að Skjaldbreiður sé eign ríkisins þó að hann á sínum tíma hafi með þessum hætti komist úr eigu ríkisins.

Ég mun ekki rekja greinargerð frumvarpsins í smáatriðum en vísa til hennar og einnig munu aðrir flutningsmenn gera nánari grein fyrir þeim atriðum. Mig langar til að nota þennan ræðutíma til að gera frekar grundvallargrein fyrir þjóðlendumálinu og þeim hugmyndum sem þar eru baki, sem eru kannski einn síðasti anginn, sem við hér á hinu háa Alþingi glímum við, af sósíalismanum. Samfélag okkar hefur vissulega þegið margt gott af sósíalisma en ekki hvað því viðkemur að ríkið skuli leggja undir sig eigur. Grunnhugmyndin þar á bak við er kannski enn eldri og nær aftur til þess þegar þjóðhöfðingjar töldu að allt vald væri þeim frá guði komið og allt sem fólk ekki átti með séreignarrétti í ríkinu væri eign konungsins. Á þeirri hugmynd er það byggt að land sem einhver vafi leikur á að einstaklingar eigi sé þar með eign ríkisins, og með því að það sé eign ríkisins sé það þar með einhvers konar sameiginleg sameign fólksins í landinu.

Í þessu er mikill misskilningur fólginn vegna þess að fólkið í landinu er ekki handhafar eigna sem ríkið fer með og reyndar er það svo að oft og tíðum eru eignir sem ríkið fer með fjær almenningi en eignir sem einstakir aðilar í samfélaginu eiga. Ríkiseign á landi og yfir höfuð opinber eign á landi hefur líka þann stóra ókost að þar verður til land án hirðis, rétt eins og í fjármálageiranum getur orðið til fé án hirðis.

Við höfum séð þess mjög mörg dæmi á undanförnum árum og áratugum hvernig land sem ríkið hefur með að gera — mér er í þessu efni hugstætt land og umráðasvæði við Gullfoss, þá miklu náttúruperlu, sem lengi vel hefur verið, og er að nokkru leyti enn, í mikilli vanhirðu og miklu verri hirðu en sambærilegar náttúruperlur sem eru í einkaeigu eða í eigu sveitarfélaga. Reyndar getur eignarhald sveitarfélaga líka orkað tvímælis, sérstaklega ef það er flókið, sameign margra sveitarfélaga verður oft og tíðum fyrir sams konar hirðuleysi hins opinbera. Það þekki ég vel frá mínum uppvaxtarstað, Laugarási í Biskupstungum, sem var eign læknishéraðsins þar — hirðuleysi með jarðeignina var þar meira en mögulegt hefði verið ef um eign einstaklings eða eign eins sveitarfélags hefði verið að ræða.

Ein sterkustu rökin fyrir þjóðlendumálunum hafa gjarnan verið þau að land sem ekki tilheyrir heimatúni bónda, ekki er í nánasta nágrenni við bústað á jörð, hljóti að vera almenningseign. Það hljóti að vera eitthvað annað en einkaeign og við heyrum gjarnan talað um að hreint útilokað sé að jöklar eða einstök fjöll geti verið í einkaeigu. Um þetta má auðvitað deila. Ég vil samt ítreka þá skoðun mína, og ég sakna þess að ekki eru í þingsal fulltrúar þess flokks sem hefur kannski oftast talað fyrir eignarréttinum — það gæti að vísu orðið breyting á því núna. En það skiptir svolitlu máli að — (Gripið fram í.) ég bið þingmenn forláts á því ef ég hef ekki tekið eftir nærveru þeirra hér í salnum eða verið lítils háttar utan við mig.

Ég ætla að halda áfram ræðunni þar sem frá var horfið. Sú hugmynd að land geti ekki verið í einkaeigu vegna þess að það feli í sér einhver almenn verðmæti eins og jöklar vissulega gera, sömuleiðis fallvötn, sömuleiðis stór afréttarlönd — en í þessu sambandi skiptir máli að hve miklu leyti land er séreign einstaklings. Og það er þar sem ég held að við sem störfum á Alþingi, við sem gætum hagsmuna hinna landlausu þegna þessa lands, höfum brugðist því að það er miklu brýnna að við tryggjum þessa almennu umgengni um allt land sem ekki er beinlínis notað til ræktunar eða annarra slíkra nota, að umgengni fólks um það sé eigandanum til baga. Mjög stór hluti af landi hér á landi er óræktaður og landeigandi þarf ekki á því að halda að takmarka umferð almennings um það. Að nokkru leyti gera lög ráð fyrir því að landeiganda sé þetta ekki heimilt en þeim lögum er mjög slælega fylgt eftir og við höfum víða mjög mörg dæmi um að aðgengi fólks, m.a. að fjöllum, að opnum heiðarlöndum, sé takmarkað meira en ástæða er til.

Það er þarna sem hagsmunir hinna landlausu Íslendinga liggja en ekki í því að ríkið gangi þvert á hinn almenna eignarrétt. Með því að ríkið gangi á hinn almenna eignarrétt, eins og gert er í þjóðlendulögunum, erum við að veikja eina af mikilvægustu grunnstoðum réttarkerfisins. Þessi verndun eignarréttar er oft talin til marks um hversu gott stjórnskipulag er í löndum. Við Íslendingar höfum, samkvæmt mælingum sem hafa verið birtar, verið frekar ofarlega, ekki efstir, taldir í tíunda sæti meðal þjóða heimsins. Hjá fátækustu þjóðunum er eignarrétturinn lítils virtur og mjög freklega er gengið á hann.

Einnig má horfa til þess að þegar talað er um að óviðeigandi sé að einstök fjöll eða partar af jöklum landsins séu í einkaeigu þá á það við um margt annað sem við viljum að sé sameign þjóðarinnar. Það á við um einstakar byggingar sem við viljum öll hafa aðgang að, sem við viljum öll geta séð. Við getum ekki fellt okkur við að þær séu í einkaeigu með þeim hætti að fólki sé heimilt að gera hvað sem er við þær. Gott dæmi um þetta er sú húseign sem mikið hefur verið tekist á um hér í Reykjavík að undanförnu sem Thor Jensen byggði og var nú nýlega seld einum af afkomendum hans. Vissulega höfðu einhverjir á móti því að hún væri seld til einkaeignar en hún verður þar í sömu stöðu og mjög margar aðrar húseignir (Gripið fram í: Talaðu varlega.) sem við höldum mikið upp á. Það mikilvægasta í slíku eignarhaldi er að eigandanum verður ekki gefið frítt spil að gera hvað sem er við eignina.

Það sama á við um land. Eigandi lands hefur ekki leyfi til þess að fara með það hvernig sem er. Um slíkt gilda þau lög að hann þarf að hafa samstöðu um það við sveitarfélög, við stjórnvöld og við náttúruverndaryfirvöld að raska ekki verðmætum sem eru með vissum hætti sameign þjóðarinnar þrátt fyrir séreignarréttinn á landinu. Það er mikilvægt að hafa þessi sjónarmið í huga — með því að standa vörð um eignarhald á landi erum við ekki að segja að aðrir þegnar en þeir sem eiga jarðir séu réttlausir. Landið verður eftir sem áður sameign okkar allra og sjálfur tala ég hér sem einn hinna landlausu manna í þessu landi.

Þau rök hafa verið færð fyrir því að höfða þjóðlendumál að þar með sé verið að skera úr um réttaróvissu til langs tíma, þar með sé verið að útkljá deilumál þannig að við séum laus við þá réttaróvissu um ýmis landsvæði sem ella sé fyrir hendi. Þau rök standast ekki þær grundvallarreglur sem réttarríkið setur okkur um það að við höfðum ekki dómsmál að óþörfu. Það þarf að vera raunveruleg ástæða fyrir því að reka mál fyrir dómstólum, raunverulegir hagsmunir bak við það að málið sé keyrt þá leið. Ekki er um það að ræða í þjóðlendumálum, þ.e. sá sem gerir hér kröfu um að eignast landið, verða skilgreindur sem eigandi að því, ætlar ekki að nýta það á neinn hátt.

Við höfum einmitt gott dæmi um þetta, og hvaða árekstra þetta getur skapað, varðandi eina af þeim þjóðlendum sem ríkið hefur fengið dæmda í sína eigu núna en það eru Hrunaheiðar ofan byggðar í Hrunamannahreppi. Þar fékk ríkið, með úrskurði dómstóla, staðfest að heiðar þessar væru þjóðlenda. Í framhaldi af því fór landeigandi á bænum Tungufelli fram á að ríkið tæki þátt í að girða þessa eign sína af gagnvart því landi sem hann nýtir fyrir sitt fé og sitt beitarland, það voru ekki hans hagsmunir að hans fé gengi inn á land ríkisins eða að fé, sem ríkið leyfir að gangi á þessum heiðum, gangi inn á hans land. Hann hafði því lögvarða og eðlilega hagsmuni af því að þarna væri sett upp girðing. En svarið kom frá ráðuneytinu löngu eftir tilskilinn frest um það að svar komi og á þá leið að það hefði engan áhuga á þessari girðingu, enda vandséð hvaða hagsmuni ráðuneyti, í þessu tilviki forsætisráðuneytið, eða ríkið sem slíkt, hefur af þessu eignarhaldi. Það hafði ekkert við þetta eignarhald að gera. Þetta mál var einungis höfðað til þess að búa til einhverja ímyndaða stöðu sem síðan verður framkvæmd og er hagnýtingu landsins á þessu svæði til trafala en ekki til framdráttar.

Þetta er í rauninni sambærilegt við mál sem kom upp í kaupstað úti á landi fyrir nokkrum árum þar sem sveitarstjórn datt í hug að mæla lóðir upp að nýju. Þar hafði lóðum verið úthlutað eins og við þekkjum á Íslandi með hnitum sem kannski voru ekki allt of nákvæm enda sett löngu áður en nokkur tækni var til þess að gefa upp GPS-hnit og lóðir áttu að vera svo og svo margir metrar. Síðan höfðu íbúar í þessum kaupstað skilgreint lóðamörkin með girðingum, með trjáplöntum milli lóða og annarri slíkri venjulegri hagnýtingu. Þegar sú hugmynd kom upp að mæla þessar lóðir allar upp á nýtt kom í ljós að mörkin sem gefin voru á pappírum og mörkin á landinu sjálfu pössuðu ekki alfarið saman. Ef þessu hefði verið fylgt eftir út í æsar hefðu svo og svo margir tapað sínum trjárunnum, aðrir hefðu orðið að færa girðingarnar enn út og stækka lóðirnar og enginn hafði hagsmuni af þessu í sjálfu sér vegna þess að það vantaði engan að stækka eða minnka sínar lóðir. Það hefði verið eðlilegt ef tveir eigendur hefðu farið að deila um lóðarmörk sín í milli að fara þá í eitt einstakt mál út af því en menn sáu fljótlega að það yrði til þess eins að æsa til ófriðar að keyra slík mál yfir heilt samfélag og var því horfið frá því ráði. Það sama hefur gerst í þjóðlendumálunum. Þau hafa fyrst og fremst orðið til þess að efna til ófriðar og hafa ekki bætt neitt í samfélagi okkar.

Mig langar síðan að víkja aðeins að framkvæmd þessara mála sem hefur í raun öll verið með allt öðrum hætti en stjórnmálamenn gáfu fyrirheit um. Það má með rétti halda því fram að þróunin hafi í rauninni orðið með öðrum hætti en menn sáu fyrir. Ég er ekki einn þeirra sem studdu þjóðlendufrumvarpið og hef aldrei verið hlynntur þeim grunnhugmyndum, en samt sem áður má alveg rökstyðja að þar hafi verið á ferðinni ákveðnar grundvallarhugmyndir um skilgreiningu á afréttarlandi sem gátu kannski gengið upp.

En misbresturinn á því að saman hafi farið hinn pólitíski vilji sem kom fram við samþykkt laganna og síðan í framkvæmdinni er mjög mikill og má fyrst og fremst rekja til þess að sönnunarbyrðin varðandi eignarhald á þinglýstu landi hefur verið færð yfir á eigendur landsins en ekki á þann sem gerir kröfur um landið sem er þó í þinglýstri eigu og menn hafa greitt skatta og skyldur af til mjög langs tíma. Þá hugmynd að hægt sé að höfða mál til þess að skera úr um réttaróvissu framtíðarinnar þarf einnig að athuga í þessu sambandi. Það má vissulega segja að það gæti verið til bóta ef menn vissu alveg fyrir víst fyrir fullt og fast hvar liggi landamerki milli þess sem er opinbert land og þess sem er einkaland og milli landamerkja einstaklinga og einstakra jarða.

En það er ekki svo að þjóðlendumálin muni hjálpa okkur í þessu. Það hafa komið fram mjög alvarlegar efasemdir fræðimanna við framgang þjóðlendumálanna og við þær sönnunarreglur sem þar er stuðst við. Fræðimaðurinn Einar G. Pétursson á Árnastofnun hefur bent á í mjög góðu erindi að það mat sem menn hafa lagt á skjöl fyrri tíðar hafi í rauninni verið mat nútímamanna og mat út frá nútímaforsendum á gerningum fyrri tíða. Það er ekki nóg að lögfræðingar finni þannig skjöl því það þarf að túlka skjölin út frá þeim veruleika sem þau voru gerð í og upp á þetta hefur vantað.

Sú hugmynd réttarkerfisins í dag sem er þó sú hugmynd sem Hæstiréttur og þjóðlenduyfirvöldin vinna eftir, að líta á skráðar heimildir, þar á meðal Landnámu, sem sönnunargögn er líka mjög umdeilanleg. Þannig hefur Sveinbjörn Rafnsson fært nokkuð sannfærandi rök fyrir því að Landnáma sé í rauninni pólitískt rit af því tagi að það sé alls ekki hægt að styðjast við hana sem gagn í málaferlum sem þessum. Og það getur komið að því að sú skoðun verði almenn í fræðasamfélagi okkar að það verði einfaldlega litið á þetta sem bernsku okkar tíma að menn skuli hafa tekið Landnámu sem heilögum sannleika varðandi landamerki og þar með mundu þjóðlendumálin öll meira og minna vera fallin.

Enn skiptir líka máli í þessum efnum að þegar við leggjum þessa algeru kröfu á það að menn geti fært bréf fyrir fyrir jörðum sínum þá erum við í rauninni að gera mjög upp á milli landa eftir sögu þeirra. Því það vill til að um kotjarðir, ýmsar jarðir sem hafa lengst af verið í eigu einstaklinga en ekki komist í eigu kirkju eða konungs eru oft mjög lítil og fáfengileg skjöl og landamerkja þeirra er þar af leiðandi ekki getið í máldögum. Í rauninni hefur það dugað samfélaginu algerlega að landamerkin hafa verið í minni manna allt fram undir lok 19. aldar þegar sett voru lög sem voru að mörgu leyti sambærileg því sem menn vildu gera með þjóðlendulögunum. Þá voru sett lög um landamerki og menn skyldu lýsa landamerkjum sínum og fá mótaðila þeirra landamerkja til þess að vottfesta þau. Síðan var þessum landamerkjum þinglýst og þau hafa staðið til þessa. Út frá þessum landamerkjum hafa menn greitt skatta og skyldur og menn hafa því selt og keypt lönd í góðri trú eftir þessum landamerkjum. En nú eru bornar brigður á að þetta sé nægilegt og einkanlega horft til þess ef það tekst að finna eldri gögn en þessi. Meginreglan hefur nánast verið sú að því eldri sem gögnin eru því öruggari eru þau, því frekar eigi að taka mark á þeim. Þótt það sé ekki jafneinhlítt og ætlað er.

Þarna er hinu ritaða orði gegn hinu talaða gert hærra undir höfði en réttlætanlegt er og það sem gengið hefur í munnmælum allt fram undir aldamótin 1900, í gamla bændasamfélaginu, á í rauninni að njóta alveg sama réttar og það sem kannski var fært á blað einhverjum hundruðum árum fyrr. Með þessu er ég ekkert að kasta rýrð á öll slík gögn en vil fyrst og fremst að vekja athygli á því að með þessu móti er réttarstaða jarðeigenda sem ekki geta fundið gögn eins og þessi dregin í efa án þess að það sé nokkur réttur til að gera það.

Síðan er enginn vafi á því að menn hafa fráleitt við þau þjóðlendumál sem rekin hafa verið í samfélaginu leitað af sér allan grun varðandi skjöl. Þetta hafa margir fræðimenn bent á þar á meðal Einar G. Pétursson sem ég minntist á áðan, að það er margt skjala og gagna í skjalasöfnum sem menn hafa ekkert farið yfir. Það er í rauninni allsendis fráleitt að það sé hægt við ferli eins og þetta að komast yfir að kanna öll skjöl þar til hlítar þannig að það mun enn kalla á það að þjóðlenduúrskurðir sem núna eru kveðnir upp verði af komandi kynslóðum teknir upp að nýju og að bornar verði brigður á þá með ýmsum hætti.

Við framkvæmd þjóðlendulaga hefur hæstv. fjármálaráðherra gefið fyrirheit um, síðast á þessu þingi nú í vetur en einnig í kosningabaráttu og á síðasta kjörtímabili, að þær aðferðir sem viðhafðar eru við kröfugerð verði mildaðar.

Nú ætla ég ekki að vera svo óvæginn að halda að þar hafi ekki að neinu leyti verið komið til móts við kröfur bænda því það liggur í hlutarins eðli í raun og veru að það hefur verið gert þar sem fjármálaráðuneytið hefur tekið mið af þeim dómum sem fallið hafa. Það er fljótsagt að miklu oftar hafa þinglýstir eigendur jarða haft betur í þessum málaferlum. Það breytir ekki því að þar sem ríkið hefur náð undir sig þinglýstum löndum þá hefur það oft og tíðum gert það með mjög hæpnum réttindum og vegna þess, eins og ég vék að áðan, að það er ekki horft á sönnunargögn með algerlega hlutlausum hætti. Það er um of einblínt á gildi ritaðra gagna og of lítið gert úr gildi munnlegrar geymdar í þessu sambandi.

Þess vegna hefur það legið í hlutarins eðli að kröfugerðin hefur tekið breytingum, sumt til hins betra og kannski munar þar mest um svokallaða fjallatoppakenningu sem hefur tekið mið af m.a. málaferlum við Esju og í Smjörfjöllum, ef ég man að fara rétt með þessi örnefni.

En það er engu að síður svo að ráðuneytið hefur ekki efnt pólitísk loforð hæstv. fjármálaráðherra um að það sé byrjað að fara samningaleiðina að þessum málum. Ráðuneytið hefur heldur ekki alls kostar efnt það að ekki séu gerðar kröfur inn í þinglýstar jarðir. Á norðvestursvæðinu sem er nýjasta svæðið sem ríkið gerir kröfur í, hafa nú þegar verið gerðar kröfur inn í 40–50 þinglýstar jarðir og það eru meira að segja gerðar kröfur inn í skíðasvæði Norðlendinga og fleira mætti þar telja sem nær vitaskuld ekki nokkurri átt að ríkið skuli sælast til eignar á.

Ég gæti talað um þetta mun lengur en tími minn er nú senn á þrotum. En ég vonast til að þingið taki það til athugunar að breyta lögum þessum og hvort sem það tekst á þessu þingi eða ekki þá er þessari baráttu fráleitt lokið.