139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni uppbygginguna í Helguvík sem hefur staðið yfir í mörg ár, og hefur verið stopp af ýmsum ástæðum — og ég segi ýmsum ástæðum, jafnt efnahagshruni sem fleiru. Ég velti því fyrir mér sem formaður iðnaðarnefndar hvort við ættum að boða þessa aðila til fundar til að reyna að fá heildarmynd af því sem þarna er að gerast og hvers vegna svo illa gengur að koma þessu verki til áframhaldandi framkvæmda. (Gripið fram í: Það vantar orku.)

Við skulum hafa í huga, virðulegi forseti, að sennilega er nú þegar búið að fjárfesta þarna fyrir 20–30 milljarða kr., sem liggja þarna og gefa engan arð á þessum erfiðleikatímum. Mér er sagt að komist þessi framkvæmd þarna áfram — og við skulum líka hafa í huga að talað hefur verið um þessi verkefni af forsvarsmönnum ríkisstjórnar og stjórnarandstöðuflokka á þann veg að halda eigi áfram með þau — sé hægt að skapa þarna í kringum 2 þúsund störf fjórum til fimm mánuðum eftir að samningar mundu takast um orkuöflun og orkusölu milli aðila, þeirra sem vilja selja og þeirra sem vilja kaupa. Þetta er ekki svo lítið þegar við höfum í huga að í dag ganga 15 þúsund meðborgarar okkar atvinnulausir, sem er eitt mesta þjóðfélagsmeinið um þessar mundir, kostar okkur 30 milljarða kr., skapar engan hagvöxt og er ekkert annað en að vera ávísun á enn meiri vandræði í ríkisfjármálum og öðru sem við eigum eftir að kljást við á þessu ári.

Virðulegi forseti. Já, ég skal beita mér fyrir því að kalla á fund nefndarinnar alla þá aðila sem við getum kallað til og vilja koma til okkar og ræða málin en við skulum auðvitað hafa í huga að stundum er um viðskiptamál að ræða.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þingmaður nefndi hér, vegna þess að hann nefndi norðausturhornið, fagna því sem hefur komið frá Landsvirkjun um það sem þeir ætla að gera á norðausturhorninu á þessu ári. Ég fagna alveg sérstaklega ummælum og yfirlýsingum (Forseti hringir.) hæstv. iðnaðarráðherra um að Norðlendingar, íbúar á norðausturhorni, megi fara að búa sig undir stóruppbyggingu á norðaustursvæðinu. Ekki veitir af.