139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

NATO, Líbía og afstaða VG -- kjarasamningar -- gjaldeyrishöft o.fl.

[14:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sannarlega að ræða störf þingsins en það er þannig, virðulegi forseti, að okkur þingmönnum ber að sinna ákveðinni eftirlitsskyldu og höfum til þess ákveðin tæki, m.a. fyrirspurnir. Ég hef í tvígang spurt ítarlega um Íbúðalánasjóð og ýmislegt því tengt og ég hvet þingmenn og aðra sem áhuga hafa á málinu að kynna sér svörin, en ég spurði tvisvar sömu spurningar og í bæði skiptin fékk ég engin svör. Virðulegi forseti. Fyrirspurnin var svohljóðandi:

Hverjir veittu Íbúðalánasjóði sérfræðiaðstoð á árunum 2000–2008? Í hverju fólst aðstoðin og hversu mikið var greitt fyrir hana?

Þessu var svarað með útúrsnúningi og til að hafa þetta algerlega skýrt lagði ég fram nýja fyrirspurn þar sem þessi spurning kom líka fram:

Hvaða einstaklingar og lögaðilar veittu Íbúðalánasjóði sérfræðiaðstoð á árunum 2000–2008? Í hverju fólst sú aðstoð og hve mikið greiddi sjóðurinn fyrir hana, sundurliðað eftir einstökum sérfræðingum?

Það er afskaplega mikilvægt af ástæðum sem munu koma í ljós seinna að svör komi við þessum fyrirspurnum. Ég fékk ekki svar og fékk þess vegna lögfræðiálit, virðulegi forseti, þó að það sé náttúrlega augljóst að þetta er brot á rétti okkar, og þar segir, með leyfi forseta: „Almennt verður að telja að ráðherra sé ekki heimilt að synja alþingismanni um svör við fyrirspurn á þeim grundvelli einum að svarið feli í sér upplýsingar um greiðslu stofnana til einstaklinga eða lögaðila. Til að ráðherra sé fært að synja alþingismanni um slíkar upplýsingar verða a.m.k. að liggja fyrir í hverju tilviki fyrir sig upplýsingar um að greiðslur einstaklinga séu það viðkvæmar út frá almennum sjónarmiðum að þær eigi ekki erindi við allan þorra manna. Í tilviki greiðslna til fyrirtækja og lögaðila verður að liggja fyrir í hverju tilviki fyrir sig að um sé að ræða svo mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni að ætla megi, með tilliti til aðstæðna o.s.frv., að það geti valdið viðkomandi tjóni.“ (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að hæstv. velferðarráðherra svari þessari fyrirspurn eins og honum ber þingleg skylda til.