139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta vera handahófskennt vegna þess að ekki er tekið á neinu máli heildstætt, heldur er verið að pikka út einhverja ákveðna hluti. Ég er þeirrar skoðunar að maður leysi ekki þennan vanda með boðum og bönnum. Það verður að gefa fólki leyfi til að hafa vit fyrir sjálfu sér. Það er mín grundvallarskoðun.

Þetta er eins og í barnaeftirlitinu, við brýnum fyrir börnunum okkar hvað sé rétt og rangt en á einhverjum tímapunkti verðum við að sleppa þeim út í lífið og leyfa þeim að taka ábyrgð á eigin verkum. Ef þau vita muninn á réttu og röngu erum við búin að sinna okkar hlutverki. Ég held að með þessu sé ekki verið að leysa neinn vanda heldur sé verið að setja einhvers konar táknrænt bann sem að mínu mati mun ekki skila neinum árangri. Tíma okkar og (Forseti hringir.) peningum væri betur varið í forvarnastarf eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði um áðan.