139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:04]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fjölmargt í ræðu hv. þingmanns sem vert er að svara. Mér gefst ekki alveg tími til þess í stuttu andsvari við hann núna en ætla að koma kannski frekar inn á það í ræðu minni síðar í kvöld.

Í fyrsta lagi þetta: Samevrópskur sjóður er til umræðu á vettvangi Evrópusambandsins eins og kom fram í máli frummælanda fyrr í kvöld. Það mun skýrast hvað verður um hann árið 2014 og þangað til þurfum við að finna einhverja lausn. Hins vegar er samevrópskur sjóður eingöngu á vettvangi Evrópusambandsins en ekki til lausnar aðildarríkjum EES þannig að það vandamál er enn þá til staðar.

Gagnrýni sjálfstæðismanna snýst um það að hér er ekki verið að búa til sjóð sem dekkar kerfisáfall. (Gripið fram í: Nei …) Til að dekka kerfisáfall þyrfti að safna í innstæðum u.þ.b. 500 milljörðum kr. til að við ættum fyrir öllum þeim innstæðum sem væru tryggðar. (Gripið fram í: Það er rangt …) Hvað kostar það mikið? Að búa til sjóð sem dekkar svo stóra upphæð held ég að sé ekki ráðlegt. Það er eins og að krefjast þess að viðlagasjóður eða ofanflóðasjóður sé með svo mikið af peningum í sjóði að hann geti dekkað allt ef allt hrynur. Það er ekki skynsamlegt. Hins vegar þarf að byrja einhvers staðar og það erum við að leggja til hér.

Það sem við leggjum hér til er að vernda þær innstæður sem þorri almennings á. Það er rangt sem kemur fram í nefndaráliti sjálfstæðismanna að 95% innstæðna einstaklinga séu undir 15 milljónum. Staðreyndin er hins vegar sú að 95% einstaklinga eiga innstæður undir 15 milljónum en það eru einungis 43% upphæðarinnar, þ.e. við erum að leggja til breytingu á lögum til að hjálpa þorra almennings en ekki fjármagnseigendum. Það sem við erum að gera er að skilgreina miklu nánar hvaða innstæða nýtur tryggingaverndar, því að eins og staðan er í dag njóta allar innstæður tryggingaverndar, þ.e. verndar ríkissjóðs, og við erum líka að setja þak á þá fjárhæð sem nýtur verndar. Við erum að stíga hér mjög stór og jákvæð skref til þess að auka rétt neytenda. — Nú er tíminn búinn og ég ætla að fá að halda áfram hér í seinna andsvari.