143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[13:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurfum kannski aðeins að rúlla í gegnum lagabálkana og sjá hvort svona aldursviðmið séu á fleiri stöðum. Ég mundi telja að þetta væri bara alveg óþarfi, það er óþarft að framlengja eitthvað sem á ekki að skipta neinu máli ef menn eru hæfir á annað borð. Við erum alltaf að útskrifa fólk fyrr úr skólum. Við leggjum á það áherslu að ungt fólk útskrifist úr menntaskóla 18 ára og þar með nær það sér fyrr í menntun og reynslu og verður hæfir einstaklingar fyrr til svona starfa en áður. Því meiri óþarfi er þá að framlengja svona ákvæði að mínu mati.

Ég er líka þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera aldursviðmið t.d. á framboði til forseta eða annars slíks og við eigum að hætta að setja aldursviðmið í lögum þegar kemur að embættum hjá hinu opinbera eða kjörnum fulltrúum þjóðarinnar.

Varðandi hitt atriðið held ég einmitt að það skipti mjög miklu máli vegna þess að þegar lögin hafa verið samþykkt er mjög mikilvægt að vandað verði til verka varðandi það hvar þessi embætti verða staðsett. Gera má ráð fyrir því að það verði það sem standa muni mjög lengi. Fyrsta ákvörðunin mun skipta mjög miklu máli. Það er því engu að síður spurning hvort nefndin geti sent einhvers konar leiðbeiningar varðandi þetta en auðvitað er þetta líka matsatriði, það eru ólíkar aðstæður t.d. á höfuðborgarsvæðinu eða í mjög dreifbýlum kjördæmum.

Mér hefur oft fundist vera áhugaverð umræða varðandi það ef við ætlum að sameina og fækka almennt stofnunum ríkisins úti um land allt hvort hægt sé að færa nærþjónustu til borgaranna í auknum mæli út um dreifðar byggðir landsins með því að vera með einhvers konar þjónustufulltrúa sem vinnur þvert á allar stofnanir sem þjónustuaðili (Forseti hringir.) hins opinbera. Þá getur fólk sem býr í hinum dreifðu byggðum sótt upplýsingar (Forseti hringir.) og annað til hans en hann vinnur þó (Forseti hringir.) þvert á ráðuneyti og (Forseti hringir.) stofnanir.