143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að taka þátt í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag um þau tvö frumvörp sem eru undir, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og um breytingu á lögreglulögum, með síðari breytingum, um aðskilnað embætta lögreglustjóra og sýslumanna og hæfiskröfur. Eins og komið hefur fram hér í dag er þetta mjög viðamikið mál og hefur verið lengi í vinnslu, hefur verið lagt fram áður og ekki hlotið afgreiðslu. En það virðist hilla undir að þetta nái afgreiðslu núna.

Mig langar að reifa nokkur atriði. Sum þeirra hafa verið reifuð hér í dag og í sjálfu sér allt í lagi með það. Eins og ég hef áður sagt í andsvörum þykir mér margt gott í þessum frumvörpum, annað ekki alveg jafn gott. Það er kannski eins og sagt var hér áðan að væntanlega verður seint hægt að gera svo öllum líki.

Ég tek undir það sem hér kemur fram um að ríki og sveitarfélög þurfi að vinna þessi málefni í sameiningu, ég held að það sé afar mikilvægt. Að leita þurfi umsagnar landshlutasamtakanna til að reyna að koma þessu sem best fyrir, framtíðaruppbyggingu og skipan, ég held að það sé af hinu góða og sé kannski eina leiðin til að þetta geti notið samfélagslegrar sáttar.

Það var aðeins komið inn á það hér í dag hvernig til tókst með ríkisskattstjóra, allt í einu var það bara orðið að veruleika og landsmenn urðu ekkert sérstaklega mikið varir við það nema þá þeir sem næst málinu stóðu. Einhvern veginn tókst það afskaplega vel og hafði átt langan feril og var gert með viðamikilli aðkomu starfsmannanna sem þar unnu. Ég held að það sé eitthvað sem þarf að gæta mjög vel að í þessu máli, að verkefnisstjórnin geri þetta ekki bara ofan frá heldur taki það starfsfólk sem undir er, eða fulltrúa þeirra að minnsta kosti, með sér í þessa vinnu. Hjá ríkisskattstjóra skilst mér að allir starfsmenn hafi verið með á hálfgerðum íbúafundum, eða heimskaffifundum eða hvað við viljum kalla það, þar sem þeir lögðu í púkk um fyrirkomulagið og voru hafðir með allan tímann, sem skilaði sér í þessari jákvæðu niðurstöðu.

Eins og ég nefndi í andsvari mínu fyrr í dag hef ég áhyggjur af staðsetningunni, hvort einhverjir „núansar“ geti orðið í tengslum við það hvar þessum einingum verði fyrir komið. Þetta skiptir máli varðandi starfsemi á mörgum stöðum. Þetta eru störf sem hafa verið að hverfa úr þessum minni byggðarlögum og með endurskipulagningu og uppstokkun verður vonandi hægt að byggja upp það öryggi og traust sem þarf til að íbúunum líði betur. Það kom fram í skýrslunni sem við fjölluðum um síðasta vor að bæði lögreglumenn og íbúarnir upplifðu það að öryggi vantaði, þessi ventill væri ekki alls staðar þannig að vel væri við unað. Við höfum aðeins bætt úr því með auknu fjárframlagi til löggæslunnar sjálfrar, en það er líka mikilvægt að þessi nærtengsl týnist ekki við fækkun umdæmanna og þá breytingu sem nú er að verða. Ég tel að það sé hluti af velferðarþjónustu að þetta sé vel framkvæmt, að löggæslunni sé vel sinnt og sem víðast.

Gerðar eru athugasemdir hjá Landssambandi lögreglumanna við hæfisskilyrði og skipun embættismanna. Þeir eru ekki sáttir við þessa tillögu, hvernig eigi að skipa yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna, og telja að sér þrengt hvað það varðar, telja sig ekki geta samþykkt það. Væntanlega fer þetta þá svona í gegn ef þetta er það sem nefndin hefur komist að og það er kannski miður að gera mikið af svona stórum breytingum í mikilli andstöðu við þá sem málið fjallar um og í þessu tilfelli lögreglumenn. Það kemur vissulega líka fram í áliti þeirra að skiptar skoðanir eru um hvaða leiðir eigi að fara þar eins og sjálfsagt hjá okkur sem hér erum að ræða þessi mál.

Ég vil enn og aftur nefna þessar skipulagsbreytingar og hvetja til þess að allsherjar- og menntamálanefnd beiti sér fyrir því að Ríkisendurskoðun fari aðeins yfir það hvernig til hefur tekist með þær breytingar sem átt hafa sér stað nú þegar og nefndar eru hér í umsögnum um frumvarpið. Það er nauðsynlegt að gera það og auðvitað hefði átt að vera búið að því, það hefði átt að vera búið að taka þetta út, af því að þetta frumvarp hefur verið lengi í smíðum og þetta lá fyrir. Það er sama og með verkefnisstjórnina, það er kannski ekki alveg nógu gott verklag að ekki hafi verið búið að gera þetta.

Varðandi almannavarnanefndir sem næst eru tilteknar í nefndarálitinu þá verð ég að taka undir það, og ég held að það sé afar skynsamlegt, að það séu ekki sýslumenn heldur lögreglustjórarnir á hverjum stað, ég held að þeir séu miklu nátengdari samfélaginu sínu, sem kalla til almannavarnanefndir. Ég bý í sveitarfélagi þar sem vá er ansi oft yfirvofandi. Þá sér maður og hefur séð að lögreglumennirnir eru gjarnan fyrstir á vettvang, sýslumaðurinn er staddur í meiri fjarlægð, þannig að ég tel að það sé af hinu góða að það verði gert.

Það kemur líka fram að enginn eigi í sjálfu sér að missa vinnuna beinlínis við það að þetta verður að veruleika. Það er ánægjuefni í sjálfu sér að það er þannig. Þá er væntanlega um að ræða þessa almennu starfsmenn, þeir eiga sem sagt ekki að missa vinnuna. Ég velti því fyrir mér hvort einhverjar tilfærslur verða. Auðvitað hlýtur eitthvað að breytast í strúktúrnum og ég velti því fyrir mér hvort allir geti bara haldið sinni stöðu þar sem þeir eru staddir vegna þess að verkefni verða flutt. Það er í raun bara hálft ár þar til þetta á að gerast, mér finnst það reyndar stuttur tími í sjálfu sér til að láta þetta allt ganga upp í ljósi þess að ekki liggur fyrir að þessi stjórn sé farin að vinna þetta verkefni. Það væri áhugavert að vita hvort það hafi verið rætt í nefndinni hvað þetta varðar að allir héldu störfunum sínum á þeim stað þar sem þeir væru. Ef störfum yrði fækkað en fjölgað annars staðar, hvort fólki yrði þá boðinn einhver flutningur, en svo er það auðvitað ekkert alltaf hægt, þ.e. fólk getur ekki endilega og vill ekki endilega færa sig úr stað.

Ég er líka sammála því að gera þetta allt á einu bretti en ekki, eins og kom fram í frumvarpinu, að gera þetta í einhverjum lotum. Ég tel að það sé ekki gott, það á bara að kýla á þetta fyrst fara á í þetta á annað borð og láta þetta taka gildi allt á sama tíma.

Við höfum aðeins rætt skólamálin, Lögregluskóla ríkisins, og er nauðsynlegt að ræða þau mál mjög vel. Ég hef sem náms- og starfsráðgjafi í menntaskóla setið með unga pilta, 18 ára gamla, sem eru farnir að hlakka til, sem langar mikið að verða lögreglumenn: Nú er ég búinn með tvö ár, get ég þá ekki sótt um? spyrja þeir. Hér hefur verið rætt hvort aldurstakmörk í frumvörpum séu barn síns tíma, en mér finnst það ekki í þessu tilfelli. Ég tel að það þurfi aukinn aldur og þroska til að takast á við það mikla verkefni sem starf lögreglumannsins er. Í flóknu samfélagi sem er að verða enn flóknara fyrir lögreglumenn held ég að ekkert veiti af að auka menntunina. Ég tek undir það sem ég held að komi fram hjá félaginu að í það minnsta ætti að þurfa stúdentspróf inn í þennan skóla. Einnig má velta því fyrir sér hvort náminu sé best fyrir komið á háskólastigi eða annars staðar. Eins og kom fram á þeim fundi sem ég sótti síðasta sumar, þar sem skólastjórar lögregluskólanna á Norðurlöndunum hittust, og við ræddum hér, ég og hv. formaður allsherjarnefndar, í morgun, þá er þetta ekki eins alls staðar. Auðvitað eigum við frekar að gefa í og auka þessa menntun og vera dugleg að fylgja því eftir að embættin setji sér starfsendurmenntunaráætlanir þannig að hinir eldri eigi kost á því að fara í nám kynnast öllu því nýja sem er að gerast og geta borið sig saman við aðra, hvort sem það er hér heima, á Norðurlöndunum eða annars staðar. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Í beinu framhaldi kem ég inn á það að nefndin leggur til að í frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, um að settur verði á laggirnar starfshópur. Ég er afar ánægð með það. Sá hópur á að skila tillögu um þessi mál, þ.e. hvernig menntamálunum verður best fyrir komið og eigi síðar en 1. ágúst. Þó að tíminn sé skammur, hann er mjög knappur, þá vona ég að þegar við komum til þingstarfa næsta haust verði búið að finna því farveg hvernig þetta verður. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Mig langar aðeins í sambandi við þetta, af því að hér hef ég aðeins verið að ræða kostnað og verklag og annað því um líkt, að nefna að kostnaður við þetta liggur ekki fyrir. Einungis er talað um að þetta gæti sparað 64 milljónir vegna fækkunar yfirlögregluþjóna á næstu árum eða millistjórnenda í lögregluliðunum, það er sú eina hagræðing sem reiknuð hefur verið. Hér er talað um önnur ótalin útgjöld, húsnæði og stoðþjónustu. Ég velti því þá fyrir mér, þegar ég tala um staðsetningu embættanna eins og áðan og hvernig þetta verður allt saman, hvort það komi til að húsakostur í hinum dreifðu byggðum verði látinn ráða, þ.e. húsnæðið sem bæði lögregluembættin og sýslumannsembættin hafa haft til umráða. Það er auðvitað mjög dýr liður og ég velti því fyrir mér hvort staðsetningin komi til með að taka mið af því eða hvort eitthvað annað verður látið ráða för þegar það verður ákveðið.

Ekki liggur heldur fyrir mögulegur biðlaunaréttur embættismanna og annarra starfsmanna. Eins og fjármálaráðuneytið bendir á hefði verið heppilegra að verkefnisstjórnin hefði verið búin að koma fram með þessar hugmyndir um þetta þannig að hægt væri að setja þetta niður. Þetta þýðir væntanlega töluverðan kostnað eins og gjarnan er, það kostar stundum að spara eins og sagt er. Ég vona að það verði ekki miklir peningar vegna þess að ég held að við vildum helst geta komið því beint inn í starfið en ekki í biðlaun eða breytingar. Engu að síður telur ráðuneytið að þetta geti gefið færi á hagræðingu og ég vona að þeir fjármunir sem þar koma til með að sparast verði ekki bara til sparnaðar fyrir ríkiskassann heldur verði þeim velt aftur út í starf lögreglunnar sem hefur verið fjársvelt lengi. Þrátt fyrir að búið sé að ákveða framlag núna til næstu ára eins og gert var hér í haust, um aukna fjármuni til löggæslunnar, þá held ég að það veiti bara ekki af. Það er svo margt sem þarf að lagfæra því að eins og við vitum hefur verið þrengt mjög að þessum stofnunum eins og mörgum öðrum.

Ráðuneytið telur reyndar að ganga hefði mátt lengra og ég er eiginlega fegin því að það er ekki gert, að minnsta kosti ekki í þessari atrennu. Í ljósi þess sem ég sagði áðan, um það að ekki sé búið að taka út þær breytingar sem áður hafa verið gerðar, þá tel ég það ekki tímabært. En enn og aftur er það kannski ekki alveg ásættanlegt að ekki sé hægt að meta fjárhagsleg áhrif af þessu vegna þess að verkefnisstjórnin hefur í raun ekki hafið störf.

Að lokum langar mig aðeins að koma inn á umdæmi sýslumanna. Það er jákvætt að samstarfsnefnd eigi að starfa á milli sýslumanns, lögreglustjóra og sveitarfélaga til að tryggja góð samskipti. Það er af hinu góða og verður væntanlega til þess, eins og ég sagði áðan, að skapa meiri sátt í upphafi og gera starfið sýnilegra, bæði starf lögreglumanna og sýslumanna. Það er eðlilegt í sjálfu sér í tengslum við það hvernig byggð hefur þróast.

Það er hlutverk okkar að fylgja eftir þessum auknu verkefnum sem ætlað er að flytja til þessara embætta. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að þau verkefni sem flutt hafa verið, hvort sem það er innheimtumiðstöð sekta, Lögbirtingablaðið eða önnur opinber verkefni, hafa tekist vel. En við höfum líka brennt okkur mjög ítrekað á því að hlutirnir hafa ekki gengið eftir þannig að það er okkar sem hér störfum, okkar þingmanna, að fylgja því eftir að staðið verði við þessa aðgerðaáætlun. Ég trúi ekki öðru en að við sem hér störfum séum sammála um að fylgja henni eftir. En enn og aftur ætla ég að ljúka máli mínu með því að segja að þau frumvörp (Forseti hringir.) sem við erum hér að fjalla um snerta velferðarþjónustu landsmanna.