144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi andsvars míns byrja á að taka undir það sem hér hefur verið sagt og rætt um hvað hér vantar ákvæði um vernd uppljóstrara og hún ætti að vera tryggð. Ég vil taka undir það að ég tel, líkt og hv. þingmaður sagði hér áðan, að það hafi bæði fælingarmátt á þá sem íhuga lögbrot og geri það líklegra að þeir sem búa yfir upplýsingum komi þeim á framfæri. Þetta langaði mig að segja í upphafi andsvars míns.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þm. Jón Þór Ólafsson út í var að í ræðu sinni talaði hann um að hann treysti ekki Fjármálaeftirlitinu til að framfylgja því nógu vel að setja nógu sterkar sektir eða nógu mikil viðurlög á þá sem brjóta af sér, og vísaði þar í sektir á Dróma. Mér fannst þetta áhugaverður punktur. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann það fyrir sér, hvers konar kerfi væri betra til að ná, getum við kallað það viðunandi árangri í því að viðurlög sem þeir sem brjóta af sér fengju á sig væru nógu mikil? Hvaða leið sér hv. þingmaður í því sem væri betri?