144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:16]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að svara spurningum mínum. Þær snerust um það hvort til greina kæmi að skipa með einhverjum öðrum hætti í nefndina til að auka sjálfstæðið, kannski hefja þetta upp yfir pólitíkina að einhverju leyti, og hvort ráðherra telji mikilvægt að að halda með einhverjum hætti í þá þekkingu sem er til innan Bankasýslunnar.

Ein spurning í viðbót og þá eru þær orðnar þrjár. Ég sá það ekki í frumvarpinu en það getur vel verið einhvers staðar: Verður tryggt að andvirði af sölu bankanna verði varið í að greiða niður lán ríkisins sem eru til komin vegna hruns bankanna þegar ríkið lagði bönkunum til fé? Eða verður ef til vill farið í einhver kosningaloforð til kjósenda, einhverjar skuldaniðurfellingar eða eitthvað álíka gáfulegt?