144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur talað um þetta eins og hann vill, en staðreyndirnar liggja fyrir og koma fram í rannsóknarskýrslu um sparisjóðina. Þar er þetta allt saman rakið. Ég var sjálfur í hv. viðskiptanefnd þar sem voru kynntar fyrir mér hugmyndir Bankasýslunnar um sparisjóðina og það var ekkert farið eftir þeim. Þetta liggur allt fyrir. Sá sem vill kynna sér þetta mál varðandi SpKef og Byr getur bara farið í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, hún liggur fyrir. Það getur vel verið að maður minnist aðeins á það á eftir af því að hér koma fyrrverandi hæstv. ráðherrar og tala mikinn um armslengdarsjónarmiðin, að það sé svo nauðsynlegt að hafa heila stofnun, (Gripið fram í.)virðulegi forseti, til að viðhalda armslengdarsjónarmiðum. Það var ekki gert. Við erum búin að setja tæplega 400 milljónir í þessa stofnun og armslengdarsjónarmiðin voru bara ekki til staðar. Hv. þingmaður getur sagt nákvæmlega það sem hann vill, ég hvet menn til að skoða rannsóknarskýrsluna um sparisjóðina. Þar liggur þetta alveg hreint og klárt fyrir. Tveir sparisjóðir voru í rekstri án þess að uppfylla lögbundin skilyrði og það kostaði (Forseti hringir.) skattgreiðendur gríðarlegar fjárhæðir.