144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta ræðu. Ég tek undir það með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að það er ekkert athugavert við að ræða hlutina. En við erum samt hér í mjög ankannalegri stöðu. Í samræmi við fjárlagagerð var fyrirvari frá Framsóknarflokknum um hækkun á matarskatti. Það var mjög auðvelt að sannfæra flokkinn um að taka þátt í því að hækka skatt á matvæli landsmanna. Nú erum við með mál þar sem beinlínis liggur fyrir flokkssamþykkt — og það er ekkert sem gerðist fyrir nokkrum árum, það er innan við mánuður síðan Framsóknarflokkurinn samþykkti að Landsbankinn yrði ekki seldur og lýsti yfir stuðningi við að Bankasýslan yrði áfram starfrækt. Nú erum við með þetta mál hér í þinginu sem gengur í berhögg við það. Er það yfir höfuð til sóma að Framsóknarflokkurinn samþykki að þetta mál komi hér á dagskrá?