144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að ræða þetta mál í tengslum við umræðuna sem varð um fjárlögin. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að fjárlög eru fjárhagsrammi fyrir hvert ár en þá þarf það líka að vera þannig, eins og verið er að reyna að gera hér með ríkisfjármálaáætluninni, að það komi skilaboð og ákvörðun frá ríkisstjórnarmeirihlutanum og þinginu um það hver ramminn sé fyrir fjárlög, ekki að verið sé að stjórna, hvorki stofnunum né öðru, bara með fjárlögum. Ég sé ekki að hægt sé að ná neinu, hvort sem er samkvæmt þessu nýja frumvarpi eða öðru, nema með fjáraukalögum. Við verðum að horfast í augu við það. Þessi tillaga var svo arfavitlaus að þegar við vorum að ræða hana í desember átti stofnunin að detta út 1. janúar. Það er ekki búið að segja upp fólkinu eða neitt. Þetta voru dæmigerð hetjustjórnmál þar sem menn ætluðu sér í gegnum þennan hagræðingarhóp en svo stóð ekki steinn yfir steini. Það var engin hugsun á bak við, ekkert skipulag og ekki verið að reikna með því hvernig ráðningarkjör voru eða annað.

Ég er ekki hér að verja stofnun. Þetta snýst ekki um stofnun. Þetta snýst um vinnubrögð. Þetta snýst um það hvernig umgjörðin á að vera. Þetta snýst um trúverðugleikann á þeim ramma sem við búum til í sambandi við meðferð fjármála. Meðan við höfum ekkert betra en það sem hefur verið unnið með undanfarin ár eigum við ekki að breyta þessu. Við eigum að bíða.

Ég tek undir með hv. þingmanni að með því að færa þetta inn í ráðuneytið þurfi að búa til nýja deild þar. Hvernig ætla menn að nýta þá aðila? Ef þeir ætla að spara um 40 milljónir verður að nýta eitthvað af því fólki sem er þarna, sem vinnur í fjárlagagerðinni og öllum þeim þáttum, er allan hringinn í kringum borðið, jafnvel þótt þeir gætu skipt um hatt eða farið á milli herbergja. Þetta mun alltaf skapa tortryggni, sérstaklega miðað við það sem á undan er gengið. Það er það sem veldur (Forseti hringir.) mér áhyggjum, ekki hvort einhver stofnun er til eða ekki.