145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú eru tíu dagar frá því að hæstv. forsætisráðherra bauð til kaffisamsætis í Stjórnarráðinu með stjórnarandstöðunni, myndaði allt í bak og fyrir og allir voru hamingjusamir. Menn áttu von á því að framhaldið yrði að stjórnarandstaðan yrði höfð með í ráðum, farið yrði yfir þau mál sem ætti að afgreiða áður en kosningar færu fram og að menn væru menn orða sinna og það stæðist að það yrðu kosningar í haust.

En frá þeim tíma hefur ósköp lítið gerst. Ég sé að hæstv. forsætisráðherra gengur úr sal, ég vona að hann gangi ekki úr sal vegna orða minna. Þetta er auðvitað meira en lítið undarlegt og það er ekki hægt að fara með stjórnarandstöðuna eins og einhverja óvita, að það sé hægt að lofa einhverju upp í ermina á sér og ekki standa við neitt. Við þurfum að fara að sjá hvaða mikilvægu málefni eru á dagskrá og hvenær kosningar eiga að verða. Við viljum láta taka okkur alvarlega en ekki draga okkur á asnaeyrum. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt og við munum ekki láta kyrrt liggja ef menn ætla að haga sér svona áfram.