145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það eykur ekki trúverðugleika ríkisstjórnarinnar hvað hún dregur lappirnar í þessu máli. Auðvitað á að taka á dagskrá tillögu Vinstri grænna um að fram fari opinber rannsókn á skattaskjólum og aðkomu Íslendinga að þeim málum. Þetta eru engin smáskattsvik hjá einhverju litlu fyrirtæki sem þarna áttu sér stað. Þetta eru grafalvarlegir hlutir sem lönd út um allan heim eru núna að vinna að af fullum krafti að koma böndum á. Við Íslendingar eigum að sýna gott fordæmi og taka þetta mál upp, taka það föstum tökum en fara ekki að vísa þessu út og suður og gera formanni efnahags- og viðskiptanefndar að verkefnisstjóra í þessu verkefni, mann sem er ekki með hreina áru í þessu máli, búinn að verja þetta í bak og fyrir og eiga svo að vera sá sem stýrir þessari vinnu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað bara brandari. Auðvitað eigum við taka þetta föstum tökum (Forseti hringir.) og það væri útrétt hönd ríkisstjórnarinnar til stjórnarandstöðunnar og við mundum sameinast í þessu sjálfsagða máli og leggja fram tillöguna (Forseti hringir.) og afgreiða hana sem fyrst.