149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

nefnd um eignarhald á landi.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Vissulega er þetta mál sem hvílir mjög þungt á fólki víða um land, þ.e. hvort ekki sé ástæða til þess að setja frekari takmarkanir á eignarhald á landi.

Eins og hv. þingmaður vísaði til skipaði ég nefnd í kjölfar þess að starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skilaði skýrslu um eignarhald á bújörðum. Þá lá fyrir að þrjú ráðuneyti voru í raun og veru búin að koma að þessu máli, þ.e. fjármálaráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið — og raunar það fjórða líka, þ.e. byggðamálaráðuneytið. Ég taldi rétt að leiða öll þessi ráðuneyti saman og fara með skipulegum hætti yfir þær leiðir sem hafa verið lagðar til. Ég setti sem sagt niður nefnd og henni var falið að fjalla um, af því að hv. þingmaður spurði, skilgreiningar á landi og fasteignum án þess að nokkuð væri sérstaklega undanskilið. Til skoðunar á þessu stigi eru því í raun og veru bara fasteignir, nytjar og svo staðsetning, en áherslan er á land utan þéttbýlis.

Nefndin átti að skila af sér í síðasta mánuði en mun skila af sér í þessum mánuði. Þá tel ég að við séum komin með nokkuð góða kortlagningu á þeim leiðum sem hægt er að fara. Vilji meiri hluti þingsins setja reglur um takmarkanir á landakaupum er ég sjálf þeirrar eindregnu skoðunar að rétt sé að gera það.

Hv. þingmaður nefndi þjóðlendur. Þegar ég ræði þessi mál til að mynda á alþjóðavettvangi telur fólk það sérstaka gæfu að við Íslendingar séum með 44% af okkar landi í almannaeigu vegna þess að einmitt þar erum við að horfa á auðlindanýtingu, orkunýtingu og annað slíkt. Ég held að það væri í sjálfu sér mjög jákvætt viðbótarskref (Forseti hringir.) ef við settum síðan einhvern skýrari ramma um það hvernig við viljum sjá annars vegar landnotkun háttað eða eignarhaldi á landi.