149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

nefnd um eignarhald á landi.

[15:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið og fagna því að það hilli undir lok vinnunnar en vil jafnframt hvetja til þess að við reynum að hraða henni eins og mögulegt er.

Ég vil hafa orð á því að það sé ástæða til þess að draga enn fleiri ráðuneyti að vinnunni, m.a. umhverfisráðuneytið, því að það þarf lagabreytingar sem snúa beint að aðilaskiptum ef við ætlum að setja takmarkanir, en það þarf líka að undirbyggja þau stjórntæki sem eru til staðar fyrir stjórnvöld sem hafa áhrif á ráðstöfun og þar á meðal eru skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Ég tel það áhugavert að skoða hvernig megi nýta þær betur til að setja markmið um búsetu og sjálfbæra landnýtingu. Landeignaskrá er líka grunnforsenda. Það kom fram í svari við fyrirspurn minni um stjórnsýslu og skráningu landeigna að skortur er á uppfærðu regluverki á því sviði.

Að lokum vil ég spyrja ráðherra: Hefur birting auðlindaákvæðis stjórnarskrár (Forseti hringir.) sem kynnt var sl. föstudag áhrif á vinnuna núna á lokametrunum?