149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

nefnd um eignarhald á landi.

[15:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Svo ég byrji á því síðasta, tel ég að ef okkur lánast að samþykkja hér ákvæði sem tryggir auðlindir í þjóðareign er það jákvætt skref að mínu viti til þess að tryggja þjóðareign á auðlindum og arð almennings af auðlindum sínum. Ég biðst afsökunar á því að ég gleymdi að nefna umhverfis- og auðlindaráðherra, sem á líka sæti í þessum starfshópi. Það sem honum er ætlað að gera, og þess vegna er mikilvægt að hann ljúki vinnu sinni sem fyrst, er í raun að kortleggja leiðirnar, sem eru mjög mismunandi eftir því út frá hvaða sjónarhorni er horft, hvort við viljum hreinlega setja takmarkanir á eignarhald eins aðila á vissri stærð á landi eða fjölda bújarða. Viljum við beita skipulagslögunum í ríkara mæli, eins og við erum með dæmi um frá nágrannalöndum okkar þar sem settar eru ákveðnar skipulagskvaðir á land, eða viljum við horfa til ábúðarskyldu?

Þetta eru mjög ólíkar leiðir og ólík sjónarmið eftir því hvaðan fólk nálgast viðfangsefnið.

Ég bind vonir við að með því að ná öllum þessum sjónarmiðum saman, því að öll þessi ráðuneyti hafa sent frá sér greinargerðir um þessi mál (Forseti hringir.) út frá ólíkum sjónarhornum, ættum við að geta vænst þess að fá frumvarp á næsta þingi, sem ég held að væri mjög til bóta af því að mjög hefur verið kallað eftir því að reglurnar um þetta séu skýrar og gagnsæjar, en að það séu reglur.