149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[15:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Lífskjarasamningur er fallegt orð og vísar til eins konar samfélagssáttmála um lífskjör. Það væri auðvitað eftirsóknarvert ef stjórnvöld ynnu markvisst að því að ná víðtækari sátt við alla íbúa um slíkt til langrar framtíðar. Hér eru líka fyrirtaksskilyrði til að það sé hægt. Það er hins vegar afskaplega holur hljómur að nota slíkt hugtak um afmarkaða samninga á vinnumarkaði sem ná í fyrsta lagi aðeins til hluta verkafólks án þess að gefin séu nokkur fyrirheit um það hvernig það geti náð til allra. Það er einfaldlega fátt í fjármálaáætlun sem bendir til að mörgum af þeim sem veikast standa í samfélaginu verði boðin aðild að slíkum samningi og lítil tilraun gerð til að láta þau sem ekki kunna aura sinna tal leggja sanngjarnara af mörkum. Það er hins vegar nauðsynlegt ef slíkur samningur á að standa undir nafni.

Auk þess er margt af því sem lofað er í lífskjarasamningunum ófjármagnað í fjármálaáætlun og óútfært. Ég get nefnt skattatillögur. Í því samhengi eigum við eftir að sjá hvort þær nái upp allan stigann og hvort persónuafsláttur verður frystur, sem mun auðvitað gera launahækkanir að engu.

Þá er hægt að nefna húsnæðistillögurnar, en fyrsta útgáfa fjármálaáætlunar gerði ekki ráð fyrir nægilegu fé og ekkert er handfast komið fram varðandi fyrstu kaup.

Ríkisstjórnin virðist auk þess ætla að gefa vaxtabótakerfið upp á bátinn og barnabætur munu aftur á næsta ári fara að skerðast undir lágmarkslaunum. Þá vantar loks líka ansi mikið upp á að ráðist verði í breytingar á örorkulífeyriskerfinu.

Áhrif lífskjarasamningsins eru nánast engin á verðlag að mati Hagstofunnar og það segir auðvitað sína sögu um þá. Almennt séð hafa launahækkanir vegna lífskjarasamninga nánast engin áhrif á nýja þjóðhagsspá og framlagða fjármálaáætlun. Það segir auðvitað líka sögu um innihaldið.

Áætlanir um að stórauka framleiðni og verðmætasköpun á næstu árum munu líklega ekki gera mikið meira en að mæta þeim gríðarlegu breytingum sem eru að verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Nú er auðvitað mikilvægt að auka verðmæti og framleiðni og það getum við ef við erum tilbúin að beina sjónum í auknum mæli frá frumframleiðslu og efla hugvit og nýsköpun, efla rannsóknarsjóði og stórefla menntun. En til þess að fátækir, aldraðir, öryrkjar, námsfólk og ungar barnafjölskyldur geti líka orðið hluthafar í þessum lífskjarasamningi þarf einfaldlega að skipta gæðunum jafnar, endurskoða fjármagnstekju- og auðlegðarskatt og fá sanngjarnari arð af auðlindum þjóðarinnar.

Skattkerfið þarf líka að endurskoða frá grunni ef við eigum að geta mætt áskorun framtíðarinnar á þann veg að ójöfnuður aukist ekki til muna og stjórnvöld geti áfram haldið úti öflugri grunnþjónustu fyrir alla.

Við horfum nú fram á samningaviðræður á opinbera markaðnum, m.a. fjölmennra kvennastétta sem vinna mikilvæg störf, en flestir landsmenn eru sammála um að þau séu ekki metin að verðleikum, a.m.k. ekki til launa. Einungis er gert ráð fyrir 0,5% af launahækkunum hjá hinu opinbera umfram verðlag.

Nýútgefin þjóðhagsspá gerir ráð fyrir 0,2% samdrætti. Hin almenna aðhaldskrafa ríkisstjórnarinnar sem við, og reyndar fjármálaráð líka, höfum kallað spennitreyju, mun bíta harðast á opinberu stéttunum. Aðhaldskrafan gerir það að verkum að velferðarkerfið verði notað til sveiflujöfnunar. Þessu höfum við lengi varað við. Í meira en ár höfum við kallað eftir raunhæfari fjármálaáætlun þar sem velferðin er valið, en við sjáum hins vegar bara minni háttar breytingar á henni.

Aðkoma ríkisstjórnarinnar að lífskjarasamningnum boðar því engar grundvallarbreytingar sem miða að sanngjarnara og réttlátara samfélagi fyrir okkur öll, miklu frekar fyrirsjáanlega málamiðlun milli tveggja flokka, annars vegar vinstri flokks og hins vegar hægri flokks.

Niðurstaðan er því samfélag þar sem hinir verst stöddu fá núna vissulega ígildi pitsutilboðs á Domino´s einu sinni í mánuði og dúsur hér og þar, en engar aðgerðir sem tryggja þeim öruggara líf. Lífið mun því halda áfram með sama óréttlæti og stóra myndin er óbreytt. Að öllu óbreyttu mun svo tekjulágt fólk úr hópi aldraðra, öryrkja, námsmanna og ungs barnafólks, dragast enn frekar aftur úr.

Því langar mig að heyra viðhorf hæstv. forsætisráðherra:

Hyggst hæstv. ríkisstjórn taka mið af frumvarpi Samfylkingarinnar sem tryggir öldruðum og öryrkjum sömu kjarabætur?

Er í farvatninu stuðningur við námsmenn sem tryggir þeim betri og öruggari aðkomu?

Og að lokum: Telur ráðherra það raunhæft að yfirfæra lífskjarasamninginn (Forseti hringir.) yfir á opinberu starfsstéttirnar? Og hvaða viðhorf hefur hún til þess að meta eigi menntun til launa?