149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessa umræðu um kjaramál og kjarasamninga opinberra starfsmanna og m.a. áhrif á ríkisfjármálaáætlun. Ég vil einnig þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar innlegg og það er góður bragur á því að taka þessa umræðu í framhaldi af þeirri umræðu sem við tókum hér við hæstv. forsætisráðherra ekki alls fyrir löngu um áhrifin af lífskjarasamningum. Það er auðvitað ekki ósennilegt að sá samningur milli aðila á almenna vinnumarkaðnum móti að marki þær viðræður sem eiga sér stað um kjör og samninga opinberra starfsmanna.

Lífskjarasamningurinn er að stærstum hluta fjármagnaður í ríkisfjármálaáætluninni. Það eru einkum barnabætur og skattbreytingar sem tekur tíma að innleiða og við þurfum að sjá útfærslu á áður en þær koma inn í áætlun. Lífskjarasamningurinn felur í sér, auk hærri launa og sveigjanlegs vinnutíma, almennar kjarabætur eins og lægri skatta og aðgerða sem eiga að stuðla að lægri vöxtum.

Aðgerðir stjórnvalda í þeim samningi eru víðtækar og stuðla að almennum umbótum fyrir allt samfélagið. Stuðningur er við fjölskyldur og barnafólk með lengingu fæðingarorlofs, hækkun barnabóta og breytingu á skerðingarmörkum. Aukin framlög eru til almenna íbúðakerfisins, aðgerðir til að greiða götu ungs fólks við fyrstu íbúðarkaup og sveigjanleiki aukinn við útleigu á húsnæði og stuðningur við hagsmunasamtök leigjenda er aukinn svo eitthvað sé nefnt. Þá má nefna aðgerðir sem snúa að lífeyrismálum og félagslegum undirboðum. Stuðlað er að hóflegri hækkun gjaldskrár ríkisins, auk þess sem unnið er að því að styrkja og efla samráð um samhengi vinnumarkaðar og hagstjórnar, m.a. með útvíkkun þjóðhagsráðs.

Allt eru þetta almennar aðgerðir sem nýtast ættu í samningaviðræðum á opinbera markaðnum og snúa að réttlátara skattkerfi, uppbyggingu á félagslegu húsnæðiskerfi og eru til þess fallnar að auka jöfnuð og velsæld. Og, já, ég vil nota þetta hugtak sem hv. málshefjandi, Logi Einarsson, kom að hér áðan, (Forseti hringir.) þetta er sannkallaður samfélagssamningur.