149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:13]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Enn vitum við ekki hvort og hvernig svokallaður lífskjarasamningur nær til opinberra starfsmanna, fyrir utan ófjármögnuð fyrirheit sem enn eiga eftir að raungerast. Það vantar fjármögnun inn í áætlun um barnabætur, líka í aðgerðir í húsnæðismálum og líka til að gera kerfisbreytingu í örorkulífeyriskerfinu.

Það eru stórar stéttir, sem samfélaginu er lífsnauðsyn að starfi, sem illa hefur gengið að manna á undanförnum árum út af þeim kjörum sem þeim bjóðast, vinnuálagi, vinnutíma og vinnuaðstæðum. Þetta eru stéttir sem starfa við umönnun, kennslu, mannrækt, velferð. Þær eru skipaðar konum að stórum hluta. Þetta er fólkið sem starfar við það að láta velferðarkerfið ganga.

Stjórnvöld virðast telja sig hafa svigrúm upp á 0,5% umfram verðbólgu til að bæta kjör þessa fólks. Eftir þetta 0,1% er í fjármálaáætlun innbyggð aðhaldskrafa, sem gerir beinlínis ráð fyrir niðurskurði í velferðarkerfinu ef launakostnaður eykst, sem táknar væntanlega uppsagnir með tilheyrandi auknu álagi og verri vinnuaðstæðum. Samfélaginu er ekki bara lífsnauðsyn að þessar stéttir starfi heldur líka að þær njóti sín í starfi, blómstri þar og líði vel. Finni í stóru og smáu að framlag þeirra sé einhvers metið.

Það er eitt af helstu verkefnum stjórnvalda núna að ráða bót á því ófremdarástandi sem ríkir í mönnun á heilbrigðisstofnunum. Þá verður ríkisstjórnin að láta sér detta í hug eitthvað annað ráð en þetta venjulega, að setja bráðabirgðalög á hjúkrunarfræðinga, eins og til að tryggja að þeir fari unnvörpum eitthvert annað, í stað þess að starfa við það sem þeir hafa menntað sig til.