150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur það gerst að mörg fyrirtæki hafa ákveðið að endurgreiða stuðning sem hlutabótaleiðin hafði fært þeim. Í mínum huga sýnir þetta mikilvægi aðhalds almennings og stjórnmálamanna og einnig hversu mikil áhrif opinber umræða getur haft.

Nú hafa nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýst því yfir að sett verði þrengri skilyrði þegar leiðin verður framlengd. Það hefur legið fyrir frá því í byrjun mánaðarins. Það er mikilvægt að muna að hlutabótaleiðin er aðferð til að verja launafólk og ráðningarsamband þess við atvinnurekanda.

Í gær fékk velferðarnefnd Alþingis kynningu á meginþáttum frumvarps hæstv. félagsmálaráðherra um þetta efni og þar eru settar þröngar skorður við öllum þeim þáttum sem ráðamenn hafa rætt undanfarna daga og meira til. Því er ég nokkuð undrandi á því að hv. formaður velferðarnefndar haldi því fram, m.a. á Facebook, að meiri hlutinn á þingi hafi ekki áhuga á að setja skorður við leiðinni. Það er þvert á móti þannig að frumvarpsdrög formanns ganga ekki nærri nógu langt til að taka á þeirri stöðu að fyrirtæki kunni að notfæra sér ástandið til að skammta sér fé úr ríkissjóði. Þau skilyrði sem þar eru sett ganga mun skemmra en frumvarp ráðherra mun gera.

Löggjöf getur ekki verið afturvirk nema hún sé ívilnandi. Þegar hlutabótaleiðin var sett var það gert með tiltölulega opnum hætti þannig að hægt yrði að vernda ráðningarsamband sem flestra. Á þeim tíma lá ekki fyrir hversu lengi þetta ástand myndi vara. Það hefur að einhverju leyti skýrst en þó er enn mikil óvissa. Því miður munu margir missa störf sín. Aðgerðir stjórnvalda, svo sem í nýsköpun, munu skipta miklu í því efni að bjarga störfum og þeim störfum sem hægt er að bjarga verður bjargað með hlutabótaleiðinni og öðrum úrræðum fram eftir ári. (Forseti hringir.) Ströng skilyrði gagnvart fyrirtækjum munu tryggja að menn geti ekki skammtað sér fé úr ríkissjóði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)