150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[19:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum breytingartillögur meiri hlutans, þær eru allar til bóta. Við styðjum einnig breytingartillögur sem Píratar leggja fram en við getum ekki sætt okkur við að ekki séu sett skýr skilyrði fyrir því að þeir sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög, þeir sem setja upp fléttur og flóknar millifærslur til að svíkja undan skatti, til að komast hjá því að greiða sinn sanngjarna hlut til samfélagsins, geti átt kost á ríkisstuðningi.

Helst ættum við að banna slíka starfsemi. Það höfum við ekki gert en við eigum a.m.k. ekki að leggja þeirri starfsemi til almannafé.

Við í Samfylkingunni leggjum fram breytingartillögu til að setja þessi skýru skilyrði fyrir ríkisstuðningnum sem fylgja þessu frumvarpi sem við greiðum atkvæði um hér. Ég hvet þingmenn til að segja já við því, það er tillaga sem er sannarlega nauðsynleg.