151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

hækkanir almannatrygginga og launaþróun.

[13:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þingmaðurinn rakti það hér að við hefðum farið í ákveðnar breytingar á kjörtímabilinu fyrir þá 4 milljarða sem hafa verið til ráðstöfunar, sem voru ekki hugsaðir sem gulrót inn í það kerfi heldur til þess að geta stigið það skref sem hugsunin var að stíga með einföldun kerfisins, þ.e. að einfalda og auka gegnsæi þess. Fjármagninu var varið með þeim hætti að það gæti nýst í þá kerfisbreytingu sem þarf að fara í. Ég hef fundið það á forystu Öryrkjabandalagsins að þær efasemdir sem uppi voru á sínum tíma, og urðu til þess að menn náðu ekki saman, eru að hjaðna og betri jarðvegur að myndast. Ég held því að það hafi bara þurft aðeins lengri tíma fyrir þessa kerfisbreytingu.

Þegar kemur síðan að aukningu til málaflokksins og hvernig það er tengt verðlagi, launaþróun og öðru slíku, þá hefur skapast ákveðin hefð fyrir því hvernig það er gert. Eins og þingmaðurinn lýsir þá hefur það þau áhrif að þetta fylgir ekki alltaf gerð kjarasamninga heldur kemur þetta eftir á með ákveðnum hætti. Í stað þess að halda áfram að stagbæta þetta kerfi, sem var orðið sem notað var á málþingi Öryrkjabandalagsins í gær, held ég að fara þurfi í kerfisbreytinguna samhliða. Við erum alltaf að tala um að bæta og staga hér og þar en við þurfum að fara í þessa kerfisbreytingu. Grundvöllurinn undir því að geta aukið í til málaflokksins er síðan að við náum að draga úr nýgengi örorku og það er að takast. Fleira fólk er í endurhæfingu nú en verið hefur og aðeins dregið úr aukningu í örorkulífeyri. (Forseti hringir.) Það er það sem við viljum. Við viljum aðstoða fólk við að halda sér á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Það er forsendan fyrir því að við getum aukið í til málaflokksins en það er vilji núverandi ríkisstjórnar að gera það.