Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

húsaleigulög.

898. mál
[17:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um húsaleigufrumvarp Flokks fólksins, alveg nauðsynlegt frumvarp inn í þá óráðsíu sem er í þjóðfélaginu, sérstaklega þá óráðsíu sem ríkisstjórnin hefur skapað. Aðalatriðið í húsaleigufrumvarpi Flokks fólksins er að leigufjárhæð megi ekki hækka oftar en á 12 mánaða fresti og þá að hámarki miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs. Einnig að til ársloka 2024 hækki leigufjárhæð leigusamninga að hámarki 2,5% við endurnýjun eða framlengingu. Forgangsréttur leigjenda við leigusamning verði styrktur svo að þeir geti haldið sama húsnæði ef það verður áfram í leigu. Alveg eins verður óheimilt að hækka leigu þegar leigusamningur rennur út ef sama húsnæðið verður áfram í leigu.

Hvers vegna skyldi þetta vera nauðsynlegt? Jú, við erum í skelfilegri stöðu í dag. Svo fáránlega sem það hljómar þá er verið að henda fólki út úr leiguhúsnæði, heilu fjölskyldunum, til að leigja annarri fjölskyldu. Hugsum þetta aðeins: Fjölskylda er með húsaleigu og það er sett hækkun á húsaleiguna, jafnvel það mikil hækkun að það er vitað mál að viðkomandi ræður ekki við þá hækkun vegna þess að hækkunin er komin yfir útborguð laun viðkomandi eða tekjur. Hvað getur þá viðkomandi gert? Jú, hann stendur ekki undir leigunni og verður þar af leiðandi að fara úr húsnæðinu og inn á frumskógarmarkaðinn þar sem er barist eiginlega dauðabaráttu um hverja einustu íbúð sem er til leigu.

Þeir sem standa á bak við þetta líka eru sveitarfélög og Vinnumálastofnun. Þörfin er orðin svo gífurleg að það virðist ekki skipta neinu máli hvaða meðulum er beitt. Ef við höldum að þetta eigi eftir að skána þá getum við gleymt því. Það er verið að þjarma að húsnæðismarkaðnum í heild sinni. Það er verið að reyna með öllum ráðum að frysta húsnæðismarkaðinn en ætti einmitt að vera alveg þveröfugt. Það ætti að stórauka byggingar. Ríkisstjórnin ætti að vera löngu búin að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og setja hann alveg á sérstað. Það ætti að vera líka búið að tryggja það að það sé þak á vöxtum. Við gætum haft þakið einfaldlega, og það myndu sennilega flestir sætta sig við það, 3–3,5%. Þá gætum við einbeitt okkur að því að uppfylla þörf á húsnæðismarkaði fyrir íbúðir.

Það eru gífurlegir biðlistar eftir félagslegu húsnæði og við vorum að heyra hér að það var leitað aðstoðar sýslumanns og lögreglu til að bera út hreyfihamlaðan mann í hjólastól. Hvert erum við komin? Ég spyr bara: Hvert erum við að fara? Það er skelfilegt að við skulum leyfa okkur að vera á þessum stað. Ekki getur þetta fólk leitað til félagsþjónustunnar og óskað eftir neyðaraðstoð því að þar er langur biðlisti. Hvert á þetta fólk að fara ef það á í engin hús að venda? Á götuna? Í tjald? Í hjólhýsi í Laugardalnum? Nei, heyrðu, hjólhýsi Laugardalnum, það er verið að henda fólki þar út vegna þess að sennilega þarf að rýma fyrir útlendingum, ferðamönnum. Ég verð bara að segja alveg eins og er að það er okkur til háborinnar skammar að við skulum vera komin á þann stað að fólk þurfi að gista í bifreiðum eða í tjaldi eða bara hreinlega á götunni og að fólki sé bent á að fara í gistiskýli. Við erum rík þjóð og við eigum alls ekki að geta verið á þessum stað.

Þess ber að geta, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur, að Alma leigufélag skilaði 12 milljarða kr. hagnaði, ef við tökum bara það dæmi — 12 milljarða kr. hagnaði. Hvað greiðir þetta leigufélag í skatt af þessu? 22% skatt. Á sama tíma myndi fólkið sem er verst statt í þessu kerfi, fólk sem er í almannatryggingakerfinu, á hinum endanum, svo sannarlega sætta sig við að borga 22% í skatt og skerðingar en það er að borga 80% í skatt og skerðingar. Skyldi þessu leigufélagi sem fékk 12 milljarða í hagnað hugnast að borga 80% af hagnaðinum í skatt og skerðingar? Við getum búið til einhverjar skerðingar fyrir þetta félag. Myndi það sætta sig við að fá að halda eftir einhverjum 2,5 milljörðum og það rynnu til ríkissjóðs 9,5 milljarðar? Myndi það ekki fagna því? Þá væri nú hægt að byggja eitthvað fyrir fátækasta fólkið fyrir mismuninn. Myndi ríkisstjórnin bjóða það? Nei, þau myndu segja að ég væri galinn. Það er auðvitað ekki hægt að koma svona fram við forríkt lið sem græðir á tá og fingri. Það má bara koma svona fram við þá sem eru að hokra og reyna að lifa af í almannatryggingakerfinu. Þar eru breiðu bökin, það er fólkið sem á að borga og það er fólkið sem er fyrst og fremst verið að henda á götuna. En þetta er fólkið sem getur ekki staðið undir þessu, einstæðar mæður, einstæðir feður, það má örugglega þakka fyrir að finna á leigumarkaði einhverja íbúð fyrir 300.000 kr. á mánuði. Ef sæmileg svoleiðis íbúð er leigð út eru 200–300 manns að rífast um hana eins og hefur komið fram. Ísland í dag er uppselt. Það eru ekki til fleiri íbúðir og við erum ekki búin að sjá toppinn á ísjakanum vegna þess að nú er líka að koma ferðamannasumar og fullt af ferðamönnum að koma þannig að það á eftir að hrúgast inn. Því miður er möguleiki á að fólk fari að missa íbúðirnar sínar.

En hvað er ríkisstjórnin gera? Ekkert. Þau sjá ekki, heyra ekki, skilja ekki og tala ekki. Á sama tíma höfum við líka séð hvernig leigumarkaðurinn er og hvað er verið að leigja. Það er verið er að leigja kolageymslur, iðnaðarhúsnæði, algerlega óíbúðarhæfar íbúðir. Það myndi verða rekið upp ramakvein ef okkur dytti í hug að hafa húsdýr í því húsnæði, það væri talið dýraníð, en það er allt í lagi að leigja fólki þetta. Og fólki með börn? Ekki vandamál hjá þessari ríkisstjórn eða þeim eftirlitsaðilum sem þar eru.

Við verðum og eigum að sjá til þess að þeir verst settu hafi húsnæði. Númer eitt, tvö og þrjú á Íslandi, við þurfum húsnæði. Það gengur ekki upp á sama tíma og við erum endalaust að hækka leigu hjá fólki. Fólk sem fær útborgað 300.000 kr., svo heppið fólk að fá 300.000 kr. útborgað í almannatryggingakerfinu, það getur ekki leigt íbúð á 305.000 kr. Jú, það gæti fengið leigubætur en eins og kom fram þá skerðir kerfið það allt. Það eru 80% skerðingar í almannatryggingakerfinu og þá erum við ekki einu sinni komin inn í félagslega leigukerfið. Sérstaka leiguuppbótin, hún skerðist grimmilega. Það er búið að búa til gildrur út um allt til þess eins að láta þá sem verst hafa það og geta ekki einu sinni varið sig og vita ekki einu sinni af því lenda í þessum gildrum.

Ríkisstjórnin kemur aftur og aftur, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, og segir: Aldrei verið sett meira inn í þetta kerfi, þau hafa aldrei haft það betra. Ég held að þau ættu að horfa í spegil og horfa á sjálf sig. Þau eru ekki að tala við fólkið þarna úti vegna þess að fólkið þarna úti veit hvað það hefur og veit að það þarf breytinga við. En því miður, meðan þessi ríkisstjórn er við völd sjáum við ekki fram á þessar breytingar. Við verðum að sjá til þess að fólk þurfi ekki að fara á götuna með börn, að fólk með börn þurfi ekki að vera í bifreiðum á tjaldsvæði. Fólk er í örvæntingu nú þegar og lausnin liggur í því að samþykkja þetta frumvarp og drífa sig í því og sjá til þess að í eitt skipti fyrir öll hysji ríkisstjórnin upp um sig buxurnar, taki hendurnar frá augunum og sjái ástandið, sjái það eins og er. Að því gefna tilefni er kominn tími til þess að ríkisstjórnin hætti að skatta fátækt.