Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

bætt staða og þjónusta við Íslendinga búsetta erlendis.

325. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Frú forseti. Það er mér sönn ánægja að leggja fram þessa þingsályktunartillögu um bætta stöðu og þjónustu við Íslendinga búsetta erlendis en samkvæmt tölum Hagstofu Íslands búa tæplega 49.000 Íslendingar erlendis. Stærsti hluti þeirra, eða um 30.000, býr á Norðurlöndunum en restin dreifist á tæplega 100 lönd víða um heim. Til gamans fyrir hv. þingmenn, til að setja þetta í samhengi, má geta þess að 49.000 manns eru álíka margir og eru á kjörskrá í Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra samtals. Íslendingar búsettir erlendis lenda í alls konar vandamálum í samskiptum sínum við hið opinbera. Þröskuldarnir eru margir og oft óyfirstíganlegir. Sjálfur hef ég búið í sjö löndum í þremur heimsálfum og kynnst mörgum af þessum þröskuldum af eigin raun. Þessi tillaga miðar að því að gera lífið eilítið einfaldara fyrir Íslendinga búsetta erlendis. Tillagan leggur til 13 aðgerðir í liðum, a til m, þar sem óskað er eftir að forsætisráðherra vinni með fagráðherrum í ríkisstjórninni til að draga úr þessum vandamálum og þröskuldum. Til að undirstrika hvert atriði fyrir sig ætla ég að fara í gegnum hvern lið og skýra hann út.

A-liðurinn er um afnám sex mánaða biðtíma á sjúkratryggingum við flutning utan EES. Það er þannig að í 1. mgr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, er sjúkratrygging samkvæmt lögunum skilyrt við a.m.k. sex mánaða búsetu á Íslandi. Þetta veldur því að Íslendingar sem flytja aftur heim lenda milli skips og bryggju þegar kemur að sjúkratryggingum. Þetta á sérstaklega við um þá sem flytja út fyrir EES-svæðið og til að koma í veg fyrir það óhagræði sem hlýst af slíku millibilsástandi og til að gæta jafnræðis er eðlilegt að sjúkratrygging virkist við skráningu lögheimilis á Íslandi. Það er a.m.k. bersýnilega ósanngjarnt ef viðkomandi flytur í eina viku til lands utan EES sé hann sex mánuði að vinna sér aftur inn fyrir sjúkratryggingum. Jafnvel ef þú flytur í einn dag og svo bara sérðu: Ó nei, Bandaríkin eru ekki fyrirheitna landið. Ég ætla að flytja aftur heim. Þá ertu með sex mánuði án sjúkratryggingar.

B-liðurinn fjallar um aðgengi einstaklinga erlendis að stafrænni þjónustu með rafrænum skilríkjum, en margir angar opinberrar þjónustu sem og bankaþjónusta krefjast orðið rafrænna skilríkja nú til dags. Hægt er að nota rafræn skilríki án þess að vera með íslenskt SIM-kort. Það þarf sérstaklega að sækja um slík skilríki á íslenskri grund. Það getur því verið vandkvæðum bundið fyrir Íslendinga erlendis að sækja um slíkt erlendis og það getur haft margvísleg vandamál í för með sér, t.d. ef símanum þínum er stolið og þú vilt geta aftur farið inn með rafrænum skilríkjum þá þarft þú helst að fljúga aftur heim til Íslands. Til hagræðingar mætti bjóða upp á að sækja um rafræn skilríki í sendiráðum og hjá kjörræðismönnum og ég veit að það er verið að skoða þetta varðandi sendiráðin. En þrátt fyrir þá lausn þarf að tryggja að þessar lausnir virki hvar sem er í heiminum án mikils tilkostnaðar fyrir íslenska ríkisborgara.

C-liðurinn er um fjölgun kjörræðismanna í löndum og á svæðum þar sem ekki er nein þjónusta. Kjörræðismenn gegna mikilvægu hlutverki í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins á þeim svæðum þar sem íslenska ríkið starfrækir ekki sendiráð ásamt því að sinna ýmislegri þjónustu eins og t.d. utankjörfundaratkvæðagreiðslum. Kjörræðismenn sinna þessu hlutverki sínu án nokkurs kostnaðar fyrir íslenska ríkið. Á mörgum svæðum í heiminum er um langan veg að fara til að komast til næsta kjörræðismanns. Mikilvægt er að fara í sérstakt átak til að skipa kjörræðismenn á þeim svæðum þar sem þá skortir.

Um d-lið, um afnám skilyrða um að Íslendingar sem eru búsettir erlendis þurfi að sækja um að vera kjörskrám, má segja að í 1. mgr. 33. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er lögheimili á Íslandi ekki fortakslaust skilyrði fyrir kosningarrétti heldur má ákveða um undantekningar í lögum. Í 2. mgr. 3. gr. kosningalaga, nr. 112/2021, er kveðið á um að kosningarréttur falli brott ef íslenskur ríkisborgari hefur verið búsettur erlendis í meira en sextán ár. Eftir þann tíma þarf viðkomandi að sækja sérstaklega um að vera áfram á kjörskrá sem getur reynst torsótt eftir aðstæðum, fyrir utan að mörgum er ókunnugt um þessa reglu. Því er lagt til að kosningarréttur haldist í hendur við íslenskt ríkisfang en það sama gildir t.d. í Finnlandi.

E-liður fjallar um afnám skilyrða um búsetu á Íslandi til að eiga rétt til greiðslu ellilífeyris, en búseta erlendis ætti ekki að leiða til neinnar skerðingar á ellilífeyri. Um er að ræða áunnin réttindi sem ættu ekki að vera háð búsetu.

F-liður fjallar um að laun greidd erlendis séu tekin til jafns við laun greidd hérlendis að uppfylltum öðrum skilyrðum þegar kemur að lánveitingum. Á undanförnum árum hefur orðið æ erfiðara fyrir Íslendinga búsetta erlendis sem og Íslendinga búsetta á Íslandi sem fá laun erlendis frá að sækja um lán hjá íslenskum fjármálastofnunum því að laun þeirra eru greidd í erlendum gjaldmiðli. Skerpa þyrfti á heimild í lögum til að laun greidd í erlendum gjaldmiðli séu tekin gild til jafns við laun greidd í íslenskum krónum að öðrum skilyrðum laga um lánveitingar uppfylltum.

Í g-lið er fjallað um aukinn stuðning við íslenskukennslu fyrir íslensk börn búsett erlendis, en mikilvægt er að íslensk börn sem alast upp á erlendri grund hafi aðgang að góðri móðurmálskennslu, bæði til að örva orðaforða og þekkingu á íslensku máli, en líka til að efla málskilning á tungumáli þess lands þar sem þau búa. Rannsóknir hafa sýnt að vægi móðurmálsþekkingar er mikið þegar kemur að því að efla málvitund og málskilning almennt. Með núverandi tækni er hægt að bjóða upp á aðgang að námsefni í íslensku á fjölbreyttan og áhugaverðan hátt.

H-liður fjallar um aðgengi að íslensku barna- og fræðsluefni fyrir börn búsett erlendis. Mikilvægt er að tryggja aðgengi íslenskra barna búsettra erlendis að íslensku barna- og fræðsluefni. Til dæmis framleiðir Ríkisútvarpið töluvert af barnaefni sem er ekki aðgengilegt utan landsteinanna. Hægt væri að bæta úr þessu með því að t.d. útbúa sérstakan aðgang tengdan rafrænum skilríkjum af vefsíðu Ríkisútvarpsins fyrir Íslendinga búsetta erlendis.

I-liður fjallar um greiðari leið fyrir maka íslenskra ríkisborgara til að komast til Íslands sem og að öðlast íslenskan ríkisborgararétt, en greiða þarf leið fyrir maka íslenskra ríkisborgara til að fá vegabréfsáritun til Íslands sem og að fá íslenskan ríkisborgararétt. Á þetta einkum við um tilvik þar sem fjölskyldan er búsett erlendis en erfitt getur reynst einstaklingum sem hafa ríkisborgararétt frá ríkjum utan Schengen-svæðisins að fá vegabréfsáritun til Íslands þrátt fyrir að vera giftir íslenskum ríkisborgurum. Takmarkaður fjöldi sendiráða Íslands utan Evrópu gerir Íslendingum búsettum erlendis svo enn erfiðara fyrir að útvega vegabréfsáritun fyrir erlenda maka sína. Í öðru lagi er dvalarleyfi til sambúðarmaka háð því skilyrði að viðkomandi aðilar hafi verið í sambúð í a.m.k. eitt ár en almenn vegabréfsáritun gildir ekki svo lengi. Viðkomandi par getur því ekki hafið sambúð sína á Íslandi heldur þarf það að búa saman erlendis í heilt ár og einnig að fá þar til gerð vottorð frá þarlendum yfirvöldum sem staðfesta búsetuna. Í þriðja lagi er réttur til ríkisborgararéttar sambúðarmakans háður því að parið hafi verið búsett á Íslandi ýmist í fjögur eða fimm ár eftir því hvort það er gift eða í skráðri sambúð. Réttur til ríkisborgararéttar getur því ekki skapast þrátt fyrir margra ára sambúð erlendis.

J-liður fjallar um að íslenskur ríkisborgari fæddur erlendis missi ekki ríkisborgararétt við 22 ára aldur ef hann hefur ekki átt lögheimili á Íslandi. Margir Íslendingar búsettir og fæddir erlendis eru ekki meðvitaðir um að þeir missa ríkisborgararétt sinn við 22 ára aldur ef þeir bregðast ekki við. Það er stórmál að missa ríkisborgararétt og getur skapað Íslendingum búsettum erlendis mikinn vanda við að öðlast hann aftur. Íslendingar eru fámenn þjóð og ekki er ástæða til að grípa til slíkra reglna til að sporna við fjölda Íslendinga.

K-liður fjallar um útgáfu íslenskra vegabréfa á erlendri grund, t.d. með auknu samstarfi við sendiráð Norðurlanda. Það getur reynst vandkvæðum bundið fyrir Íslendinga búsetta erlendis að endurnýja vegabréf sín, t.d. ef þau týnast. Með auknu og góðu samstarfi við önnur ríki væri hægt að bæta þessa þjónustu með lítilli fyrirhöfn.

L-liður fjallar um meðlagsgreiðslur til einstaklinga búsettra erlendis þar sem meðlagsgreiðandi er búsettur á Íslandi, en skv. 67. gr. barnalaga, nr. 76/2003, greiðir Tryggingastofnun ríkisins aðeins út meðlag til rétthafa gegn því skilyrði að hann sé búsettur á Íslandi. Móttakendur meðlags fá því ekki greitt meðlag fyrir hönd meðlagsskylds aðila frá Tryggingastofnun ríkisins, jafnvel þótt meðlagsskyldi aðilinn sé búsettur á Íslandi. Í frumvarpi til laga sem urðu að núgildandi barnalögum var ekki að finna þetta búsetuskilyrði áður en það kom inn til þingsins. Því var hins vegar breytt í meðförum allsherjarnefndar til að gæta samræmis við þágildandi 9. gr. a laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, um að meginreglan um greiðslu almannatrygginga væri háð búsetu á Íslandi. Meðlag er hins vegar eðlisólíkt stuðningi ríkisins við fólk sem á rétt til greiðslu lífeyris af hálfu hins opinbera. Foreldrar eru framfærsluskyldir gagnvart börnum sínum skv. IX. kafla barnalaga til að tryggja sem best hagsmuni barnsins. Það samræmist því ekki jafnræðisreglu að mismuna börnum með þessum hætti eftir búsetu. Þá verður ekki séð að innheimta af hálfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé torveldari eftir því hvort móttakandi greiðslunnar er búsettur hérlendis eða erlendis.

Að lokum er m-liður um afnám skilyrða um lögheimili, búsetu og tekjur á Íslandi til að eiga kost á úrræðum vegna skuldavanda en skv. 1. mgr. 4. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er það almennt skilyrði fyrir því að leita greiðslustöðvunar, nauðasamnings eða gjaldþrotaskipta að skuldarinn eigi lögheimili á Íslandi. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun, nr. 101/2010, geta almennt þeir einir leitað greiðsluaðlögunar sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Jafnframt er meðal skilyrða fyrir afskrift krafna vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem eru orðnar meiri en tíu ára gamlar að greiðsluáætlun vegna launaafdráttar sé í gildi skv. 1. mgr. 16. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, en slík greiðsluáætlun fæst aðeins gerð ef gjaldandi hefur launatekjur á Íslandi. Vegna þessara skilyrða hafa margir einstaklingar sem hafa flutt á brott frá Íslandi ekki getað leitað lausna vegna skuldavanda. Þessi ströngu skilyrði geta líka bitnað á Íslendingum búsettum hérlendis í þeim tilvikum þar sem þeir hafa lánað veð til einstaklings sem fluttist úr landi.

Eins og sjá má á þessari upptalningu eru þröskuldarnir margir og misháir. Því leggjum við til að farið verði í markvissa vinnu við að lækka þessa þröskulda og tryggja þar með bætta þjónustu við þann stóra hóp Íslendinga sem er búsettur á erlendri grund. Hér er um að ræða álíka stóran hóp, eins og áður sagði, og býr í Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi samanlagt og því er eftir einhverju fyrir þingmenn að slægjast að koma vel fram við þennan hóp mögulegra kjósenda. Það er von mín að framlagning þessarar þingsályktunartillögu veki athygli á þeim vandamálum sem Íslendingar búsettir erlendis lenda í og að hún verði til þess að þing og ríkisstjórn hugsi betur um þennan mikilvæga hóp.

Að lokum langar mig að benda á að flutningsmenn þessa frumvarps eru þingmenn Pírata og Flokks fólksins og að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að málinu verði vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.