Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

bætt staða og þjónusta við Íslendinga búsetta erlendis.

325. mál
[18:04]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir frábæra þingsályktunartillögu sem við í Flokki fólksins styðjum, eins og fram kom. En það sem mér finnst rétt að ræða örlítið í þessu máli er hvers vegna öll þessi mál hefur dagað uppi. Maður hefur heyrt þessara mála getið, t.d. eins og þessarar sex mánaða reglu til að komast aftur inn í íslenska tryggingakerfið. Þetta kemur alltaf upp reglulega og eru eiginlega hræðileg dæmi þar um. Síðan eru sjálfsagðir punktar í þessari þingsályktunartillögu, svo sem að tryggja aðgengi íslenskra barna, sem búa utan landsteinanna, að íslenskukennslu og fræðandi efni. Þetta er ekki eitthvað sem stjórnvöld eiga að líta á sem einhvern kostnað eða eitthvað. Þetta eru bara tækifæri. Það eru mikil tækifæri í að gera betur í þessu þannig að það væri fróðlegt að fá það fram, sérstaklega hjá hv. þingmanni sem hefur búið í sjö löndum, hvernig hann upplifði það: Hvar eru þröskuldarnir og hvers vegna er þetta mál ekki bara löngu komið út af borðinu?