Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

bætt staða og þjónusta við Íslendinga búsetta erlendis.

325. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Bara örstutt varðandi það að hleypa góðum málum áfram: Í breska þinginu er það t.d. þannig að ráðherrar geta gefið út yfirlýsingar þar sem er einfaldlega sagt: Ég mun ekki setja mig upp á móti þessu máli. Þannig fá góð þingmannamál hraða og góða meðferð innan þingsins vegna þess að fólk setur sig ekki upp á móti málum.

Varðandi íslenskukennsluna þá er það satt að tæknin hefur breyst mikið og það hefur opnað mörg tækifæri. Það er líka þannig, eins og við nefnum í þingsályktunartillögunni, ógrynni til af efni, t.d. barnaefni, og málþroskinn hjá sérstaklega yngstu krökkunum áður en þau byrja í skóla kemur mjög oft í gegnum það að horfa á barnaefni á íslensku, rétt eins og tvítyngd börn sem eru íslensk og af einhverjum öðrum uppruna nýta sér það að hlusta á barnaefni á ensku til að viðhalda því máli.

Það er fullt af tækifærum og ég reyndi að ítreka það hérna tvisvar og benda fólki á hvað það væru nú margir Íslendingar erlendis í samanburði við hve margir eru á kjörskrá. Það er tækifæri til að sinna þessum hópi vel. Mér er alveg sama hvaða flokkur tekur þetta upp á sína arma og ef ríkisstjórnin vill taka þetta upp á sína arma — ég þarf ekki að fá heiðurinn af því að við séum að styðja Íslendinga betur, heldur eru það Íslendingar erlendis sem eiga það skilið að við séum að sinna þeim betur hér á Alþingi. Varðandi Frakkland þá eiga Frakkar erlendis nokkur sæti á franska þinginu. Það er sérkjördæmi. (Gripið fram í: Já.)Spáið í það.