Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

923. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi, tiltölulega einföldu, og með mér á þessu máli eru samflokksmenn mínir í þingflokki Viðreisnar, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þessu frumvarpi er ætlað að tryggja að fjölmiðlar geti sagt fréttir af dómsmálum í opnum réttarhöldum, líkt og vera ber í lýðræðisríki. Auðvitað er það jú meginreglan eins og við vitum og því lögmáli er jú jafnan fylgt en þó eru til undantekningar í framkvæmd sem að mínu mati og að mati þingflokks Viðreisnar ganga allt of mikið gegn rétti fjölmiðla til að upplýsa almenning um hvað gerist í dómsal í stóru sakamáli þar sem miklir hagsmunir eru í húfi, ekki bara hagsmunir málsaðila, sakborninga í málinu, heldur gildir það um allan almenning líka.

Markmiðið er auðvitað einfalt. Það er að standa vörð um traust í garð dómstóla með því að tryggja að fjölmiðlaumfjöllun sé ekki skert nema sérstök rök séu fyrir því. Í 70. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila.“

Það er því meginregla að dómþing skuli halda fyrir opnum tjöldum og það er heimild fyrir undantekningum frá þessu samkvæmt ákvörðun dómara af velsæmisástæðum eða ef allsherjarregla, öryggi ríkisins eða hagsmunir aðila krefjist þess og í þannig aðstæðum er auðvitað rétt og eðlilegt að réttarhöld séu lokuð.

En við erum að tala um allt annað hér. Þetta mál sem hér er flutt snýst um annað. Við erum að tala um að lögin eins og þau eru núna séu túlkuð þannig að þótt dómþing sé opið þá megi fjölmiðlar samt ekki fjalla um það vikum saman. Það stenst auðvitað enga skoðun og verður að leiðrétta. Reglan um opin réttarhöld er ekki til komin af því bara. Hún er í gildi vegna þess að dómstólar fara með mikilvægt vald og það er okkar almennings að hafa eftirlit með þeim. Hún er líka í gildi vegna þess að fyrir dómi er túlkun laga ákveðin og réttindi og skyldur almennings. Opin réttarhöld stuðla að því að við þekkjum öll þennan rétt og reglan er ekki síst í gildi vegna þess að gagnsæi eykur traust í garð réttarkerfisins og það traust skiptir öllu máli. Inn í þetta fléttast svo auðvitað aðhaldshlutverk fjölmiðlanna, þ.e. aðhaldshlutverk sem snýr að lögreglu sem rannsakar mál, ákæruvaldi sem eftir atvikum vinnur þau til dómstóla sem síðan dæma í málinu. Þannig að þetta er aðhald með öllum þessum aðilum og svo er þetta auðvitað líka bara sjálfsagður upplýsingaréttur almennings til fræðslu og til að menn séu meðvitaðir um réttindi sín, eins og ég rakti hér áðan.

Réttur fjölmiðla til umfjöllunar er að sjálfsögðu um leið réttur almennings til aðgangs að dómi. Það geta ekki allir nýtt sér þennan mikilvæga rétt. Fólk er í vinnu á meðan aðalmeðferð fer fram og á heima víðs vegar á landinu og því er af fjölmörgum öðrum ástæðum ekki fært að vera viðstatt. Fjölmiðlar eru í dómsal þá fulltrúar þessara einstaklinga og þeir eru auðvitað mikið að fylgjast með málum sem varða almenning miklu eins og við þekkjum öll.

Forsagan að þessu tiltekna frumvarpi er í raun þessi: Í janúar sl. hófst aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem varðar innflutning á fíkniefnum. Þetta er eitt stærsta mál sinnar tegundar sem upp hefur komið. Eitt stærsta slíkt mál sem komið hefur til kasta íslenskra dómstóla, óheyrilegt magn af fíkniefnum, auðvitað þungir fangelsisdómar undir og við upphaf aðalmeðferðar tilkynnti dómarinn að óheimilt væri að greina frá því sem sakborningar eða vitni segðu í skýrslum sínum í þinghaldi þar til að öllum skýrslutökum væri lokið og þar var vísað til 1. mgr. 11. gr. laga um meðferð sakamála eftir téðar breytingar. Skýrslutökur í málinu stóðu yfir í sjö vikur samfleytt og var fjölmiðlum óheimilt að greina frá því sem kom fram við meðferð málsins allan þann tíma. Fjölmiðlar máttu með öðrum orðum ekki vitna í það sem menn báru þarna fyrir dómi í sjö vikur. Lagagreinin sem vísað var í hljóðar svo:

„Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur.“

Þetta orðalag „meðan á henni stendur“ er svolítið lykilatriði í þessu. Þetta var auðvitað mjög umdeilt enda fáheyrt að fjölmiðlar geti ekki og megi ekki segja fréttir sem skipta máli og varða okkur öll miklu svo vikum skiptir. Við skulum hafa í huga að þetta var opið réttarhald. Þarna gat hver sem er setið og fylgst með. Þarna gat hver sem er hlustað og auðvitað sagt hverjum sem er hvað þarna gerðist. Það voru engin takmörk á því hvað fólk sem var viðstatt réttarhöld gat gert með þær upplýsingar. Auðvelt var því að koma skilaboðum um frásagnir á milli manna, hvort sem fjölmiðlar máttu gera það eða ekki. Í þessu tilviki teljum við að allt of langt sé gengið, enda liggur fyrir að þetta tiltekna fjölmiðlabann í þessu máli gat ekki orðið til þess að upplýsingar bærust ekki á milli vitna eða aðila. Fjölmiðlabannið tryggði ekki það að koma í veg fyrir sakarspjöll.

Í þessu máli, þ.e. lagagreininni sem ég vitnaði til og dómarinn vísaði til í þessu tiltekna þinghaldi, var verið að breyta lögum árið 2019 og þessar breytingar voru til komnar vegna tækniframfara síðustu ára. Nú er hver maður sinn eigin fjölmiðill, með hágæðamyndavél og tækni til útsendinga í beinni. Í greinargerð með frumvarpinu sagði þá að rétt þætti að taka af öll tvímæli um að öðrum en dómstólnum sjálfum væri óheimilt að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi, streyma hljóði eða mynd eða senda annars konar endursögn í samtíma. Þar sagði líka að hætta væri á að framburður vitna mengaðist ef þau gætu fylgst með skýrslugjöf annarra í beinni útsendingu utan dómsals. Þarna var sem sagt, þegar þessu var breytt á sínum tíma, öll áhersla lögð á samtímafrásögn og beina útsendingu, enda var orðalag frumvarpsins í upphafi þannig að óheimilt væri að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn úr skýrslutökum.

Þessu var breytt síðan við meðferð þingsins og segir í lögunum eins og þau voru samþykkt og gilda nú:

„Óheimilt er … að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur.“

Og um þetta á sínum tíma sagði meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar í nefndaráliti að fjölmiðlum væri, með leyfi forseta: „… frjálst að greina frá því sem fram kom í skýrslutöku þegar henni er lokið“. Þarna komum við aftur að þessu lykilorðalagi þegar talað er um skýrslutöku á meðan á henni stendur. Enn fremur sagði þar að það teldist ekki samtímaendursögn, með leyfi forseta:

„… ef frétt er birt þegar skýrslutöku er lokið eða fréttamaður kemur í beina útsendingu og greinir frá því sem fram kom“.

Þrátt fyrir þetta hefur framkvæmdin fyrir héraðsdómi verið sú að banna allar frásagnir af skýrslutöku á meðan einhverri þeirra er ólokið, jafnvel þótt það hamli fréttaflutningi af mikilvægum málum yfir langan tíma. Þetta er auðvitað kjarninn í málinu. Hér erum við því að leggja það til að það verði tekinn af allur vafi um að slíkt bann gildi aðeins um samtímafrásögn af því sem fram kemur á meðan skýrslutaka yfir viðkomandi aðila, sakborningi eða vitni stendur yfir en ekki skýrslutökur í fleirtölu, sér í lagi þegar þær standa yfir í lengri tíma. Við hljótum að sjá að það er svolítill grundvallarmunur þarna á, sem skiptir auðvitað öllu máli. Við sem flytjum þetta frumvarp teljum að þessi breyting geri það að verkum að hún auki traust í garð dómskerfisins með því að standa vörð um aðgengi almennings að umfjöllun um mikilvæg dómsmál og vera í samræmi við vilja löggjafans þegar ákvæðin í núverandi mynd voru færð í lög, samanber tilvísun í það sem kom fram hér við vinnslu málsins á sínum tíma, fyrir Alþingi og fyrir allsherjar- og menntamálanefnd.

Það er auðvitað svo að samfélagið hefur ríka hagsmuni af því að starfsemi dómstóla sé gagnsæ og fari fram fyrir opnum tjöldum nema þegar hagsmunir aðila, öryggi ríkisins eða hætta á sakarspjöllum krefst annars, svo við förum í þetta svona tæknilega. Því erum við að leggja það til hér að breytingar á ákvæðum 9. gr. laga, um meðferð einkamála, og 11. gr. laga, um meðferð sakamála, til að taka af allan vafa um að bannið við samtímafrásögn eigi eingöngu við þegar aðili, sakborningur eða vitni er að gefa skýrslu en ekki á meðan skýrslutökur standa yfir í lengri tíma. Að mati okkar flutningsmanna er hætta á sakarspjöllum til staðar ef aðili máls eða vitni getur fengið upplýsingar um skýrslugjöf annars áður en viðkomandi gefur sína skýrslu og þegar skýrslutökur standa yfir í lengri tíma geta vitni fengið slíkar upplýsingar með öðrum leiðum en í umfjöllun fjölmiðla. Bann við fjölmiðlaumfjöllun við þær aðstæður dregur því ekki úr líkum á sakarspjöllum og hefur ekki önnur áhrif en að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum í annars opnu þinghaldi.

Með öðrum orðum nær bann við samtímafrásögn markmiði sínu á meðan frásögnin fer fram og síðan kannski í einhvern skamman tíma eftir á. Hún nær markmiðinu hins vegar alls ekki yfir lengri tíma og þá erum við í praxís með bann við fjölmiðlaumfjöllun án þess að það sé til þess fallið að vernda nokkra hagsmuni aðilans eða dómsmálsins og gengur þar af leiðandi þvert gegn hagsmunum alls almennings af því að þinghaldið sé opið, hver sem er geti fylgst með því og fjölmiðlar, að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem hér hafa verið rakin, geti þá sagt fréttir upp úr því.

Við erum sem sagt að leggja það til að í stað orðanna að „greina frá því sem aðili eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur“ í lögum um meðferð einkamála og síðan að „greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur“ í lögum um meðferð sakamála komi „greina í samtíma frá því sem aðili eða vitni skýrir frá á meðan skýrslutaka yfir viðkomandi stendur yfir“ og síðan „greina í samtíma frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá á meðan skýrslutaka yfir viðkomandi stendur yfir“ í þeim síðarnefndu.

Með þessum breytingum erum við auðvitað að tryggja það að bann við samtímafrásögn gildi aðeins á meðan skýrslutaka hvers aðila eða vitnis stendur yfir. Það var auðvitað þannig, eins og ég nefndi, að viðbrögðin við þessari ákvörðun dómarans í upphafi árs urðu nokkuð hörð. Þetta var mikið gagnrýnt af fjölmiðlum enda fáheyrt að ekki megi greina frá því sem er verið að segja í opnu þinghaldi svo vikum skipti.

Fjölmiðillinn Vísir ákvað að láta á þetta reyna og flutti fréttir af málinu áður en fjölmiðlabanninu var aflétt og ég ætla að vitna í frásögn miðilsins sjálfs af þessu, með leyfi forseta:

„Ritstjórn Vísis ákvað að birta ítarlega frétt um málið þann 3. mars og vísaði til þess að ritstjórnin teldi dómara í málinu ekki túlka með réttum hætti nýlega meginreglu, fyrrnefnda 1. málsgrein 11. greinar laga um meðferð sakamála. Það væri röng túlkun dómara á lögunum að ekki mætti fjalla um neitt fyrr en að öllum skýrslutökum í málinu í heild sé lokið. Reglan sneri að einstaka skýrslutöku yfir einstaka aðilum enda hafi frumvarpinu verið ætlað að takmarka samtímaendursögn úr dómsal.“

Þetta segir í frétt Vísis og áfram er þar haldið í frásögninni, með leyfi forseta:

„Síðdegis þriðjudaginn 7. mars bárust ritstjóra Vísis og þeim blaðamanni sem skrifaði fréttina 3. mars tölvupóstur frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar [var] óskað eftir því að ritstjóri og blaðamaður mættu fyrir dóminn að morgni miðvikudagsins 8. mars. Reimar Pétursson, lögmaður Sýnar, mætti ásamt þeim Erlu Björgu Gunnarsdóttur ritstjóra og Margréti Björk Jónsdóttur blaðamanni í dómsal og óskaði eftir því að vera skipaður verjandi þeirra í málinu. Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómari sagði enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort fjölmiðillinn yrði sektaður. Fulltrúum Vísis hefði verið boðið að gera grein fyrir sinni hlið málsins. Reimar óskaði eftir gögnum málsins og ræddi um tjáningarfrelsi í stjórnarskránni og þá meginreglu að þinghöld skyldu háð í heyranda hljóði. Þá benti hann á að í reglum sem dómari hefur vísað til í málinu segði að ekki mætti greina frá því sem fram kæmi í skýrslutöku, í eintölu, fyrr en að henni lokinni. Ekki stæði í lögunum að bannað væri að greina frá því sem fram kæmi fyrr en öllum skýrslutökum í málinu væri lokið.“

Dómarinn tók sér síðan frest til að fara betur yfir þetta og ákvað svo að aðhafast ekkert í málinu. Til þess væri ekki tilefni og því voru engin viðurlög höfð við því að ritstjórn Vísis skyldi hafa farið gegn þessu fjölmiðlabanni og látið reyna á þetta.

Blaðamannafélagið brást líka við þessari ákvörðun dómarans um að ganga svona langt í að banna fréttaflutning úr þinghaldinu og sagði í yfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Blaðamannafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af ákvörðun Sigríðar Elsu Kjartansdóttur héraðsdómara að kalla fulltrúa fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir að hafa farið gegn fréttabanni sem dómarinn setti í byrjun janúar vegna tiltekins sakamáls sem var til meðferðar hjá dómnum. Blaðamannafélagið mótmælir túlkun dómarans á lögum um meðferð sakamála og telur hana stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála, auk þess sem lög kveði skýrt á um að þinghald skuli háð í heyranda hljóði.“

Við sjáum það hér á þessari tilvitnun að Blaðamannafélagið lítur svo á að þarna hafi auðvitað verið gengið allt of langt af hálfu dómarans, gengið gegn rétti fjölmiðilsins til að greina frá því sem þarna fór fram og að túlkun dómarans sé ekki í samræmi við það sem ætlunin var þegar lögin voru sett á sínum tíma, rétt eins og ég rakti hér áðan. Blaðamannafélagið sagði jafnframt í sinni yfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Þessu ákvæði var bætt inn í lögin árið 2019 en í greinargerð með frumvarpi því er skýrt tekið fram að tilgangur ákvæðisins sé að gera það óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum […].“

Tekið er fram í yfirlýsingunni að Blaðamannafélagið hafa alfarið lagst gegn þessum lagabreytingum árið 2019 og taldi það setja enn frekari hömlur á fréttaflutning af því sem færi fram í réttarsölum. Þá var á það bent, líka af félaginu, í umsögn sinni um frumvarpið þá, að það væri til þess gert að hamla því að þinghald fari fram fyrir opnum tjöldum sem sé þvert á auðvitað það grundvallaratriði í lýðræðisskipulagi að dómsvaldi sé sjálfstætt og stærsti þátturinn í aðhaldi að þessari grein ríkisvaldsins sé að þinghald sé eins opið og nokkur kostur er og gagnsæi um málsmeðferð tryggt með þeim hætti.

Jafnframt sagði í yfirlýsingunni: „Það er lykilatriði fyrir sakborninga og aðra þá sem þurfa að leita til dómstóla og ekkert er jafn vel til þess fallið að tryggja réttaröryggi í samfélaginu, sagði einnig í umsögninni.“

Virðulegi forseti. Það er því augljóst að mati okkar flutningsmanna að það er full ástæða til að skýra þetta ákvæði sem þessi ágreiningur er um. Við erum að leggja frumvarpið fram í þeim tilgangi að gera þessa breytingu sem ég hef verið að lýsa, að þetta eigi við um hverja skýrslutöku fyrir sig en ekki þegar skýrslutökur í aðalmeðferð taki lengri tíma, jafnvel vikum saman þegar margir eru í dómsal á vettvangi viðkomandi máls. Það er auðvitað hægt að koma í veg fyrir sakarspjöll með öðrum og mildari aðferðum en að banna fréttaflutning úr dómsal svo vikum skiptir. Það segir manni að það ætti að vera leiðarljósið í öllu því sem við þurfum að hafa í huga þegar þetta mál fer áfram inn í allsherjar- og menntamálanefnd.

Mig langar síðan að segja hérna aðeins almennt að það voru náttúrlega í dag að berast fréttir af því að Ísland væri að falla niður um þrjú sæti á milli ára á lista þar sem fjölmiðlafrelsi er mælt af samtökunum Blaðamenn án landamæra. Ísland er í 18. sæti en önnur Norðurlönd raða sér í efstu sæti listans og á þessum lista höfum við Íslendingar verið að þokast niður á undanförnum árum. Við vorum í efsta sæti þessa lista. Hér var fjölmiðlafrelsi mest af öllum löndum fyrir 13 árum og við vorum í öðru sæti á þessum lista fyrir 11 árum og núna erum við sem sagt komin niður í 18. sæti. Fyrir þessu eru margar ástæður. Sumar þeirra eru vel raktar í niðurstöðunum á bak við þessa röðun og þar er til að mynda verið að vísa í viðbrögð stórfyrirtækja af fréttaflutningi, hvernig fjölmiðlamenn hafa verið hundeltir opinberlega og reynt að hafa áhrif á störf þeirra, reynt að hafa áhrif á almenningsálitið með villandi hætti með því að gera lítið úr störfum fréttamanna og vinnu þeirra og þar fram eftir götunum. En auðvitað er partur af því að við erum að færast niður þennan lista líka svona atriði eins og undir eru í þessu þingmáli sem við erum að leggja hér fram, þessu frumvarpi sem núna liggur fyrir.

Hluti af þessu stóra mengi er auðvitað það að fjölmiðlar hafi aðgang að upplýsingum og að laga- og regluverkið allt á Íslandi geri þeim ekki erfitt fyrir í upplýsingaleitinni og aðhaldshlutverkinu. Það er auðvitað það sem við teljum að sé að í framkvæmd laganna miðað við það hvernig dómarinn beitti ákvæðinu hér í upphafi árs. Þannig að við vonum það, þingmenn Viðreisnar, sem leggjum fram þetta mál að þingheimur taki vel í þetta. Við leggjum það til að sjálfsögðu að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.