131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[14:18]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að svokallaðir einyrkjar sem hv. þingmaður nefnir hér eru ekki undir þá sök seldir að þurfa að sækja um leyfi ef þeir stunda flutninga í eigin þágu þannig að það er væntanlega ekki vandamál hvað það varðar. Síðan skil ég ekki að það þurfi að vera vandamál fyrir einstaklinga eða fyrirtæki sem eru með allt sitt bókhald í góðu lagi að gera grein fyrir sínum málum til að fá leyfi. Það er ekki nema aðilarnir séu með allt í vandræðum sem það gæti vafist fyrir þeim að leggja fram bókhald og umbeðin gögn til að fá fram svo einföld leyfi sem við erum að tala um. Ég held að í okkar ágæta samfélagi séu í langflestum tilvikum einstaklingar og fyrirtæki með sín mál í góðu lagi hvað þetta varðar og fá undanbragðalaust leyfi.

Ég vil vekja athygli á því að þessi breyting á löggjöfinni er undirbúin í mjög góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og þá forsvarsmenn samtaka þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir þannig að undirbúningur hefur verið býsna vandaður og í góðu samstarfi við alla þá aðila sem málið varðar og stunda rekstur og þessa starfsemi.