131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[14:59]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Alveg óháð því hvaða tími lifir eftir af þeim lögum sem fjalla um styrkveitingar vegna fráveitumála þá lít ég svo á að hér sé annars vegar á ferðinni prinsippmál og hins vegar pólitískt mál. Það er hægt að setja mörg spurningarmerki við orðið „jafnræði“ í þessum lögum.

Hér er lagt til að heimilt verði, með sama hætti og áður, að veita styrki til stofnframkvæmda. Ég undirstrika, virðulegi forseti, að hér er talað um stofnframkvæmdir við fráveitur sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, enda falli framkvæmdirnar undir tiltekin ákvæði.

Þegar litið er á umsögn um frumvarpið frá skrifstofu fjármálaráðuneytisins segir að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga sé ákveðinn í fjárlögum og fjármálaráðuneytið telji að frumvarpið hafi ekki áhrif á fjárhæðina, heldur einungis skiptingu á milli framkvæmda, verði það að lögum. Svo ég reyni að skilja þessa umsögn fjármálaráðuneytisins þá þýðir hún væntanlega að ekki verði gerður munur á því hvort greitt verði framlag heldur hverjum verði greitt. Þetta þýðir væntanlega að styrkur verði greiddur til framkvæmdaraðila sem sér um frárennslisframkvæmdir sem hér á að heimila styrk til. Um þetta atriði vildi ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra fyrst.

Ég lít svo á að með því að setja á styrki til stofnframkvæmda í frárennslismálum sveitarfélaga hafi málið verið hugsað þannig upphaflega að styðja þyrfti sveitarfélög í dýrri framkvæmd sem eiga ef til vill erfitt með að standa í öðrum lögbundnum framkvæmdum samtímis því að leggja mikið fjármagn í fráveitumál. Allir sem komið hafa að verkefnum í sveitarfélögum vita að frárennslisframkvæmdir eru dýrar, þær eru ekki uppi á borðinu og ekki vænlegar til að vekja áhuga eða hrifningu bæjarbúa, sem svo gjarnan vildu sjá allt öðruvísi framkvæmdir sem væru jafnvel ódýrari og sem væru til marks um að sveitarstjórn þeirra sé að gera góða hluti, en öll vitum við að þetta er mikilvægt.

Nú eru breyttir tímar. Áður fyrr, þegar ég var sveitarstjórnarmaður, hefði ekki nokkrum manni dottið í hug að nokkur annar tæki upp á að taka að sér fráveituframkvæmdir en sveitarfélagið. Líklega hefur ekki nokkur maður haft hugmyndaflug til þess, ekki einu sinni eftir að það komst í tísku að sterk fjármögnunarfyrirtæki eða aðilar sem hafa komist í álnir tækju að sér að byggja upp ýmislegt og leigja sveitarfélögunum. Ekki einu sinni eftir að það byrjaði hefði manni dottið í hug að fráveituframkvæmdir mundu falla þar undir. Nú er hins vegar greinilegt að aðrir en sveitarfélagið telja sér hag í að ráðast í fráveituframkvæmdir og leigja sveitarfélaginu kerfið.

Þá komum við að því sem ég lít á sem mjög pólitískt mál. Ég hef litið á það sem samfélagsverkefni að vinna að holræsaframkvæmdum og tel að sveitarfélög hafi staðið sig vel í þeim efnum. Ég sé grundvallarmun á því að sveitarfélag eða hið opinbera standi í samfélagsverkefnum og hinu að einkaaðili úti í bæ geri það og leigi viðkomandi sveitarfélagi. Það er grundvallarmunur á því að líknarfélög, með hugmyndafræðina á bak við þau, fái framlög hins opinbera til framkvæmda vegna uppbyggingar, t.d. vegna hjúkrunarheimila sem reka á í þágu starfseminnar og hinu, að veita opinbert fé til framkvæmda hjá aðilum sem hyggjast byggja, hvort heldur er heimili eða annað og reka með ágóða í huga. Þetta höfum við rætt í þessum sal. Ég minnist umræðunnar um Sóltún og efnislegrar og pólitískrar umræðu um það hvernig menn sjái fyrir sér þessa hluti og hvort æskilegt sé að fela í æ ríkari mæli aðilum úti í bæ uppbyggingu og fjármögnun þýðingarmikilla samfélagsverkefna og að sveitarfélögin séu leigjendur.

Þegar upp er staðið verður framkvæmdin, hvort sem lánað er til hennar eða einkaaðilinn sem byggir fjármagnar verkefnið sjálfur og leigir sveitarfélaginu, þannig að að tilteknum tíma liðnum kemst verkefnið fullkomlega í eigu framkvæmdaraðilans. Þá kemur að nýjum samningstíma sem ekki byggir á fjármögnuninni og hugsanlega einhvers konar samvinnuverkefni í því. Eigandinn hefur þá fulla burði til að hafa mikið vald yfir leiguverðinu gagnvart sveitarfélaginu. Þannig minnist ég umræðunnar um stóra íþróttahúsið í Reykjanesbæ þar sem mjög hörð umræða fór fram um framkvæmdina. Sýnt var fram á að þegar samningstímanum lyki hefði sveitarfélagið borgað alla framkvæmdina, allt viðhaldið og alla vexti af því fjármagni sem farið hefði til framkvæmdarinnar. En einkaaðilinn sem hafði með framkvæmdina að gera og bar ábyrgð á henni eignast þá mannvirkið og getur leigt það á ný, væntanlega til sveitarfélagsins eða annarra. Þetta var íþróttahús sem ekki er lögbundið verkefni og menn geta haft skiptar skoðanir á því hve heppilegt er að fara þessa leið varðandi slík hús eða hin ýmsu mannvirki.

Ég hef miklar efasemdir um þessa þróun. Mér finnst hún vera neyðarúrræði sveitarfélaga sem ekki hafa nægilega mikið fjármagn og tekjur til að eiga möguleika á að sinna öllum verkefnum sínum. Það er angi af þeirri umræðu sem margoft hefur heyrst í þessum sal, um tekjustofna og verkefni sveitarfélaga. Þessi aðferð sveitarfélaganna hefur orðið til til að komast hjá því að sýna viðkomandi framkvæmd á skuldahlið sveitarfélagsins, sem er kannski með mjög mikla skuldaslagsíðu fyrir. Þá er gripið til þess ráðs að einkaaðili framkvæmi og leigi sveitarfélaginu. Slík einkaframkvæmd með leigufyrirkomulagi hefur sést í sveitarfélögum varðandi leikskóla, aðra skóla, íþróttahús og hjúkrunarheimili. Nú erum við komin að holræsunum.

Ég hef satt að segja áhyggjur af þeim degi, sem upp rennur í framtíðinni, er viðkomandi samningar renna út hver af öðrum hjá sveitarfélögunum. Sveitarfélögin hafa fyrir löngu greitt alla framkvæmdina, allan fjármagnskostnað og hagnað til eigendanna með leigu sinni og samningum. En þegar semja þarf að nýju hafa eigendur skólanna, húsanna og holræsanna, öll ráð í hendi sér með að verðleggja eign sína til leigu fyrir sveitarfélögin.

Í þessu frumvarpi gerist það að tiltekið sveitarfélag hefur fengið styrk til stofnframkvæmda við fráveitu. Eftir að sveitarfélagið hefur fengið styrk, eða þannig horfir málið við mér, þá selur sveitarfélagið framkvæmdina öðrum aðila, einkaaðila, og leigir af honum, væntanlega til að komast hjá því að bera byrðarnar af framkvæmdinni og færa í efnahagsreikning sinn og sýna á skuldahlið.

Annað sveitarfélag sem þarf að fara í framkvæmdir vegna fráveitu hyggst fá einkaaðila til að sjá um framkvæmdina frá upphafi, sem er kannski eðlilegra og við getum verið sammála um að sé hreinlegra mál. Þá segir það sveitarfélag: Við viljum fá styrkinn eins og hitt sveitarfélagið fékk styrk til að byggja sína fráveitu og seldi hana eftir á í einkaframkvæmd. Þá er gerð krafa til okkar alþingismanna um jafnræðissjónarmið. Það er að mínu mati heldur vafasamt vegna þess sem m.a. kom fram í máli ráðherra áðan, að í lögunum stendur að stuðla skuli að framkvæmdum við fráveitumál sveitarfélaga með styrkveitingum. Þá er hugsunin að baki því væntanlega sú sem ég gat um áðan, að styrkja sveitarfélagið til framkvæmdanna. En nú erum við að tala um sveitarfélag sem ekki ætlar að sjá um framkvæmdina. Það eru fjársterkir aðilar sem ætla að sjá um framkvæmdina og leigja sveitarfélaginu þannig að sveitarfélagið þarf ekki lengur að bera þungann af framkvæmdinni. Sveitarfélagið þarf eingöngu að greiða leiguna. Þetta er svipað og þegar ein fjölskylda ákveður að byggja heimili og taka til þess lán. Hún þarf að ákveða hvort hún getur staðið undir þeim og ber þann skuldabagga meðan önnur fjölskylda ákveður að leigja fremur og binda sér ekki slíkan bagga. Þetta er munurinn á því tvennu sem við höfum hingað til verið að gera og því sem lagt er til að við gerum núna.

Að sjálfsögðu mun ég ásamt félögum mínum skoða þetta mál í nefnd. Það má vel vera að mér hafi sést yfir einhver þau sjónarmið sem haft gætu áhrif á viðhorf mín í þessu máli. Ætlum við með opinberum aðgerðum, styrkveitingum og annarri fyrirgreiðslu, að stuðla að því að það verði verkefni sveitarfélaganna um ókomna tíð að fela einkaaðilum úti í bæ, fjársterkum einkaaðilum úti í bæ, að byggja leikskóla, byggja skólana, byggja heilsugæslustöðina, byggja hjúkrunarheimilið og byggja holræsið og leigja sveitarfélaginu? Hlutverk sveitarfélagsins verður að reikna saman hver leigan af þessu verði þegar allt er saman komið en það ber ekki ábyrgðina sjálft og stendur ekki sjálft í framkvæmdunum. En það verður upp á hina fjársterku aðila komið sem hafa getað byggt allt það sem ég hef talið upp. Í sumum tilfellum eru það sömu aðilarnir sem eru að bjóðast til að taka að sér mannvirki á ólíkum sviðum. Sá dagur mun renna upp að sömu aðilar komist í aðstöðu til að ráða hvað þeir taka fyrir sinn snúð. Á sama tíma mundi sveitarfélagið, hefði það byggt framkvæmdina sjálft, komast út úr skuldabyrðinni, greiða upp lánið og ætti skólahúsnæðið, hjúkrunarheimilið, fráveituna, holræsið eða hvað það er.

Ég hef áhyggjur af þessari þróun. Mér finnst málið mjög pólitískt. Ef ég ætti að greiða atkvæði um þetta á þessum degi mundi ég ekki styðja það en að sjálfsögðu mun ég skoða málið vandlega í nefnd. Við munum að sjálfsögðu einnig ræða það í flokki mínum og taka afstöðu til þess hvert við viljum stefna. Þetta er ekki eitt mál og aðskilið frá öðrum. Þetta er ekki jafnræði eins og það var lagt upp í skoðanaskiptunum áðan. Þetta er miklu stærra mál. Það snýst um framtíð sveitarfélaga, sjálfstæði þeirra, verkefnaval og möguleika til að standa undir þeim verkefnum sem löggjafinn felur þeim. Svo stórt sýnist mér þetta mál, frú forseti.