131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil eiginlega ekki viðbrögð þingmannsins. Ég held að ég og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason séum sama sinnis. Ekki ætla ég að hafa vit fyrir sveitarfélögunum eða banna þeim að leigja eitthvað undir starfsemi sína ef þau kjósa svo. Ég er að tala um hvort eðlilegt sé að opinberar styrkveitingar sem hugsaðar eru til að hjálpa sveitarfélaginu við að fara í framkvæmdina vegna stofnkostnaðar eigi að fara til sveitarfélagsins þegar sveitarfélagið sér ekki um stofnkostnaðinn. Þar er punkturinn og ég held að ég og þingmaðurinn séum nokkuð á sama róli í afstöðu okkar miðað við ræður hans hér.

Ég er heldur ekki heilög. Ég ætla hvorki að hafa vit fyrir þessu sveitarfélagi né öðru. Ég er með pólitíska skoðun á hlutunum og hlýt eins og þingmaðurinn að mega hafa hana og mín skoðun er ekkert heilagri en hans, heldur bara skoðun mín. Ég hef ekki verið fanatískari eða heilagri en svo að ég hef sagt að ég ætli að sjálfsögðu að skoða málið í nefndinni og með félögum mínum í flokknum. En munum að við erum að tala um styrkveitingar til stofnkostnaðar sem sveitarfélagið ætlar ekki að bera, því að annar aðili sem ætlar að leigja sveitarfélaginu ætlar að bera stofnkostnaðinn. Þetta er punkturinn sem ég er að draga fram, þetta er punkturinn sem ég stoppa við.