131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:47]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áðan er oft verið í þessum tilvikum að skuldsetja framtíðina og unga fólkið okkar og ég tel það mikið ábyrgðarleysi. Þeirri ábyrgð sveitarfélaga sem ætti að vera í dag er hent frá og síðan skellt í framtíðina og kannski reynt að bjarga sér í gegnum kosningar eða annað slíkt. Ég tel það alveg þvílíkt og annað eins, menn verða að skoða þetta á marga vegu. Til hvers er félagsmálaráðuneytið?

Síðan kemur að öðru máli sem er leiga. Talað hefur verið um að ég væri svo harður á móti þessu að ég vildi ekki sjá neina leigu eða neitt. Það er vel hægt að leigja mannvirki en ekki vera að skuldbinda sig með einhverjum hætti til áratuga. Það er ósköp eðlilegt að opinber fyrirtæki leigi. En menn leigja ekki á þann veg að þeir séu skuldbundnir til að borga upp eignirnar margfalt. Síðan eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á að eftir leigutímann verða menn að leigja aftur og þá verða þeir algerlega háðir því og geta lítið haft um það að segja hvað leigan kostar.