131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:17]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Sigurjón Þórðarson þekkir þessi mál ágætlega af störfum sínum fyrir norðan. Ljóst er að hann hefur ákveðna sýn á hvernig þau mál eiga að vera og hann varpaði fram ýmsum athyglisverðum spurningum og hugleiðingum um þau í umræðunni í dag.

Hvað snertir það atriði sem hann nefndi, breytingu á reglugerð nr. 798, þá hefur ekki verið til skoðunar í ráðuneytinu að breyta þeirri reglugerð. Ég mun hins vegar fara yfir það mál í framhaldi af þessari umræðu.

Varðandi breytingu á 3. gr. að öðru leyti en því sem verið er að gera með frumvarpinu þá hefur ekki verið til skoðunar í umhverfisráðuneytinu að gera frekari breytingar greininni. Sú breyting sem ég boðaði á lögunum í haust lýtur eingöngu að framlengingu á þeim.