131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[17:49]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Framkoman sem íslensku verslunarfólki er sýnd er með ólíkindum. Því er sýnd fullkomin fyrirlitning. Ákveðið er að ráðast í mjög umdeilanlegar breytingar á lögum um opnunartíma verslana, nokkuð sem verslunarmenn og samtök þeirra hafa látið til sín taka á undanförnum árum og áratugum.

Það er skipuð nefnd til undirbúnings lagabreytingunni. Að nefndarstarfinu, samkvæmt fréttum sem um málið hafa birst sem hér hafa verið staðfestar, er boðið fulltrúum atvinnurekendasamtaka og kirkjunnar. Verslunarmenn og þeirra samtök eru hunsuð.

Í umræðunni kemur síðan fram, af hálfu hv. formanns allsherjarnefndar, að fulltrúar verslunarmanna hafi vissulega komið til fundar hjá allsherjarnefnd. Þeirra viðhorf hafi hins vegar ekki verið þess eðlis að ástæða hafi þótt að taka þau alvarlega. Þeim var því einfaldlega vikið til hliðar og eiga ekki að vera til. Sjónarmið íslenskra verslunarmanna skipta einfaldlega engu máli.

Hins vegar er þetta sett upp eins sem stórkostlegt réttlætismál, til að jafna aðstöðumun og gæta jafnræðissjónarmiða o.s.frv. Þá eru menn að tala fyrst og fremst um fyrirtækin en fólkið sem þar starfar, sjónarmið þess eru virt að vettugi.

Eins og hér hefur komið fram við umræðuna var fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd, áheyrnarfulltrúi okkar í nefndinni, hv. þm. Atli Gíslason, andvígur þessu frumvarpi. Það kom fram. Það hefur áður komið fram við umræðuna á Alþingi af hálfu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við tökum undir með verslunarmönnum og samtökum þeirra, bæði Landssambandi íslenskra verslunarmanna og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, sem hafa ályktað í þessa veru. Í ályktun Landssambands verslunarmanna sem birtist um síðustu helgi í fjölmiðlum er lýst andstöðu við frumvarpið. Í ályktuninni segir að frumvarpið feli í sér miklar breytingar á högum þeirra sem starfa í smærri matvöruverslunum undir 600 fermetrum að stærð.

Í ályktuninni segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Lögverndaðir frídagar þessa starfsfólks verða þá aðeins aðfangadagur frá kl. 18 og jóladagur. Ákvæði kjarasamninga hafa ekki getað varið að verslunareigendur segi með lögboðnum fyrirvara upp starfsfólki, sem ekki er tilbúið til að vinna á þeim dögum, sem verslunin verður opin, hvort sem um er að ræða stórhátíðardaga eða aðra helgidaga.“

Staðreyndin er að aukinn opnunartími, þessi lengdi opnunartími, verður til þess að þumalskrúfur eru settar á starfsfólkið. Það er þvingað til að vinna lengur en ella. Niðurstaðan er sú að fjölskyldan, fjölskyldur verslunarmanna, eiga erfiðara um vik að halda saman hátíðir. Það er vissulega ósköp notalegt fyrir latt fólk sem býr yfir litlum sjálfsaga að geta farið á kvöldin og næturnar og keypt sér það sem þarf til heimilisins. En hvers konar vesaldómssamfélag er eiginlega verið að skapa undir því yfirskini að verið sé að efla þjónustu við fólk?

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en ítreka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður verslunarmenn, styður Landssamband íslenskra verslunarmanna og Verslunarmannafélag Reykjavíkur, sem hvetur okkur til þess að setja þetta mál á ís. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hvet hv. formann allsherjarnefndar til að beita sér fyrir því að málið verði kallað til baka og verði ekki borið undir atkvæði þingsins og gert að lögum eins og í stefnir, heldur verði farið að vilja íslenskra verslunarmanna.