139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um stefnu ríkisstjórnarinnar og Vinstri grænna um það stríð sem nú er háð í Líbíu. Það er eðlilegt að þingheimur og í raun þjóðin öll sé hálfringluð í því þegar kemur að því að vita hvort ríkisstjórnin sé samstiga í því að styðja aðgerðirnar þarna. Því hefur verið varpað fram hvers vegna ríkisstjórnin beitti ekki neitunarvaldi sínu hjá NATO þegar hlutirnir voru ákveðnir þar. Það hefur hins vegar verið upplýst að það kom aldrei til greina að gera slíkt. Því hljótum við að velta fyrir okkur hvert framhaldið verður.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í Síðdegisútvarpinu í gær að engin breyting fælist í því að færa framkvæmdina frá Sameinuðu þjóðunum til NATO þar sem NATO starfar undir hatti Sameinuðu þjóðanna. Það er lykilspurningin sem mig langar að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur: Hver er munurinn á því að styðja þetta stríð undir beinni stjórn Sameinuðu þjóðanna eða undir stjórn NATO sem Sameinuðu þjóðirnar hafa falið að sinna yfirstjórn á þessu ólukkans máli?

Í kjölfar orða hv. þingmanns í Síðdegisútvarpinu í gær þar sem hv. þingmaður segir að hún viti og hafi á tilfinningunni að Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar hafi farið fram úr ályktun Sameinuðu þjóðanna velti ég fyrir mér að hvaða leyti það hafi verið gert. Ef það hefur verið gert er mjög mikilvægt að stjórnvöld grípi mjög fast í taumana og láti vita af skoðun sinni á því ef einhver ríki fara fram úr og út fyrir þá ályktun sem var samþykkt.

Síðan hljótum við að spyrja hvernig standi á því að ríkisstjórnin hafi stutt að NATO yfirtæki (Forseti hringir.) þetta ef það var ekki rætt og við hljótum að kalla eftir svörum.

Hver er munurinn á að NATO stjórni þessu eða Sameinuðu þjóðirnar?