139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[14:41]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Gamalt og gott, er oft sagt. Það á við um landlæknisembættið, gamalt og virðulegt embætti. Þess vegna var enginn vafi í hugum nefndarmanna heilbrigðisnefndar að það kæmi fyrst í nafni nýrrar sameinaðrar stofnunar og að forstöðumaður hennar yrði áfram embættismaðurinn landlæknir.

Nýtt og ferskt er hins vegar líka gott. Lýðheilsan fær þann andblæ í þessari umræðu. Gamalt og gott og nýtt og ferskt nær ágætlega saman í hinu gegnsæja heiti „landlæknir – lýðheilsa“.

Samráð og málamiðlanir eru gjarnan umræddar á tyllidögum. Það varð niðurstaða starfsfólks þessara stofnana að heiti beggja kæmu fram í nafni stofnunarinnar. Það samráð og þá málamiðlun virði ég og finnst að það eigum við alþingismenn allir að gera, hver og einn fyrir sig. Mér finnst sú nafnaumræða sem hér fer fram minna á að prílað sé með prjál upp á pall og talað um gamlan hruman kall sem í raun og sann er ungur og sprelllifandi (Forseti hringir.) og meira en til í að vinna að lýðheilsumálum, miklu meira til í það en að láta draga sig upp á gamaldags stall. Honum og starfsfólkinu til heiðurs segi ég nei. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)