139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti nokkra undrun hjá mér hversu mörg tryggingaskírteini hafa verið gefin út í þessum tryggingaflokki sjúkdómatrygginga. Við fengum upplýsingar um það í hv. efnahags- og skattanefnd, ég er ekki með þær tölur með mér, en það vakti ekki síður athygli mína hversu margar bótakröfur höfðu verið gerðar og hversu stórum hluta þeirra hafði verið hafnað. Þær skiptu einhverjum þúsundum, gott ef ekki tugþúsundum, en þær sem höfðu verið samþykktar voru rúmlega 400, ef ég man rétt.

Ég hef velt því fyrir mér sem tveir hv. þingmenn, hagfræðimenntaðir, hafa verið að kasta á milli sín, hverjir það einkum séu sem kaupa þessar tryggingar hér á landi. Ég er ekki dómbær, enda ekki með hagfræðipróf, til þess að meta hvort þeirra hefur rétt fyrir sér, að það séu hinir efnaminni eða hinir efnameiri.

Ég vil spyrja hv. þingmann um hvort hann telji að skýringarinnar á þessu sé að leita í þeirri tilhneigingu sem hér varð á græðgistímanum sérstaklega að menn voru settir út af launaskrá og gerðir að verktökum, þ.e. að menn nutu ekki hefðbundinna réttinda og trygginga sem aðild að stéttarfélagi og það að vera starfandi sem launþegi veitir þeim, þegar menn eru orðnir eins konar einyrkjar. Þetta á t.d. við um listamenn, iðnaðarmenn, prófarkalesara, þetta á við um hvern sem er og ég held að þetta skiptist ekkert í efnameiri eða efnaminni einstaklinga. Ég vil spyrja hv. þingmann álits á því hvort hann telji að í þessu sérkenni á íslenskum vinnumarkaði sé fólgin hin skrýtilega þörf fyrir að kaupa þessi tryggingaskírteini.