139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom til að veita andsvar og ekki síst til að biðja hv. þingmann um að rökstyðja betur fullyrðingu sína um að tekjulægri hópar og millitekjuhópar nýti sér frekar einkatryggingar. Hv. þingmaður vitnaði til orða tryggingafélaganna en ég mundi gjarnan vilja heyra hvaða heimildir hv. þingmaður hefur fyrir því að þannig sé það utan Íslands, að það séu fyrst og fremst þeir tekjuminni og millitekjuhóparnir sem kaupa sér tryggingar.

Ástæðan fyrir því að ég bið hv. þingmann um heimild fyrir fullyrðingu sinni um þetta er sú að á meðan hv. þingmaður hélt ræðu sína fann ég rannsókn sem gerð var af rannsóknastofnun sem sérhæfir sig í rannsóknum á heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum þar sem einmitt er kannað hversu útbreiddar heilbrigðistryggingar eru í Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á tryggingum í Bandaríkjunum er sú að ég tel að það skattfrelsi sem felst í lagabreytingunni sem við ræðum muni ýta undir þróun íslensks velferðarkerfis í áttina að velferðarkerfinu í Bandaríkjunum. Fram kemur fram í þessari rannsókn að tekjulágir hópar í Bandaríkjunum eru ólíklegri til að vera með tryggingar. Þeir sem hafa tryggingar á annað borð, sem er ekki nema um helmingur eða 16%, eru með einkatryggingar á meðan hlutfallið er 90% hjá tekjuhæsta hópnum. Tekjuhæsti hópurinn er (Forseti hringir.) svo til alfarið með einkatryggingar.