141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum hér á næstsíðasta starfsdegi Alþingis, a.m.k. samkvæmt starfsáætlun, frumvarp til laga um náttúruvernd sem er gríðarlega umfangsmikið frumvarp um mjög mikilvægan málaflokk sem kemur inn í sali Alþingis allt of seint í ljósi mikilvægis málsins. Við framsóknarmenn höfum gert mjög margháttaðar athugasemdir við það frumvarp sem hér um ræðir og er ágætlega gerð grein fyrir í nefndaráliti hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem ég mun meðal annars fylgja úr hlaði í þessari ræðu minni.

Útgangspunkturinn í málflutningi okkar framsóknarmanna er virðing fyrir málaflokknum. Það að hin svokallaða græna vinstri stjórn skuli ætla að þröngva þessu máli í miklum flýti í gegnum þingið þrátt fyrir mjög alvarlegar ávirðingar og athugasemdir hagsmunaaðila og fræðimanna sem hafa farið yfir frumvarpið finnst mér mjög alvarlegur hlutur. Það á einfaldlega að drífa þetta mál í gegn. Ég vek athygli á að málið var það gallað þegar það kom til nefndarinnar að frá meiri hluta nefndarinnar liggja fyrir 56 breytingartillögur á greinum frumvarpsins þannig að það er gríðarlega vanreifað. Það gekk svo langt á Alþingi í dag þegar sú sjálfsagða ósk kom fram að við fengjum rúman tíma til þess að ræða þetta mál, að umræðan yrði lengd þannig að menn gætu fengið að tjá sig um einstakar breytingartillögur og framtíðarsýn í þessum málaflokki, kom hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hér upp og hneykslaðist alveg ofboðslega á því að menn ætluðu að ræða hér í einhverjum mæli um frumvarp til laga um náttúruvernd. (Gripið fram í.) Öðruvísi mér áður brá, að Vinstri grænir skuli kveinka sér undan því að menn vilji ræða náttúruverndarmál á þingi.

Reyndar hélt ég að þeim flokki væri meira umhugað um þennan málaflokk en svo að það ætti að reyna að troða málinu vanreifuðu í gegn með fjöldann allan af athugasemdum á bakinu í skjóli nætur á næstsíðasta degi þingsins. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að þessi vinnubrögð einfaldlega gangi ekki upp.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn á þessu þingi sem við tölum fyrir daufum eyrum í þeim efnum. Það er hægt að rifja upp fjölmörg mál þar sem stjórnarliðar vildu bara kýla málin í gegnum Alþingi, koma þeim í gegn. Það er hægt að nefna fjölmargar atrennur sem ríkisstjórnin átti til að mynda í Icesave-málinu sem átti að troða í gegnum Alþingi. Þá kvörtuðu akkúrat hv. þingmenn Vinstri grænna undan því að menn voguðu sér að vilja ræða um það mál, rétt eins og við viljum ræða hér um málefni náttúruverndar sem kemur mjög breytt út úr nefnd til 2. umr. Ég vek athygli á því núna, á næstsíðasta degi þingsins, að 3. umr. um þetta mál er eftir. Það hefur verið óskað eftir því að málið fari aftur inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. þannig að mér er alveg fyrirmunað að sjá hver forgangsröðun stjórnarinnar er, þ.e. að málið komi svona seint inn í þingið og að við skulum ekki forgangsraða málum hér fyrst þetta mál er svona vanreifað, að við skulum ekki ræða hér um mál sem tengjast málefnum heimilanna í landinu eða atvinnulífsins. Þau mál eru ekkert á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn. Hún hefur sýnt það og sannað.

En það að þurfa að takast á við þetta mál með þessum gríðarlegu breytingum og athugasemdum vekur furðu. Það þarf gríðarlegt ímyndunarafl hjá stjórnarliðum ef þeir halda að málið fari í gegn á þessu þingi.

Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarmenn vítt og breitt að af landinu hafa hvatt til þess að núna þegar búið er að gera við þetta frumvarp 56 breytingartillögur af hálfu nefndarinnar væri gáfulegast að senda málið svo breytt aftur til umsagnar og fá í hendurnar umsagnir frá helstu hagsmunaaðilum og sérfræðingum málaflokksins. Við skulum senda málið til umsagnar áður en þetta þing fer heim og vinna málið sómasamlega á haustdögum. (SDG: Nákvæmlega.) Við skulum ekki klára málið hér í skjóli nætur rétt eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þekkir sem þurfti oft að standa í pontunni til að ræða um milliríkjasamninga Íslands við önnur ríki þar sem setja átti miklar klyfjar á herðar íslenskum almenningi vegna ónefndra samninga sem ég ætla ekki að nefna meira í þessari ræðu minni.

Þetta er staðreynd málsins. Svo er mjög sérstætt að sjá það þegar við ræðum frumvarp til laga um náttúruvernd og förum yfir feril málsins á undanförnum árum að þar hafa aðilar fengið sæti í nefnd til þess að semja þetta frumvarp en á sama tíma hefur þeim hópi einstaklinga sem kannski hvað mest umgangast náttúruna verið haldið utan við allt samráð. Ég er að tala um Bændasamtök Íslands. Bændur umgangast landið okkar mikið og bera mikla ábyrgð í þeim efnum, þeim þykir líka vænt um landið sitt og þess vegna finnst mér með ólíkindum að sjá það viðhorf hjá umhverfisráðherra Vinstri grænna að Bændasamtökum Íslands hafi ekki verið hleypt að því borði að koma að því að semja frumvarp til laga um náttúruvernd hér á landi. Það er algjörlega fáheyrt enda er niðurstaðan kannski í samræmi við það, hvorki fleiri né færri en 56 breytingartillögur eru við þetta frumvarp í tillögum meiri hluta nefndarinnar.

Stjórnarliðar halda því fram að umræðu um þetta mál eigi að klára núna í kvöld og að menn eigi að ganga til atkvæða um það á morgun og væntanlega gera það að lögum á morgun. Það er með ólíkindum að sjá hvers lags verklag er hjá núverandi ríkisstjórn þegar kemur að mikilvægum málaflokki eins og náttúruvernd.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur gert ágætlega grein fyrir áliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þar segir hann um frumvarpið, með leyfi frú forseta:

„Einnig snerist gagnrýni á frumvarpið um ákvæði um framandi tegundir, um heimild til að tjalda, náttúruumdæmi, náttúruverndarnefndir og náttúrustofur. Þá var nokkuð gagnrýnt að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við hagsmunaaðila og sérfræðinga við undirbúning frumvarpsins. 1. minni hluti leggur ríka áherslu á náttúruvernd og tekur undir markmiðsgreinar laganna og mikilvægi náttúruverndarlaga til að ná þessum markmiðum. 1. minni hluti ítrekar mikilvægi þess að sem flestir komi að breytingum á náttúruverndarlögum, þau séu skýr og taki til ólíkra sjónarmiða.

Fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins bendir á í umsögn sinni að kostnaður við frumvarpið geti orðið yfir 100 millj. kr. á ári verði það samþykkt óbreytt. 1. minni hluti bendir á að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu geri Náttúrufræðistofnun Íslands til dæmis ráð fyrir því að þurfa meiri fjármuni heldur en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.“

Maður veltir fyrir sér hvort mönnum sé alvara með að þetta mál eigi að fara hér fram í ljósi harðrar gagnrýni fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á frumvarpið þar sem fram kemur að með þessu plaggi hér sé ekki búið að gera ráð fyrir fjárveitingum til málaflokksins í langtímaáætlun um ríkisfjármál. Hvers lags ríkisstjórn er það sem leggur fram frumvarp upp á 118 blaðsíður þar sem ekki er í langtímaáætlun um ríkisfjármál gert ráð fyrir fjármunum til málaflokksins sem gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem hér um ræðir? Reyndar kemur fram, og það verður þá verkefni næstu ríkisstjórnar ef þessu máli verður þröngvað hér í gegn, að setja þarf umtalsvert meiri fjármuni til málaflokksins. Ég vil svo sem ekkert útiloka það en ég bendi á það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason gerir ágætlega grein fyrir í nefndaráliti sínu, að það hefur ekki beinlínis verið niðurskurður hjá sumum stofnunum umhverfisráðuneytisins frá því eftir hrun. Til að mynda voru árið 2009 framlög til Náttúrufræðistofnunar Íslands 349 milljónir en árið 2013 er gert ráð fyrir að þær verði 593 millj. kr. Hér er verið að hækka framlög eftir hrun til þessarar stofnunar um 250 millj. kr. sem mér sýnist í fljóti bragði að geti verið 75–80% hækkun á rekstrargrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ég ætla ekkert að gera lítið úr Náttúrufræðistofnun Íslands, en við hljótum að ræða um forgangsröðun þegar maður hefur horft upp á blóðugan niðurskurð hjá til að mynda Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Skagfirðinga. Þar var ekki vandamál að setja fram niðurskurðartillögur upp á 40%, takk fyrir, á einu ári líkt og gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir þremur árum. Mér sýnist að menn þurfi að taka þessi mál til heildarendurskoðunar og ræða þau í mun víðara samhengi en kannski þessi umræða mun endurspegla í kvöld, nótt og á morgun eftir atvikum.

Í nefndaráliti hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar kemur fram mjög athyglisverður punktur sem lýtur að starfi björgunarsveita í landinu. Björgunarsveitirnar hafa sinnt mikilvægu hlutverki og eru í raun stolt okkar Íslendinga, hafa bjargað hundruðum mannslífa á undangengnum árum og þúsundir einstaklinga starfa innan björgunarsveitanna hér á landi. Þetta fólk þarf sína þjálfun. Menn þurfa að vera hæfir til að bregðast við mismunandi aðstæðum, en nú bregður svo við samkvæmt þessu frumvarpi hér að um undanþágur frá banni við akstri utan vega kemur fram, svo ég vitni orðrétt í álit hv. þingmanns:

„Samkvæmt tillögum meiri hlutans fá björgunarsveitir einungis heimild til aksturs utan vega við björgunarstörf en að öðru leyti eiga æfingar að fara fram á sérstökum æfingasvæðum. Æfingar björgunarsveita við raunverulegar aðstæður eru mikilvægur þáttur í starfsemi þeirra og getur reynsluleysi við raunverulegar aðstæður verið dýrkeypt. 1. minni hluti telur mikilvægt að björgunarsveitum sé veitt rýmri heimild til æfinga utan vega.“

Hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða. Ætla menn að fara að setja upp mjög sérhæfð svæði, eitt eða tvö á landinu, þar sem allar björgunarsveitir landsins eiga að æfa? Væri ekki réttara í ljósi þess að þær eru staðbundnar og eiga að þekkja vel til á sínum heimasvæðum að menn fengju rýmri heimildir til æfinga á sínum heimasvæðum? Samkvæmt þessu frumvarpi er verið að þrengja allverulega að svigrúmi björgunarsveitanna þegar kemur að þeim mikilvæga þætti í starfsemi þeirra sem er að æfa sig undir mismunandi aðstæður. Ég hefði haldið að það væri meira en einnar messu virði að ræða þennan hluta málsins ef það er svo að með því að samþykkja þetta frumvarp séum við mögulega að hefta nær algjörlega mjög mikilvægar æfingar björgunarsveita vítt og breitt um landið.

Það er kannski eðlilegt að formaður nefndarinnar, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, komi í salinn og svari þeirri fyrirspurn minni hvort hann telji þrengt allverulega að björgunarsveitum í landinu með þessu frumvarpi og hvort hann hafi ekki áhyggjur af því sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason nefnir í nefndaráliti sínu.

Það er annað sem mér þykir líka vert að ræða í þessu samhengi og snertir utanvegaakstur. Nú má enginn skilja það sem svo að ég sé einhver sérstakur talsmaður utanvegaaksturs, það er langt í frá og mörg ljót lýti sem við höfum séð á landinu okkar fagra vegna slíks, en margar atvinnugreinar eins og til að mynda landbúnaðurinn þurfa að athafna sig þannig að slíkt er óhjákvæmilegt í daglegum rekstri. Þá kemur það fram í þessu frumvarpi að það eru settar inn undanþágur sem fjalla um þessi mál og snerta landbúnaðinn, en samkvæmt niðurstöðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar kemur í ljós að þegar þær takmarkanir sem meiri hluti nefndarinnar leggur til gagnvart bændum og utanvegaakstri eru skoðaðar og settar í samhengi við lagatextann sé verið að banna með öllu akstur utan vega vegna landbúnaðarstarfa. Það eru mjög drastískar breytingar. Ég hefði talið rétt að senda þetta frumvarp aftur til umsagnar með áorðnum breytingum — það eru 56 breytingartillögur — þannig að við fengjum heildstæðari mynd raunveruleikanum verði þessar breytingar samþykktar og það frumvarp sem við ræðum hér. Þetta vil ég segja áður en ég held áfram að fara yfir þetta umfangsmikla mál, í ljósi þess að mjög harðar ályktanir hafa komið frá sveitarfélögunum og Bændasamtökunum, m.a. um þetta ákvæði. Mér sýnist svo mikill flaustursgangur á þessu máli að alla heildaryfirsýn yfir möguleg áhrif af þessu frumvarpi vanti. Þessi vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni og það er ekki hægt að segja að hér hafi verið vandað til verka miðað við hvernig á að keyra þetta mál í gegn á næstsíðasta starfsdegi þingsins.

Frú forseti. Mig langar að ræða einstakar efnisgreinar frumvarpsins og byrja á 57. gr. sem er breyting á 37. gr. núgildandi laga. Ég er meðal annars með umsagnir frá Samorku, Landsvirkjun og Vegagerðinni sem gagnrýna harðlega hvernig sú grein er úr garði gerð. Þessu var ekki breytt í tillögum meiri hluta nefndarinnar og það snertir mjög ríka hagsmuni þegar kemur að vegagerð í landinu, nýtingu náttúruauðlinda og fleira mætti nefna.

Ég vitna fyrst í umsögn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, með leyfi frú forseta:

„Ljóst er að ákvæði 57. gr. frumvarpsins gætu þrengt verulega að framtíðarnýtingu orkulinda hérlendis, verði þau óbreytt að lögum. Þegar er hér fjallað um breytt orðalag 2. mgr. um röskun (á við um 37. og 57. gr.) en jafnframt er í 57. gr. bætt verulega við upptalningu 37. gr. núgildandi laga um náttúrufyrirbæri sem njóta skuli sérstakrar verndar. Hraunhellar og birkiskógar bætast þar við fyrri upptalningu, umhverfi fossa í allt að 200 metra radíus frá fossbrún, lífríki tengt hverum og heitum uppsprettum og eftir atvikum virkar ummyndanir og útfellingar þeim einnig tengdar. Þá nær ákvæði 57. gr. til mýra og flóa allt niður í eitt þúsund m2 í stað 3 þúsund m2 í núgildandi lögum. Er þar um nokkuð róttæka breytingu að ræða, verði hún samþykkt, sem að mati Samorku væri býsna langt seilst. Eða er staðan virkilega svona slæm hvað varðar vatnasvæði hér á landi, að seilast þurfi svona langt í sjálfkrafa verndun þeirra? Hefur ekki endurheimt votlendis verið á dagskrá árum saman? Nýlega gaf Umhverfisstofnun út til kynningar drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands. Þar kemur fram að ástand vatns sé yfirleitt mjög gott hérlendis, einkum ef horft sé til annarra Evrópulanda.

Samorka vill jafnframt í þessu sambandi ítreka fyrri athugasemd (um 37. gr. frumvarpsins) með vísun í orðalag 37. gr. núgildandi laga (um að forðast beri röskun …). Samtökin lýsa efasemdum um að mörg íslensk sveitarfélög séu í aðstöðu til að byggja upp og viðhalda grunnþjónustukerfum án þess að neitt þeirra náttúrufyrirbæra sem talið er upp í 57. gr. komi þar við sögu.“

Hér er um að ræða miklar breytingar sem sveitarfélög og orkufyrirtæki hafa gert mjög miklar athugasemdir við og gætu varðað gríðarlega mikla hagsmuni sem ég tel að við þurfum að fara mun betur yfir og ræða hér. Það er ekki alveg til fyrirmyndar að við ætlum að gera það í skjóli nætur daginn áður en þing fer heim en það er eins og með annað þegar kemur að stórum hagsmunamálum þjóðarinnar, þ.e. undirstöðuatvinnugreinum landsins, þá áskilur þessi ríkisstjórn sér rétt til að haga málum eftir eigin geðþótta (SDG: Alltaf sama sagan.) og það er því miður alltaf sama sagan, það er riðið á vaðið, málin skulu keyrð í gegn sama hvað tautar og raular, jafnvel þó að margháttaðar athugasemdir sveitarfélaga og sérfræðinga í viðkomandi málaflokkum liggi fyrir.

Nú hef ég lokið tilvitnun í umsögn Samorku um 57. gr. þessa frumvarps.

Í umsögn frá Landsvirkjun er svipaður tónn og ég ætla svo sem ekki að endurtaka það þar sem farið er yfir það hvaða neikvæð áhrif svona takmarkanir geti haft, m.a. á undirbúning framkvæmda frá fyrstu hugmynd til og með rekstri. Við höfum talað fyrir því að um leið og við eigum að sjálfsögðu að beita okkur fyrir því að farið sé varlega um landið gangi menn ekki öfgafullt í hinar áttirnar þannig að það sé komið í veg fyrir margar mjög umhverfisvænar og þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir. Margar áhyggjuraddir hafa verið settar fram er snerta 57. gr. frumvarpsins hvað þessi mál áhrærir. Að auki segir Landsvirkjun, með leyfi frú forseta:

„Með 5. mgr. 57. gr. er þrengt að heimildum leyfisveitenda til að veita framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi. Þeir þurfa ekki einungis að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar og eftir atvikum annarra fagstofnana, heldur einnig að rökstyðja sérstaklega ákvarðanir ef þær ganga gegn áliti þessara stofnana. Landsvirkjun bendir einnig á að með því að ætla Náttúrufræðistofnun Íslands svo veigamikið hlutverk sem hér er lagt til gætu skapast árekstrar vegna rannsókna sem stofnunin kann að hafa sinnt við undirbúning viðkomandi verkefnis. Gera þarf skýran greinarmun á hlutverki stjórnsýslustofnunar og rannsóknastofnunar.

Landsvirkjun telur ljóst að ef 57. gr. frumvarpsins verður að lögum án breytinga verður þrengt verulega að öllum framkvæmdum þar með talið að nýtingu orkuauðlinda.“

Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé mögulega tilgangur frumvarpsins að hluta. Við höfum séð við umfjöllun rammaáætlunar sem fór í gegnum Alþingi að þar höfðu fremstu sérfræðingar þjóðarinnar í náttúruvernd og orkunýtingu verið að störfum við það að meta hvernig við ættum að bera okkur að við það að vernda og nýta orkuauðlindir landsins. Það kom ákveðin niðurstaða út úr því ferli sem tók ein 13 ár, gríðarlega merkileg vinna sem sett var af stað undir forustu Framsóknarflokksins á sínum tíma. Í raun var ákveðið samkomulag um að niðurstaða þessara sérfræðinga og allra þeirra undirhópa sem höfðu fjallað um rammaáætlun yrði salómonsdómur. Svo ljúka þessir sérfræðingar við vinnu sína og hver er raunveruleikinn í framhaldinu? Jú, ríkisstjórnarflokkarnir Vinstri grænir og Samfylking fóru að „víla og díla“ um það í hvaða flokka viðkomandi orkuauðlindir ættu að fara, þ.e. í nýtingu, bið eða vernd, og ákváðu að breyta niðurstöðum þeirra sérfræðinga sem höfðu unnið að málinu í 13 ár. Mörg hundruð manns höfðu komið að þeirri vinnu en það var ákveðið að setja það mál á hið pólitíska taflborð og niðurstaðan varð sú að virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár voru færðir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk að kröfu Vinstri grænna.

Með þessu frumvarpi og 57. gr. sem ég hef verið að vitna í virðist margt benda til þess að Vinstri grænir og hluti Samfylkingarinnar vilji þrengja enn frekar að umhverfi þeirra fyrirtækja sem hafa verið að rannsaka og viljað nýta náttúruauðlindir okkar Íslendinga. Það kemur beinlínis fram í þessu frumvarpi og þrátt fyrir mjög málefnalegar athugasemdir þessara aðila gerir meiri hluti nefndarinnar ekkert með það að koma til móts við sjónarmiðin í þessum umsögnum, heldur skal keyra málið í skjóli nætur í gegnum Alþingi Íslendinga, alveg sama hvað hverjum finnst um það, og það á næstsíðasta degi þingsins og þrátt fyrir að hvorki fleiri né færri en 56 breytingartillögur liggi við það frumvarp sem við ræðum hér.

Frú forseti. Ætli ekki megi finna einhverjar villur í öllum þessum breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til? Hefur verið farið ítarlega yfir það hvort einhverjar breytingartillögur muni mögulega skarast á við aðra löggjöf sem hefur verið sett á Alþingi? Við sjáum því miður allt of mörg dæmi þess að Alþingi gerir mistök við lagasetningu og það er ekki við starf sérfræðinga þingsins að sakast í þeim efnum, heldur við verklagið. Ríkisstjórnin kemur inn með frumvörp sem skal keyra í gegnum þingið, helst í skjóli nætur eins og það frumvarp sem við ræðum hér. Þetta eru vítaverð vinnubrögð og það á ekki að líðast að framkvæmdarvaldið geti komið svona fram gagnvart löggjafarvaldinu, sett þvílíkan þrýsting á málið, eftir að hafa lagt fram svo gallað frumvarp að hvorki fleiri né færri en 56 breytingartillögur þurfti af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Þetta vinnulag dæmir sig sjálft og í raun hefur fólk í landinu fyrir löngu áttað sig á því að verksvitið hjá þessari ríkisstjórn er afskaplega takmarkað. Svo hart hefur verið gengið fram að aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, hafa loksins orðið sammála um að einfaldlega sé ekki hægt að eiga samskipti við þessa ríkisstjórn. Hún hefur skipti eftir skipti svikið skriflega samninga við aðila vinnumarkaðarins og hafa þeir nú sagt að sjaldan hafi verið gengið eins freklega gegn undirskrifuðu samkomulagi og í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það er farið að ganga á ýmsu í samfélaginu þegar Alþýðusamband Íslands er búið að segja sig úr lögum við þessa ríkisstjórn. Það heldur því fram að menn verði að þreyja þorrann, bíða eftir kosningum og bíða eftir því að ný stjórn taki við, stjórn sem hægt er að treysta og stjórn sem stendur við það sem skrifað er undir. (BVG: … endurkjörin.) Hv. þm. Björn Valur Gíslason kemur með spádóm klukkan hálftíu að kvöldi um að þessi ríkisstjórn verði endurkjörin. (BVG: Mér heyrðist þú segja það.) Honum heyrðist ég segja það. Honum verður ekki að ósk sinni í þeim efnum en þó má segja hv. þingmanni það til hróss að hann er bjartsýnismaður. Hver veit nema (BVG: Nákvæmlega.) fólk sjái ljósið og kjósi þessa ríkisstjórn aftur yfir sig, hún á þvílíkt glæstan feril að baki í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar (Menntmrh.: Við þökkum þér fyrir.) að sögn varaformanns Vinstri grænna, hv. þm Björns Vals Gíslasonar. En það vill svo til að hann er einn af fáum Íslendingum sem er sammála sjálfum sér um þetta mál. [Hlátur í þingsal.]

Mig langar að halda áfram að ræða þetta viðamikla mál. Nú gerðist það undarlega sem gerist ekki oft þegar lagafrumvörp eru til umfjöllunar á Alþingi — og eins og ég hef bent á eru lagðar fram 56 breytingar á frumvarpinu við meðferð málsins — að Samband íslenskra sveitarfélaga sendi gríðarlega langa umsögn með mjög mörgum athugasemdum um það frumvarp sem við ræðum hér. Eftir að þessar 56 breytingar komu fram sá Samband íslenskra sveitarfélaga sig knúið til þess að senda inn viðbótarumsögn við frumvarp til náttúruverndarlaga vegna þess að frumvarpið hafði breyst svo gríðarlega í meðförum meiri hluta nefndarinnar. Nú ætla ég að vitna til viðbótarumsagnar sambandsins, með leyfi frú forseta:

„Að áliti sambandsins mundu sveitarstjórnir samt almennt vilja sjá frumvarpið unnið betur áður en það verði lagt fram á næsta þingi. Í því sambandi vísar sambandið sérstaklega til umsagna einstakra sveitarfélaga þar sem koma fram ábendingar um ýmis atriði sem ekki er fjallað um í umsögn sambandsins.“

Ég vek ég athygli á því að Samband íslenskra sveitarfélaga hafði ekki haft ímyndunarafl til að halda að þessi ríkisstjórn ætlaði að keyra þetta mál í gegn í skjóli nætur vegna þess í framhaldsumsögninni gefur sambandið sér að þetta mál verði aftur lagt fram á næsta þingi, þá væntanlega í einhverjum öðrum búningi, og telur að vinna þurfi frumvarpið miklu betur áður en það verði aftur lagt fram. Sambandið gerir ekki ráð fyrir því að málið verði klárað í skjóli nætur eins og vinstri grænir og samfylkingarmenn ætla sér að gera á næstsíðasta starfsdegi þingsins.

Það er alveg hreint með ólíkindum að alþingismenn ætli sér að afgreiða svona viðamikið frumvarp með áorðnum slíkum gríðarlegum breytingum á einungis nokkrum klukkutímum. Eru menn ekki að grínast? Er þetta virkilega lagt fram í alvöru? Þetta er mjög slæmur brandari ef þetta er eitthvert grín vegna þess að mörg mál bíða, m.a. sem við framsóknarmenn og aðrir flokkar í stjórnarandstöðu höfum lagt fram um málefni heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Við eyðum hér heilu kvöldi og jafnvel heilli nótt í að fara yfir frumvarp sem kemur út úr nefnd með gríðarlega miklum breytingum, langflestir aðilar sem gerðu athugasemd við frumvarpið telja að það eigi að bíða og verða lagt aftur fram á haustþingi með öllum þeim fjölmörgu breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til vegna þess að það eru hin eðlilegu vinnubrögð þegar við ræðum um frumvarp til náttúruverndarlaga.

Mig langar að nefna eitt sveitarfélag úr mínu kjördæmi, Norðurþing. Skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins kynnti sér frumvarpið og gerði á nokkrum blaðsíðum fjölmargar athugasemdir við það eins og það var. Það er slæmt fyrir sveitarstjórn Norðurþings að hafa ekki haft tóm til að sjá allar þær 56 breytingar sem meiri hluti nefndarinnar gerði núna fyrir 2. umr. og ætlast til að verði afgreiddar í nótt. Það hefði kannski verið ágætt fyrir sveitarfélögin í landinu og fleiri aðila að fá tóm til að kynna sér allar þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til. Áður en til allra þessara breytingartillagna kom stóð svo í umsögn Norðurþings um þetta frumvarp, með leyfi frú forseta:

„Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hefur kynnt sér frumvarp til laga um náttúruvernd, þingskjal 537, 429. mál. Nefndin harmar þann stutta tíma sem gefinn er til athugasemda, en hann dugar ekki sveitarfélögum eins og Norðurþingi þar sem reglulegir nefndafundir eru mánaðarlegir. Það er ekki hvað síst bagalegt í ljósi þess hversu mikilvægt frumvarpið er stjórnsýslu sveitarfélaga. Ekki er ásættanlegt að svo róttækar breytingar á gildandi löggjöf um náttúruvernd lendi í flýtiafgreiðslu þar sem umsagnaraðilum er gefinn takmarkaður tími til yfirlestrar og athugasemda.

Meiri hluti nefndarinnar óskar að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri vegna áframhaldandi vinnu við frumvarpsgerðina“ — og síðan eru hér fjölmargar breytingartillögur sem meiri hluti skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings leggur til.

Nú væri óskandi að fulltrúar í skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings væru að horfa á útsendinguna frá Alþingi. Vafalaust eru einhverjir að horfa, líkt og minn ágæti vinur Hjálmar Bogi Hafliðason bæjarfulltrúi sem fylgist mjög mikið með framgöngu þingmanna hér og hvaða augum við lítum framfaramál sem snerta Húsavík og Þingeyjarsýslur. Nú liggur fyrir þeim væntanlega sú vinna í kvöld og nótt að fara yfir 56 breytingartillögur vegna þess að meiri hlutinn á Alþingi ætlar sér að klára þetta mál á morgun. Það er ekki hægt að horfa upp á ráðslag af þessari tegund og í raun vil ég meina að það sé fáheyrt að nokkur ríkisstjórn hafi farið fram í málefnum náttúruverndar á Íslandi með þeim hætti sem þessi ríkisstjórn gerir. Hefur hún gerst fræg við málsmeðhöndlun margra stórra mála á Alþingi sem ég ætla svo sem ekkert sérstaklega að rifja upp, en mér sýnist að það sé verið að bíta höfuðið af skömminni með þessari málsmeðhöndlun hér.

Því miður er takmarkaður tími sem maður hefur til að fara yfir þetta stóra mál en mig langar að lokum að vitna til umsagnar Bændasamtaka Íslands sem fengu ekki aðild að starfshópi sem átti að semja það frumvarp sem við ræðum hér, fulltrúar bændastéttarinnar, þeirra aðila sem umgangast landið og náttúruna hvað mest hér á landi. Þvílík fásinna að þeim skyldi ekki hafa verið hleypt að undirbúningi þessa máls. Mig langar að vitna í umsögn Bændasamtaka Íslands, með leyfi frú forseta:

„Þegar lög nr. 44/1999 um náttúruvernd voru samin áttu Bændasamtök Íslands fulltrúa í nefnd sem hafði það verkefni með höndum enda voru til umfjöllunar fjölmörg atriði sem snertu bændur og landeigendur með margvíslegum hætti. Hvorki Bændasamtökum Íslands né Landssamtökum sauðfjárbænda var gefið færi á að eiga fulltrúa í nefndinni sem hafði lögin til endurskoðunar veturinn 2010–2011. Eftir að hafa lagt fram ítrekaðar beiðnir um að eiga beina aðkomu að nefndinni var þeim endanlega hafnað,“ — (ÓN: Þetta er hneyksli.) hneyksli, kallar hv. þm. Ólöf Nordal, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ég held að það megi alveg gefa þessu verklagi þá einkunn vegna þess að það er fáheyrt að Bændasamtökin skuli ekki hafa fengið aðkomu að þessu starfi — „án rökstuðnings. Fjölmörg atriði í frumvarpinu hafa stóra snertifleti við hagsmuni félagsmanna Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. Það er ekki til þess fallið að skapa sátt um mál af þessu tagi, að einhverjum stærstu hagsmunaaðilum um náttúruvernd á Íslandi, sé úthýst við heildarendurskoðun með þessum hætti.“

Það er ekki til þess fallið að skapa sátt, segja fulltrúar Bændasamtakanna, að viðhafa verklag með þessum hætti. Maður veltir fyrir sér hvort markmiðið hafi kannski aldrei verið það að ná einhverri sátt um þetta mál. Það væri kannski eftir öðru sem þessi ríkisstjórn hefur haft, m.a. þegar kemur að orkumálum eða málefnum sjávarútvegsins, þar hefur forsætisráðherra ekki beinlínis hvatt til sáttar innan lands og meðal þjóðarinnar. Nei, frekar til sundrungar. Þegar verst hefur staðið á hjá þessari ríkisstjórn hefur hún iðulega reynt að búa til einhverja óvini, óvini sína þar sem ríkisstjórnin er fulltrúi fólksins í landinu og þá eru það einhverjir ímyndaðir óvinir sem hún á við í einstaka málum á þeim tímum sem við hefðum þurft að hafa ríkisstjórn sem hvetti til samræðu, samvinnu og samheldni. Því miður höfum við haft ríkisstjórn sem hvetur til sundurlyndis og elur á þeim fjanda sem sundurlyndið er.

Mig langar að lokum að vitna aftur í umsögn Bændasamtakanna, þar sem segir síðar í umsögn þeirra:

„Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda gerðu athugasemdir við þá fyrirliggjandi frumvarpsdrög með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 18. janúar 2011. Tekið hefur verið tillit til þessara athugasemda að mjög takmörkuðu leyti. Enn er ástæða til þess að gera athugasemdir við frumvarpið sem sumar hafa verið gerðar ítrekað allt frá upphafi málsins árið 2010.“

Frú forseti. Ég held að með þessu stutta innleggi mínu hér og tilvitnunum í fjölmargar umsagnir aðila sem hvað best þekkja til náttúruverndar á Íslandi og þess með hvaða hætti við viljum nýta íslenska náttúru og landsins gæði fái það frumvarp sem við ræðum hér algjöra falleinkunn. Það er fráleitt að ríkisstjórnin ætli að klára þetta mál í skjóli nætur eftir 56 breytingartillögur í nefnd (Gripið fram í.) og að það eigi að gera þetta frumvarp að lögum frá Alþingi Íslendinga á morgun. Slíkt skal aldrei verða. (Forseti hringir.)