143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

upplýsingar um hælisleitanda.

[14:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í alla þá þætti sem hér voru nefndir. Ég hef aldrei sagt þingheimi ósatt, hvorki um þetta mál né annað. Það sem ég útskýrði hér og sagði að væri ekki í samræmi við nein gögn í ráðuneytinu er afar meiðandi (Gripið fram í.) niðurstaða í gagni sem var til dreifingar hjá bloggurum í landinu en er ekki frá innanríkisráðuneytinu komið. Ég get ekki svarað því hver skrifaði þann texta. Hann var ekki skrifaður í innanríkisráðuneytinu.

Ég hef hins vegar aldrei neitað því að samantektir um hælisleitendur væru til í ráðuneytinu. Ég útskýrði fyrir þinginu á sínum tíma hvernig slíkar samantektir væru uppbyggðar frá undirstofnunum. Í því fólst engin ásökun í garð eins eða neins í þessu máli. Hv. þingmaður getur sannarlega trúað því að hvorki sú sem hér stendur og ég tala nú ekki um starfsmenn ráðuneytisins, það góða fólk sem þar vinnur, tekur þetta mál létt eða finnst þetta létt mál. Við tökum það mjög alvarlega, (Forseti hringir.) höfum gert allt sem í okkar valdi stendur, fögnuðum rannsókninni (Forseti hringir.) og vildum svo gjarnan fá svör við því sem við getum (Forseti hringir.) ekki veitt svör við.