145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðvíkjandi glæpum gegn friði.

687. mál
[14:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda breytingu á Rómarsamþykktinni með stofnun alþjóðlega sakamáladómstólsins, en um framkvæmd hennar hafa þegar verið sett lög nr. 43/2001.

Dómstóllinn hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Stofnun dómstólsins var á sínum tíma tvímælalaust eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum allt frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, en unnið hafði verið að stofnun slíks dómstóls allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ísland hefur frá upphafi skipað sér í hóp vestrænna ríkja sem styðja dyggilega við starf alþjóðlega sakamáladómstólsins og var meðal annars tíunda ríkið til að fullgilda Rómarsamþykktina sjálfa.

Í Rómarsamþykktinni er tilgreint að einn af þeim glæpum sem dómstóllinn hefur lögsögu yfir séu svonefndir árásarglæpir eða glæpir gegn friði, á ensku nefndir „Crime of Aggression“, með leyfi forseta.

Þegar Rómarsamþykktin var samþykkt árið 1998 náðist þó ekki samstaða um nánari efnisleg ákvæði um þessa tegund glæpa enda er þar um að ræða glæpi sem eru pólitískt viðkvæmir fyrir nokkur ríki. Ástæðan er sú að refsiábyrgð vegna glæpa gegn friði kann að lenda á leiðtogum viðkomandi ríkja. Á endurskoðunarráðstefnu Rómarsamþykktarinnar árið 2010 í Kampala í Úganda náðist hins vegar samkomulag um skilgreiningu og upptöku ákvæða um glæpi gegn friði í Rómarsamþykktina með svokölluðum Kampala-breytingum. Skilgreining á glæpum gegn friði, sem þar var samþykkt, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Áætlanagerð, undirbúningur, byrjun eða framkvæmd árásar af hálfu einstaklings, sem er í stöðu til þess að hafa raunverulegt eftirlit með eða stjórna pólitískri eða hernaðarlegri aðgerð ríkis, þ.e. árásar vegna eðlis, alvarleika eða umfangs felur í sér augljóst brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Einnig var samþykkt skilgreining á því hvað telst árás samkvæmt framangreindri skilgreiningu á glæpum gegn friði, en þar kemur meðal annars fram að það teljist árás, með leyfi forseta, „þegar ríki beitir hervaldi gegn fullveldi, friðhelgi yfirráðasvæðis eða stjórnmálalegu sjálfstæði annars ríkis eða valdi með annarri þeirri aðferð sem ekki samrýmist markmiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna“.

Samkvæmt samkomulagi aðildarríkja alþjóðlega sakamáladómstólsins verður lögsaga dómstólsins vegna glæpa gegn friði ekki virk fyrr en að minnsta kosti þrjátíu ríki hafa fullgilt Kampala-breytingarnar. Nú þegar hafa 28 ríki fullgilt þær. Ísland hefur því enn tækifæri til að vera meðal fyrstu 30 ríkjanna til að fullgilda breytingarnar og leggja þannig sitt af mörkum til að virkja þær í framkvæmd. Fullgilding Kampala-breytinganna á Íslandi kallar á lagabreytingar og er vinna við þær þegar hafin á vegum innanríkisráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að lagafrumvarp þar að lútandi verði tilbúið til framlagningar á næsta þingi.

Virðulegur forseti. Að þessum orðum sögðum vil ég leggja til að þingsályktunartillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.