145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni tillögunnar og velferðarnefnd fyrir að hafa unnið þetta mál og mér finnst frábært að lesa nefndarálitið, sjá alla gestina sem hafa komið, ítarlegt nefndarálit þar sem er farið vel yfir athugasemdir og rökstutt af hverju nefndin hefur tekið tillit til þeirra eða ekki og þetta er unnið þvert á flokka. Mér finnst þetta frábært starf. Þetta er flott og við getum sagt gott fyrsta skref í tilraun til að móta geðheilbrigðisáætlun. Það er í rauninni alveg ótrúlegt að við séum með þetta í höndunum árið 2016, ekki komin lengra.

Ég hefði gjarnan viljað sjá og það væri auðvelt að segja að maður mundi vilja sjá stærra og meira plan, en ég held að ef okkur tekst að framfylgja þessu þá séum við í raun strax komin vel á veg og í rétta átt. Eins og kemur fram hérna er talað um að það þurfi að sjálfsögðu að gera nýtt plan þegar þar að kemur.

Ég held að það hafi líka verið gott að skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga kom út, mjög áhugaverð skýrsla og þarft innlegg í umræðuna. Hún sýnir svo ekki verður um villst að við getum ekki setið með hendur í skauti. Við höfum ekki staðið okkur í þessum málaflokki, ég upplifi það að minnsta kosti þannig.

Önnur tillaga sem hefur verið lögð fram sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er fyrsti flutningsmaður að, ef ég man rétt, varðaði sálfræðinga í framhaldsskóla sem ég held að sé mjög brýnt. Mér finnst rétt að impra á því að mér finnst svolítið einkennilegt ef það er þjónusta sem skólarnir eigi að greiða. Það ætti að vera þjónusta sem ríkið greiddi því staða framhaldsskólanna er þannig að það er örugglega ekki einn einasti framhaldsskóli sem hefur raunverulega efni á því að vera með sálfræðinga í vinnu. En ég veit að reynslan til dæmis í Verkmenntaskólanum á Akureyri hefur verið mjög góð og þar vilja menn halda þessu áfram. Svona ætti þetta að vera í öllum framhaldsskólum.

Ég tek undir með hv. flutningsmanni að það er gott að tilgreint sé í tillögunni, þar sem talað er um sálfræðimeðferðir, að þá er átt við gagnrýndar meðferðir með klínískum leiðbeiningum. Það skiptir máli. Hér er líka vísað til Bretlands. Það er mjög áhugavert það sem er í gangi þar, virkilega. Ég held að við ættum að skoða það alvarlega. Þar er verið að beita hugrænni atferlismeðferð á kannski vægari sjúkdóma þar sem það er hægt með mjög góðum árangri. Þegar við horfum upp á að geðraskanir eru algengasta ástæða örorku á Íslandi og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spáir því að árið 2030 verði þunglyndi í 1. sæti yfir heilsufarsógnir í heiminum, er þetta vandamál af slíkri stærðargráðu að það verður að grípa til öflugra aðgerða. Ég er mjög spennt að fylgjast með því sem Bretar eru að gera og sé að nefndin hefur að einhverju leyti kynnt sér það og vísar í það.

Ég veit ekki hvort velferðarnefnd hefur tekið skýrslu Ríkisendurskoðunar til umfjöllunar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fylgja þeim málum eftir og þeim ábendingum sem koma þar fram. Það var fjallað um hana á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eins og er tilfellið með allar skýrslur Ríkisendurskoðunar, en þær eiga síðan mjög margar erindi í fagnefndir. Þarna eru mjög mikilvægar ábendingar. Þó að þetta komi kannski ekki endilega inn í þetta mál, þá vil ég halda því á lofti að velferðarnefnd, sem hefur reyndar í nógu að snúast, ég veit það, eða sú sem tekur við á nýju þingi fylgi þessu máli eftir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Mér finnst áhugavert að lesa hérna um skimanir og það er svo ánægjulegt að sjá hvað nefndin hefur greinilega lagst í málið, fengið marga gesti, vegið og metið. Ég er í rauninni sammála því sem fram kemur í nefndaráliti og þeirri niðurstöðu sem nefndarmenn hafa komist að eftir að hafa heyrt rök með eða á móti. Ég vil þakka fyrir þessa mjög svo góðu vinnu og mun á meðan ég sit á þingi leggja mitt af mörkum til þess að veita hæstv. heilbrigðisráðherra það aðhald sem til þarf til að þessi stefna verði innleidd og það verði gert vel.