149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þá er stóra stundin runnin upp. Ég var í rauninni að vonast til þess að við þyrftum ekki að taka á þessu, burt séð frá mörgum öðrum hv. þingmönnum hér. Rökræðuna, sem hér er talað um að hafi farið fram um frumvarpið, hefur skort að mínu viti. Mér hefur þótt hún frekar rýr í roðinu. Að tala annars vegar um sjálfsákvörðunarrétt konunnar til að taka ákvörðun um að rjúfa þungun sína til loka 22. viku meðgöngu, um leið og hún er greinilega búin að týna honum þegar þessum tímamörkum sleppir, finnst mér ekki vera rétt.

Mér finnst heldur ekki hafa verið tekið heildstætt á frumvarpinu. 5. gr. hefur valdið mér miklu angri, svo ég tali nú ekki um 4. gr., þannig að ég hefði gjarnan viljað sjá að við hefðum tekið utan um þetta mál heildstætt og að við hefðum gert það í sátt og gert það saman. Því miður horfumst við nú í augu við þetta. Þetta er ekki gleðidagur í mínum huga. Ég er ekki stolt af því endilega að vera kona sem getur státað af þessum sjálfsákvörðunarrétti. Ég er sorgmædd í dag og ég segi nei.