149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

417. mál
[18:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er um nýtt starf að ræða, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, með það að markmiði að bæta umgjörð og stuðla með því að öryggi þeirra sem taka þátt í því viðamikla starfi sem fer fram á vegum íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar og svara ákalli fjölmargra íþróttakvenna, yfirlýsinga og frásagna þeirra undir myllumerkinu #églíka, frásagna sem lýstu margs konar ofbeldi, áreiti, áreitni, mismunun og misrétti í heimi íþróttanna og eru í samræmi við rannsóknir um slíkar aðstæður valdbeitingar og ofbeldis.

Frumvarpið er grundvallað á vinnu starfshóps ráðherra og felur í sér að tryggja frekar vernd og öryggi þeirra sem stunda og starfa við íþrótta- og æskulýðsstarf, ekki síst barna og unglinga. Einhugur um það birtist í öllum umsögnum um málið.

Breytingartillögur nefndarinnar varða gildistíma, skyldur, framkvæmd og hlutverk starfans, skyldu ráðherra um reglusetningu og um starfið, sem og samræmi við önnur lög og hugtök.