149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég missti því miður af upphafi umræðunnar um þetta mál í þetta skiptið, en verð að játa að miðað við það sem ég heyrði af umræðunni varð ég hissa þegar ég komst að því að málinu væri ætlaður staður í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég gat ekki heyrt annað hjá stuðningsmönnum þessa frumvarps en að í þeirra málflutningi skipti ekki síst máli lýðheilsumál og sú mikla áhersla sem ætti að leggja á forvarnir og lýðheilsu og lýðheilsusjóð sem myndi breyta öllu varðandi afstöðu til þessa frumvarps.

Ég gerði þess vegna, forseti, einfaldlega ráð fyrir því að það væri ætlan flutningsmanna að mál sem að svo miklu leyti snerist um lýðheilsumál færi í þá nefnd sem fjallaði um lýðheilsumál. Þess vegna kom þetta mér á óvart en ég mun að sjálfsögðu styðja góða tillögu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar um að málið fari þangað sem það á heima, til hv. velferðarnefndar.