149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[19:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er lagt til að heimildir til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar í tengslum við öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem tóku gildi 1. júlí 2014, verði framlengdar um tvö ár.

Núgildandi heimildir til ráðstöfunar og úttektar á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar falla að óbreyttu úr gildi 30. júní 2019, núna í sumar. Frumvarpið felur ekki í sér aðrar breytingar en þær að lagt er til að heimildir til að nýta úrræðin verði framlengdar til 30. júní 2021, rétthöfum séreignarsparnaðar til hagsbóta. Þá er í frumvarpinu að finna afleiddar breytingar á tekjuskattslögum til að tryggja rétthöfum áframhaldandi skattfrelsi við nýtingu úrræðanna.

Frumvarpið er hluti af áframhaldandi aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um stuðning til handa einstaklingum til að eignast eigið íbúðarhúsnæði og stuðla að lægri skuldsetningu vegna íbúðarhúsnæðis. Þá er frumvarpið liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru með yfirlýsingu vegna lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins 3. apríl 2019.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.