150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu á þskj. 1409, við frumvarp til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna kórónuveiru. Breytingartillagan snýr að 11. gr. frumvarpsins. Ástæða þess að hún er lögð hér fram er að ábendingar bárust um að óæskilegt væri að löggjafinn útilokaði að tiltekinn rekstraraðili gæti hlotið stuðningslán samkvæmt III. kafla frumvarpsins með meira en einni lánveitingu. Þar eru einkum tvær ástæður að baki. Í fyrsta lagi væri einfaldara í framkvæmd að lán að upphæð meira en 10 millj. kr. yrði veitt í tvennu lagi, enda nyti fjárhæð þess ekki öll sama hlutfalls ríkisábyrgðar eða sömu vaxtakjara.

Í öðru lagi væri með kröfu um eina lánveitingu girt fyrir þann möguleika að rekstraraðili sem fullnýtir ekki svigrúm sitt til stuðningsláns gæti á síðari stigum sótt um frekari lánveitingu. Slíkt myndi skapa óeðlilegan hvata til rekstraraðila til að sækja um eins hátt stuðningslán í upphafi og kostur er í stað þess að meta lánsþörfina af varfærni og eiga í raun möguleikann á viðbótarláni inni. Með þessari breytingartillögu, og það er rétt að taka fram að ég hafði samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið, er ætlunin að unnt verði að veita stuðningslán með fleiri en einni lánveitingu en reglur um lánin verða óbreyttar að öðru leyti. Með þessu veitir löggjafinn aukið svigrúm til tæknilegrar útfærslu stuðningslána. Í samræmi við heimildir þar að lútandi í frumvarpinu verður unnt að kveða nánar á um framkvæmd stuðningslána að þessu leyti í reglugerð ráðherra og/eða í samningi Seðlabanka Íslands við lánastofnanir, svo sem þau tilvik þar sem heimilt er eða skylt verður að veita stuðningslán í meira en einu lagi og hvernig greiðslu rekstraraðila í slíku tilviki er háttað.