150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að það er að verða stefnubreyting þegar kemur að skaðaminnkun víðs vegar um heim. Hvernig við skiljum fíkn og nálgumst lausnir og úrræði er að gjörbreytast. Ég hlusta oft á AA-fundi. Mér finnst áhugavert að hlusta á hvað fólk er að díla við og alkóhólistar tala oft um að áfengi sé ekki vandamálið, að áfengi sé lausnin. Þetta er það sama og við sjáum með önnur vímuefni, þ.e. að vímuefnið sjálft er ekki vandinn heldur er vímuefnið lausnin fyrir þá einstaklinga sem neyta vímuefna. Þar af leiðandi þurfum við að fara að skoða rótina, hver vandinn er, og fara að ráðast á vandann. Ef við getum nálgast vandann á þann hátt þá sækir fólk ekki lengur í vímuefnin og það er það sem við þurfum að horfa til, ekki að refsa fólki fyrir að nota þessa einu lausn sem það þekkir eða kann í sínu lífi.

Í Noregi er komin út skýrsla, mjög yfirgripsmikil skýrsla, sem ég er reyndar búin að biðja upplýsingaþjónustu Alþingis um að þýða að einhverju leyti, af því að hún er ekki til á ensku. Mér skilst að eftir mikla vinnu í Noregi við að skoða lausnir og nálgun á skaðaminnkun séu menn komnir að þeirri niðurstöðu að það eigi að afglæpavæða án þess að skikka einstaklinga í úrræði en setja fjármagn í úrræði, fjölbreytt úrræði, fyrir vímuefnaneytendur og hætta að refsa fólki heldur fara að skoða þetta sem heilbrigðisvandamál og aðstoða fólk. Afsakið, ég brann á tíma, ég man ekki seinni hlutann af spurningunni.