150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég var að spyrja einfaldra spurninga, hvort honum fyndist ekki miklu betra að vita af því að þarna sé komið af stað úrræði þar sem hægt er að fá hreinar nálar, einstaklingar séu ekki að sprauta sig á leikskólalóðum og ekki sé hætta á að börn stingi sig á þessum nálum. Við vitum að það er smithætta, lifrarbólga C, að alls konar smithætta er af þessum nálum. Er þetta ekki bara jákvætt skref? Og líka hitt að það er fólk sem sprautar sig í kjöllurum og í skúmaskotum þar sem er mjög ógeðslegt, það getur farið, ég er ekki að segja að það fari, en það getur farið. Það er heldur ekki hægt að ná í þessa einstaklinga til að fara í meðferð. Þeir koma ef þeir vilja og það er nefnilega það sem er bara staðreyndin. Ég er búinn að sjá þetta, ég var lögreglumaður í ein sjö ár, fyrir nær 40 árum, og hef séð flestar ljótu hliðarnar á þessum málum, því miður, og það verður að segjast eins og er að þetta eru sjúklingar, þetta er veikt fólk.